Starfsfólk óskar áheyrnarfulltrúa í stjórn OR
Áheyrnarfulltrúi starfsmanna í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur (OR), endurskoðun fríðinda stjórnenda, sparnaður og laun nýs stjórnarformanns OR voru á meðal þess sem kom til umræðu á fundi Jóns Gnarr borgarstjóra og Haraldar Flosa Tryggvasonar með um 200 starfsmönnum Orkuveitu Reykjavíkur í dag. Markmið fundarins var að kynna starfsfólki áherslur Reykjavíkurborgar varðandi OR, helstu verkefni sem eru framundan í rekstrinum og að svara spurningum starfsfólks.
Hjá borgarstjóra kom fram það mat hans að OR væri afar verðmæt ekki bara vegna þeirra lífsgæða sem fyrirtækið býr borgarbúum heldur ekki síður þeir möguleikar sem í því búa til framtíðar. Hann sagði frá þeim þremur megináherslum sem Reykjavíkurborg hefur varðandi fyrirtækið, sem hann kynnti meðeigendum á aðalfundi OR á föstudag.
Þær eru að:
- Auðlindir verði nýttar með þeim hætti að ekki sé gengið á framtíðarmöguleika til nýtingar þeirra.
- Allar ákvarðanir um nýtingu auðlinda og nýtingin sjálf einkennist af ást og virðingu fyrir umhverfinu.
- Borgarbúar njóti öruggrar þjónustu frá traustum aðilum og geti gengið að upplýsingum um störf og stöðu orkufyrirtækja í eigu borgarinnar.
Þá nefndi borgarstjóri að sér þætti sérkennilegt að fyrirtækið greiddi eigendum arð meðan kreppti að og það væri rekið með halla.
Á fundinum, sem Hjörleifur B. Kvaran forstjóri OR stýrði, bar starfsfólk fram spurningar af ýmsum toga. Spurt var um bílafríðindi stjórnenda, fyrri störf stjórnarformannsins og núverandi kjör hans, væntanlegar breytingar í ljósi þess að meirihluti fulltrúa borgarinnar í stjórn OR er ekki skipaður stjórnmálamönnum og borin var fram ósk af hálfu Starfsmannafélags OR um að starfsfólk fái áheyrnarfulltrúa í stjórninni. Var tekið jákvætt í beiðnina og verður hún lögð fram á fyrsta fundi hinnar nýju stjórnar.
Hjá Haraldi Flosa kom fram að stór verkefni blasa við, sérstaklega í fjármálum. Hann sagði það ljóst að ef gjaldskrár eigi að hækka hjá OR, þá verði viðskiptavinir að vera þess fullvissir að fyrirtækið sé að veita þjónustu með allra hagkvæmasta hætti. Það sé m.a. tilgangur fyrirhugaðrar rekstrarúttektar að tryggja að svo sé. Meðal starfsfólks kom fram gagnrýni á umtöluð fríðindi stjórnenda og launakjör nýs stjórnarformanns, sem verður tímabundið í fullu starfi. Haraldur Flosi sagði fríðindin verða endurskoðuð og að hann voni að þekking sín og reynsla við endurskipulagningu reksturs komi OR til góða og að ábatinn nái að borga upp launin sín og gott betur.
Rafbílar eru á meðal þeirra tækifæra sem OR á að taka þátt í að innleiða, sagði borgarstjóri á fundinum. Hann hefur hug á að embætti hans hafi yfir slíkum bíl að ráða og sagðist binda vonir við að í Reykjavík geti skapast þróttmikil starfsemi við þróun rafbíla.
Ljósmynd: Heilisheiðarvirkun, Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Orkuveita Reykjavíkur „Starfsfólk óskar áheyrnarfulltrúa í stjórn OR“, Náttúran.is: 29. júní 2010 URL: http://nature.is/d/2010/06/29/starfsfolk-oskar-aheyrnarfulltrua-i-stjorn-or/ [Skoðað:26. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.