Grasbalinn sem settur var upp tímabundið á Lækjartorgi á síðasta ári hefur nú lokið hlutverki sínu og hyggst borgin sá næstu grænu fræjum á Hverfisgötunni. Tvö stæði við Hverfisgötu 42 verða tyrfð í lok þessarar viku og um leið helguð fólki en ekki bílum.

Þetta er á meðal ýmissa verkefna sem unnið er að á vegum borgarinnar í sumar til að virkja opin rými og vekja borgarbúa til umhugsunar um hvernig þeir geta notað þau. Stæðin tvö við Hverfisgötu eru staðsett hjá Kling og bang galleríi sem hyggst stökkva á tækifærið og nýta grænu svæðin í tengslum við uppákomur á laugardaginn 10. júlí.

Annað sem er á döfinni á næstunni er að Austurstræti, Pósthússtræti og hluti Hafnarstrætis verða eingöngu opin gangandi og hjólandi vegfarendum í sumar og verður það kynnt fljótlega. „Borgaryfirvöld vilja með þessu styðja vistvænan ferðamáta og glæða miðborgina enn frekara lífi,“ segir Karl Sigurðsson formaður umhverfis- og samgönguráðs og að borgarstjóri velti ennfremur fyrir sér hvað muni leysa grasbalann á Lækjartorgi af hólmi til að lífga upp á miðbæinn.

Sjá kort af grænu svæðunum Lækjargötu og Hverfisgötu.

Sjá einnig Garðveislu-Facebooksíðu Kling og Bang.

Birt:
6. júlí 2010
Tilvitnun:
Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkur „Stæði verður grænt svæði“, Náttúran.is: 6. júlí 2010 URL: http://nature.is/d/2010/07/06/staedi-verdur-graent-svaedi/ [Skoðað:23. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 26. júlí 2010

Skilaboð: