Samningur um suðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs
Fjölþætt markmið
Markmið samningsins eru fjölþætt. Til dæmis á að móta stefnu um að jafna ágreining á milli ólíkra hagsmunaaðila um nýtingu og verndun landslagsheilda og skapa þannig samstöðu í samfélaginu eftir því sem kostur er um markmið, starfsemi og uppbyggingu þjóðgarðsins; að marka stefnu um uppbyggingu mannvirkja, vega, reiðleiða, göngubrúa og helstu gönguleiða; að móta stefnu um uppbyggingu og starfsemi þjóðgarðsins og marka stefnu um sjálfbæra nýtingu í og við þjóðgarð, hvernig tryggja beri vernd líffræðilegrar fjölbreytni og landslagsheilda. Einnig á að fjalla um nýtingu innan marka þjóðgarðsins, t.d. hvað varðar sauðfjárbeit, veiðar á fuglum og dýrum og aðra starfsemi. Í þessari vinnu verður sérstaklega gætt að miklu samráði við nefndir sveitarfélagsins, yfirstjórn þjóðgarðsins og hagsmunaaðila. Áhersla er lögð á að landeigendur sem eiga land innan eða við mörk þjóðgarðs, bændur, útivistarfólk, ferðaþjónustuaðila og náttúruverndarsamtök.
Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri skrifaði undir samninginn sem varaformaður stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs, ásamt þeim Þorvarði Árnasyni, forstöðumanni Háskólasetursins á Höfn og Hjalta Þór Vignissyni, bæjarstjóra á Höfn og formanns svæðisráðs Suðursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs. Sama dag var einnig efnt til fræðslufunda, bæði í Freysnesi í Öræfum og í Nýheimum á Höfn. Þeir hófust með ávarpi Ólafar Ýrr sem einnig svaraði fyrirspurnum fundargesta. Þá notaði hún tækifærið til að kynna sér ferðamál á svæðinu.
Mynd: Þorvarður, Ólöf Ýrr og Hjalti Þór að undirskrift samnings lokinni.
Birt:
Tilvitnun:
Ferðamálastofa „Samningur um suðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs“, Náttúran.is: 30. apríl 2008 URL: http://nature.is/d/2008/04/30/samningur-um-suoursvaeoi-vatnajokulsthjoogaros/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.