Erfðabreyttar lífverur - Réttur almennings aukinn
Alþingi samþykkti nýverið breytingar á lögum um erfðabreyttar lífverur sem kveða meðal annars á um aukinn aðgang almennings að upplýsingum og aukinn rétt til að gera athugasemdir vegna umsókna um ræktun og notkun erfðabreyttra lífvera.
Breytingarnar á lögunum byggja á tilskipun Evrópusambandsins. Markmið tilskipunarinnar er að samræma lög og stjórnsýslufyrirmæli aðildarríkjanna sem og að vernda heilsu manna og umhverfi við sleppingu erfðabreyttra lífvera út í umhverfið. Tilskipunin gerir ráð fyrir að erfðabreyttar lífverur sem sleppt er út í umhverfið geti fjölgað sér í umhverfinu með óbætanlegum afleiðingum. Til að vernda heilsu manna og dýra er því talið nauðsynlegt að hafa tilhlýðilega áherslu á eftirlit með sleppingu erfðabreyttra lífvera út í umhverfið. Talið var nauðsynlegt að koma á sameiginlegri aðferðafræði við framkvæmd mats á umhverfisáhættu og vöktun erfðabreyttra lífvera eftir að þeim hefur verið sleppt eða þær settar á markað. Tilskipunin kveður á um ítarlegri málsmeðferðarreglur en áður var gert. Þannig er meðal annars gert ráð fyrir að umsækjanda beri að framkvæma mat á umhverfisáhættu af sleppingu erfðabreyttra lífvera og að Umhverfisstofnun beri að semja matsskýrslu þegar sótt er um leyfi til markaðssetningar. Þá er kveðið á um aukinn rétt almennings á þessu sviði, meðal annars hvað varðar aðgang að upplýsingum og rétt til að gera athugasemdir vegna umsókna um að setja erfðabreyttar lífverur eða vörur sem innihalda þær á markað. Ennfremur er lögð á Umhverfisstofnun skylda til þess að leita samráðs við almenning um fyrirhugaðar sleppingar eða markaðssetningar erfðabreyttra lífvera, áður en endanleg ákvörðun um leyfisveitingu er tekin.
Tilskipunin tekur sérstakt mið af varúðarreglunni og kveður á um að taka beri tillit til hennar við framkvæmd. Varúðarreglan er meginregla í umhverfisrétti sem er meðal annars að finna í Ríó-yfirlýsingunni. Hún felur í sér að skorti á vísindalegri fullvissu, þar sem hætta er á alvarlegu eða óbætanlegu tjóni, skuli því ekki beitt sem rökum til að fresta kostnaðarhagkvæmum aðgerðum sem koma í veg fyrir umhverfisspjöll. Þetta má líka orða þannig að þegar fyrir hendi er vísindaleg óvissa um afleiðingar framkvæmda fyrir umhverfið, skuli náttúran njóta vafans. Þannig skal, eins og nafn reglunnar ber með sér, fara fram af varúð gagnvart umhverfinu.
Birt:
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Erfðabreyttar lífverur - Réttur almennings aukinn“, Náttúran.is: 30. júní 2010 URL: http://nature.is/d/2010/06/30/erfdabreyttar-lifverur-rettur-almennings-aukinn/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.