Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra hefur staðfest tillögur Orkuráðs um styrki úr Orkusjóði til rannsóknar- og kynningarverkefna fyrir árið 2008. Styrkirnir eru veittir til verkefna sem beinast að nýtingu innlendra orkugjafa og hagkvæmri orkunotkun.

Veittir eru 18 styrkir að upphæð 22,8 milljónir króna. Alls bárust 52 umsóknir um samtals 126 m.kr. og voru í þeim hópi ýmis áhugaverð og mikilsverð verkefni sem ekki var unnt að styrkja að þessu sinni.

Rannsóknar- og fræðslustyrkir eru veittir árlega úr Orkusjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 87/2003, um Orkustofnun, Orkuráð og Orkusjóð, til „sérstakra verkefna á sviði hagkvæmrar orkunotkunar, þ.m.t. til fræðslu og upplýsingastarfsemi“ og til „verkefna sem stuðla að nýtingu á innlendri orku í stað jarðefnaeldsneytis og styrkja alþjóðasamvinnu um slík verkefni“. Í auglýsingu var nú líkt og undanfarin ár lögð áhersla á verkefni sem snertu hagkvæma orkunýtingu og orkusparnað, innlenda orkugjafa, vistvænt eldsneyti og sparnað jarðefnaeldsneytis. Um hvern styrk er gerður samningur þar sem kveðið er á um verk- og kostnaðaráætlun, áfanga við greiðslu styrkfjárhæðarinnar, framvinduskýrslur og skilagögn. Miðað er við að styrkir úr Orkusjóði geti numið allt að helmingi kostnaðar við verkefnið sem styrkinn hlýtur eða þann hluta þess sem styrktur er.

Stærsti styrkurinn nú fer til verkefnis um eldsneytisframleiðslu úr örverum, og annar litlu minni til lífmassaverkefnis. Að öðru leyti má segja að samgöngur – rafbílar og hjólreiðar – og sjávarútvegur skipi öndvegi við styrkúthlutunina, enda einna mest þörf á orkuskiptum í þessum greinum. Tveir styrkir tengjast landbúnaði og aðrir tveir rekstri smávirkjana.

Orkuráð starfar í tengslum við Orkustofnun og er meginhlutverk þess að sjá um rekstur Orkusjóðs. Sjóðurinn veitir  áhættulán til jarðhitaverkefna og  styrki til rannsókna og fræðsluverkefna um endurnýjanlega orku, orkunýtingu og orkusparnað. Iðnaðarráðherra skipar  í ráðið til fjögurra ára í senn og starfa þar frá 2007 þau Mörður Árnason, formaður, Bryndís Brandsdóttir, Drífa Hjartardóttir, Guðjón Guðmundsson og Ingibjörg Inga Guðmundsdóttir.

Verkefnin 18 sem fá styrk úr Orkusjóði að þessu sinni eru:

1.    „Örorka“ – etanól úr örverum – 3,6 m.kr.

Matís – Guðmundur Óli Hreggviðsson. Verkefnið er hluti umfangsmikillar rannsóknar sem Matís ohf. vinnur að í samstarfi við HA og norræn fyrirtæki og rannsóknarstofnanir. Heildarverkefnið gengur út á þróun á framleiðslu etanóls úr plöntuleifum. Matís hefur nú þegar náð góðum árangri í að endurbæta ákveðinn bakteríustofn með tilliti til etanólframleiðslu með erfðatækni. Í fyrirhuguðu verkefni stendur til að þróa annað tilbrigði af þessum sama stofni, sem getur brotið niður sellulósa. Hitastöðugir sellulósar hafa verið auðkenndir í annarri örverutegund og er markmiðið að flytja gen þeirra inn í etanólframleiðslustofninn. Þar með mun stofninn geta brotið niður sellulósa í glúkósa sem hann nýtir í framleiðslu etanóls með gerjun. Með því að sameina eiginleka sellulósaniðurbrots og gerjunar í einum stofni væri stigið stórt skref í því að gera nýtingu fjölsykurlífmassa til etanólframleiðslu hagkvæma.  Verkefnið tekur tvö ár og fylgir styrknum vilyrði fyrir sambærilegum styrk á næsta ári.

2. Tilraunaframleiðsla á eldsneyti úr lífmassa – 3,2 m.kr.


Mannvit – Ásgeir Ívarsson. Verkefnið er framhald verkefnis sem hlaut styrk úr Orkusjóði í fyrra, og er nú ætlunin að framleiða  vistvænt eldsneytis úr hverskyns lífmassa í svokölluðum lífmassaverum, annarsvegar lífdísil úr úrgangi frá lýsisframleiðslu og hinsvegar lífetanól úr sellulósaríku hráefni. Verða hönnuð og smíðuð kerfi til tilraunaframleiðslu og þau rekin til að afla upplýsinga til grundvallar framleiðslukerfum í fullri stærð. Verði niðurstöður fyrrnefnda verkþáttarins jákvæðar má auka lífdísilframleiðslu á Akureyri um allt að 300–400 tonn árlega. Niðurstöður úr síðarnefnda verkþættinum nýtast við gerð hagkvæmnimats fyrir lífetanólverksmiðju með 15–20 þúsund tonna afkastagetu á ári.

3.    Könnun: Verksmiðja til að framleiða litín-rafhlöður – 2,3 m.kr.


Guðrún Svavarsdóttir, HR. Kanna á möguleika á að koma upp verksmiðju til að framleiða litín-rafhlöður í samgöngutæki. Við framleiðsluna yrði nýtt endurnýjanleg orka og felst verkefnið í að athuga kostnað og umhverfisávinning við slíka verksmiðju á Íslandi miðað við samskonar rekstur með jarðeldsneyti.

4.    Rafbílar fyrir almenning: Viðhorf og reynsla – 2 m.kr.

Íslensk NýOrka - Jón Björn Skúlason. Hraði og umfang víðtækra tæknibreytinga ræðst ekki síst af viðhorfum til nýrrar tækni og þeirri reynslu sem almenningur fær af henni. Það getur því flýtt orkuskiptum í samgöngum að bílar knúnir nýrri vistvænni orku henti fjölskyldunni sem best og að bílaseljendur og ráðamenn viti sem mest um þarfir og viðhorf neytenda. Í því skyni verður auglýst eftir átta fjölskyldum til að prófa vetnisrafbíl í mánuð og rafgeymabíl annan mánuð í almennri notkun. Gögnum veður safnað úr bílunum með síritum og rætt við fjölskyldurnar um reynsluna af nýju bílunum. Verkefnið verður kynnt rækilega og gætu niðurstöðurnar einnig aukið þekkingu og áhuga almennings á hinni nýju tækni.

5.    Sjávarfallavirkjun í Hvammsfriði, arðsemismat – 1,6 m.kr.

Níels Sveinsson. Verkefnið felst í að finna túrbínutegund og búnað sem best hentar til virkjunar við aðstæður í mynni Hvammsfjarðar, og er meistaraverkefni í orkufræðum hjá Orkuskólanum Reyst, unnið í samvinnu við Sjávarorku hf. í Stykkishólmi. Mikið rannsóknarstarf hefur verið unnið á þessum áratug við sjávarfallavirkjun í Hvammsfirði, og hlaut Sjávarorka meðal annars 8,5 m.kr. styrk úr Orkusjóði til þessa árið 2001. Við þetta verkefni ættu að skapast forsendur til að reikna út með hefðbundnum hætti arðsemi af virkjun í Hvammsfirði miðað við íslenskan raforkumarkað.

6.    Varmaendurvinnsla á Seljavöllum – 1,6 m.kr.

Vattará – Bjarni Jakobsson. Verkefnið snýst um að hanna varmaendurvinnslukerfi í landbúnaðarrekstri, og verður unnið í samstarfi við eigendur búsins á Seljavöllum í Hornafirði. Markmiðið er að endurvinna varmaorku og lækka orkukostnað í landbúnaði með því að athuga hversu mikil hitaorka fellur til við húsdýrahald og garðávaxtakælingu og reikna út hvort hagkvæmt er að nýta hana til upphitunar. Til þess verður mæld varmaorka í fjósinu og kartöflugeymslunni á Seljavöllum, og kannað hvað mikið fellur til af brennanlegum úrgangi í búrekstrinum. Hannað verður varmaendurvinnslukerfi sem hentar þessum orkugjöfum, dreifikerfi sem miðlar orkunni til íbúðarhúsa á jörðinni og orkumiðlun sem geymir orku (í heitu vatni) til þess að jafna út sveiflur í orkuframboði.

7.    Umhverfisáhrif smávirkjana – 1,1 m.kr.

Veiðimálastofnun – Sigurður Guðjónsson. Verkefninu er ætlað að leiða í ljós hvaða áhrif smávirkjanir hafa á lífríki í vatni og auka þekkingu á því hvernig komast má hjá skaðlegum áhrifum af smíði og rekstri smávirkjana. Í verkefninu felst meðal annars að taka saman allar tiltækar upplýsingar um smávirkjanir (< 10 MW) hérlendis, og meta áhrif sem framkvæmdir og rekstur kunna að hafa haft á lífríki vatnsins, sérstaklega fiskistofna. Fjölmargar smávirkjanir hafa verið reistar í gegnum tíðina og er áhugi á slíkum virkjunum vaxandi, enda oft vænlegur kostur til raforkuframleiðslu. Þær eru á hinn bóginn undanþegnar formlegu umhverfismati og hafa rannsóknir á lífríki fyrir framkvæmdir í mörgum tilvikum verið takmarkaðar. Verkefnið gæti hjálpað bæði eigendum og stjórnvöldum við umhverfisúrbætur og ábyrgan rekstur smávirkjana.

8. Lífeldsneyti í stað olíu á flotann, hagkvæmnisathugun – 1 m.kr.

Sævar Birgisson. Megintilgangur verkefnisins er að kanna hvort það er hagkvæmt fyrir íslensk útgerðarfyrirtæki að skipta um orkugjafa með því að nota lífeldsneyti í stað dísilolíu. Verkefnið tengist rannsóknarverkefni Siglingamálastofnunar, Landbúnaðarháskólans og níu bænda um ræktun vetrarrepju og -nepju til lífeldsneytisframleiðslu. Verkefnið verður unnið í samstarfi við Siglingamálastofnun og Fisk Seafood á Sauðárkróki.

9. Sesseljuhús. Orkunotkun í sjálfbærri byggingu – 900 þús.kr.

Sesseljuhús, umhverfissetur. Sesseljuhús á Sólheimum er hannað til sjálfbærni í orkunotkun. Verkefnið felst í að kortleggja orkunotkun og nýtingu mismunandi orkugjafa í húsinu og bera saman við svipaðar byggingar.

10.    Arðsemi vegaframkvæmda í ljósi nýrra aðstæðna – 750 þús.kr.

Haraldur Sigþórsson og Stefán Einarsson, HR. Verkefnið felst í að endurmeta arðsemi vegaframkvæmda vegna breyttra aðstæðna og viðhorfa í samgöngumálum, þar á meðal minnkandi þjóðartekna, hækkandi olíuverðs sem greiða þarf í gjaldeyri, og hins háa hlutfalls samgöngugeirans í útblásturskvóta landsins. Meðal annars verður leitað svara við því hvort nú þurfi nýtt arðsemislíkan um vegagerð, og annarskonar tengingu gjaldtöku og þjóðartekna. Svörin gætu breytt forsendum við ákvarðanir í vegamálum.

11.    Stýribúnaður fyrir litlar vatnsaflsvirkjanir – 750 þús.kr.


Bjarni Malmquist Jónsson, Jaðri í Suðursveit. Verkefnið beinist að því að nýta sem best orkuna í lítilli vatnsaflsvirkjun. Til þess er búinn til háþróaður stýribúnaður þannig að rétt álag á rafal haldi tíðninni stöðugri. Er þess vænst að með þessu sé hægt að auka heildar-raforkuframleiðslu heimarafstöðvar um fimmtung. Byggð verður frá grunni lítil rafstöð (10–15 kW) og stýribúnaður í hana hannaður og smíðaður hér á landi.

12.    Metan á dagróðrarbáta – 750 þús.kr.

Metan – Björn H. Halldórsson. Kannaðir verða möguleikar á að koma fyrir metangeymum í hefðbundnum dagróðrarbáti, athugaður kostnaður við slíkan búnað og uppsetningu í bátnum og kannað hvaða vélar eru fáanlegar sem ganga eingöngu fyrir metani og hentað geta í dagróðrabáta. Einnig  verður kannaður kostnaður við að breyta dísilvél í  tvíorkuvél sem nýtir  blöndu af metani og dísil en getur eftir sem áður gengið eingöngu fyrir dísilolíu. Þá verður athugaður kostnaður við áfyllingarbúnað í höfnum og fleiri atriði sem upplýsingar þurfa að liggja fyrir um til að stuðla að orkuskiptum á trilluflotanum.

13.    Hjólafærni – Bláfjallaævintýri unglinga – 700 þús.kr.

Hjólafærni á Íslandi – Sesselja Traustadóttir. Fræðasetrið Hjólafærni á Íslandi hefur ásamt ýmsum samstarfssamtökum boðið öllum nemendum á unglingastigi á höfuðborgarsvæðinu að hjóla í Bláfjöll með gistingu í Breiðabliksskálanum. Alls kynnu ferðirnar að verða tíu fyrir 800 nemendur. Með ferðunum er ungu fólki sýnt að hægt er að nota eigin orku og fara í ferðalag án þess að bensín á bílinn sé í öndvegi. Þetta er þróunarstarf og er vonast til að það sé aðeins upphafið að því að stórauka hjólreiðar meðal ungra vegfarenda.

14.    Umfjöllun um eldsneyti á flotann – 700 þús.kr.


Karl Eskil Pálsson blaðamaður. „Leggjumst á árarnar“ er fyrirsögn umfangsmikillar fréttaumfjöllunar um leiðir til að draga úr eldsneytisnotkun flotans, sem birtast á í Útvegsblaðinu. Stefnt er að aðgengilegri og markvissri umfjöllun sem ætluð er útvegsmönnum og sjómönnum og mun byggja á upplýsingum frá helstu sérfræðingum á þessu sviði.

15.    Metanframleiðsla úr seyru – 600 þús.kr.

Metan – Björn H. Halldórsson. Kannað verður hversu mikið fellur til af niðurbrjótanlegum skólpúrgangi á höfuðborgarsvæðinu, hverjar eru álitlegar tæknileiðir við að framleiða metan úr slíkum úrgangi og hvaða önnur efni gætu hentað með seyru til slíkrar framleiðslu. Þá verður könnuð staða mála í grannlöndum og kostnaður við að hreinsa þetta metan til eldsneytisnotkunar. Með þessu gæti fengist grundvöllur til frekari könnunar á framleiðslu metans úr seyru hérlendis.

16.    Varmanýting í fiskiskipum – 600 þús.kr.

Stefán Steindórsson – Norðurorka. Markmið verkefnisins er að vinna að bættri varmanýtingu um borð í kæli- og frystiskipum og nota núverandi glatvarma í stað raforku til að knýja kælivélar. Til samanburðar verður einnig skoðað hvort fýsilegt er að vinna frekari raforku úr varma sem nú glatast, þá með tvenndarvél. Olíunotkun fiskiskipaflotans nemur tæpum þriðjungi af heildarolíunotkun landsmanna, um 260 milljónir lítra árlega, þar af 35 milljónir lítra í raforkuframleiðslu. Er því til mikils að vinna ef hluta þessarar orkuþarfar yrði fullnægt með því að nýta orku sem nú glatast.

17.    Orkusparnaður í mjólkuriðnaði – 470 þús.kr.

Margrét Ormslev Ásgeirsdóttir. Verkefnið felst í að beita lögmálum varmafræðinnar til orkusparnaðar í iðnaðarferlum, hér í mjólkuriðnaði, með svokallaðri varmagreiningu. Aðferðinni hefur verið beitt erlendis með góðum árangri en ekki markvisst á Íslandi. Ávinningurinn fælist í bættri orkunýtni og orkusparnaði í mjólkuriðnaði, þar sem mjög er beitt kælingu og hitun, en einnig gæti þekking og reynsla við verkefnið nýst í öðrum iðngreinum.

18.    Vindmyllur í frístundabyggð – 175 þús. kr.

Sæþór Ásgeirsson. Smíðaðar verða tvær vindmyllur fyrir frístundabyggð við íslenskar aðstæður og settar upp til reynslu á sérvöldum stöðum. Búið er að hanna myllurnar sem eru óhefðbundnar og einfaldar, og gætu orðið ódýrar í framleiðslu. Hugmyndin kviknaði út frá verkefni við vélaverkfræðideild HÍ.

Birt:
June 28, 2010
Tilvitnun:
Iðnaðarráðuneytið „18 styrkjum úthlutað til verkefna sem beinast að nýtingu innlendra orkugjafa og hagkvæmri orkunotkun“, Náttúran.is: June 28, 2010 URL: http://nature.is/d/2010/06/28/18-styrkir-uthlutadir-til-kynningar-innlendra-orku/ [Skoðað:June 21, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: