OR logo - gylltNý stjórn tók við á aðalfundi OR í dag. Á fundinum lagði Jón Gnarr borgarstjóri fram áherslur Reykjavíkurborgar í rekstrinum. Haraldur Flosi Tryggvason er nýr stjórnarformaður og auk hans skipa stjórnina þau Helga Jónsdóttir, Aðalsteinn Leifsson, Kjartan Magnússon, Sóley Tómasdóttir og Hrönn Ríkharðsdóttir. Áheyrnarfulltrúi Borgarbyggðar er Björn Bjarki Þorsteinsson.
Forstjóri OR er Hjörleifur B. Kvaran.
OR er sameignarfélag í eigu þriggja sveitarfélaga; Reykjavíkurborgar (94%), Akraneskaupstaðar (5%) og Borgarbyggðar (1%). Framkvæmdastjórar sveitarfélaganna – borgarstjórinn í Reykjavík, bæjarstjórinn á Akranesi og sveitarstjóri Borgarbyggðar – fara með atkvæði þeirra á aðalfundi.

Megináherslur í rekstrinum
Á fundinum í dag lagði borgarstjóri fram megináherslur Reykjavíkurborgar í rekstri fyrirtækisins og eru þær þessar:

  1. Auðlindir verði nýttar með þeim hætti að ekki sé gengið á framtíðarmöguleika til nýtingar þeirra.
  2. Allar ákvarðanir um nýtingu auðlinda og nýtingin sjálf einkennist af ást og virðingu fyrir umhverfinu.
  3. Borgarbúar njóti öruggrar þjónustu frá traustum aðilum og geti gengið að upplýsingum um störf og stöðu orkufyrirtækja í eigu borgarinnar.

Þá sagði borgarstjóri að veganesti borgaryfirvalda til nýrrar stjórnar væri m.a. að skilgreina væntanlega úttekt á rekstri fyrirtækisins með það að markmiði að skýra stöðu mála og draga fram þær áskoranir og þá möguleika sem eru í stöðunni og einbeita sér sérstakalega að fjármögnun þess. Hann ræddi tengingu starfsemi OR við starf nýrrar orku- og auðlindanefndar Reykjavíkurborgar og vill að fyrirtækið leggi aukna áherslu á fjölbreytni í orkusölu til stórnotenda. Borgarstjóri sagði breytingarnar kalla á skýra forystu stjórnar OR og því muni nýr stjórnarformaður fyrst um sinn sinna því verkefni í fullu starfi.
Á fundinum samþykktu fulltrúar eigenda einróma að Haraldur Flosi Tryggvason verði tímabundið í fullu starfi og miðist heildarkjör hans við kjör sviðsstjóra hjá Reykjavíkurborg án fríðinda.

Skýrsla fráfarandi stjórnar
Á fundinum flutti Guðlaugur G. Sverrisson skýrslu fráfarandi stjórnar. Í máli hans kom meðal annars fram að ráðist hafi verið í umfangsmiklar aðhaldsaðgerðir innan OR á síðasta ári. Þær hafi skilað 320 milljóna króna sparnaði á síðasta ári og varanlegur sparnaður verði enn meiri. Hann lagði einnig áherslu á mikilvægi þess að samstaða hafi verið í stjórn OR þegar ný heildarstefna fyrirtækisins var samþykkt í lok árs 2009. Þar hafi verið skerpt á umhverfisáherslum, lögð áhersla á aukna fjölbreytni í raforkusölu til stórnotenda og síðast en ekki síst hafi rekstrinum verið sett skýr arðsemismarkmið. Guðlaugur sagði markmiðin kalla á gjaldskrárbreytingar en það væri hans mat að hækkanir eigi að vera í hóflegar og í áföngum og koma til framkvæmda á fyrirfram tilgreindum dögum og ná yfir 3ja til 5 ára tímabil.

Birt:
25. júní 2010
Tilvitnun:
Orkuveita Reykjavíkur „Ný stjórn Orkuveitu Reykjavíkur tók við á aðalfundi í dag“, Náttúran.is: 25. júní 2010 URL: http://nature.is/d/2010/06/25/ny-stjorn-orkuveitu-reykjavikur-tok-vid-adalfundi-/ [Skoðað:26. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: