Um preparöt almennt
Te er einkum gert af blöðum og blómum plantna. Þá er hellt yfir jurtirnar sjóðandi vatni og látið trekkja svolitla stund. Betra er þó að láta vatnið ekki vera bullsjóðandi því þá tapast sumar af rokgjörnum olíum blómanna. Af þurrkuðum jurtum má nota 1 tsk fyrir hvern bolla en þrefalt meira af ferskum jurtum. Ef te á að notast sem lyf er það látið trekkja lengur og jurtirnar kreistar eins og tepoki til að ná úr þeim sem mestum krafti. Hella má upp á fyrir einn dag í einu.
Seyði
Jurtir sem eru þéttar í sér, rætur og fræ þarf oft að mylja eða raspa til að ná úr þeim virkum efnum. Setja þær síðan í kalt vatn og sjóða vægt í 20–60 mínútur, jafnvel lengur. Þetta er kallað að seyða. Nota má 100 g af þurrkuðum jurtum á móti 1 lítra af vatni eða 300 g af ferskum. Oft er soðið uns 1/3 vökvans hefur gufað upp. Sigta síðan og kreista ef vill. Ef jurtir eru sjaldgæfar eða erfitt að fá þær, má sjóða upp á þeim allt að þrisvar sinnum og nýta úr þeim allt sem hægt er. Seyðið skal geyma í kulda og hægt að frysta það ef soðið er til meir en fjögurra daga í senn.
Áfeng urtaveig
Vatn leysir upp sum efni í jurtum en vínandi önnur. Urtaveig eða tintúra er gerð á þann hátt að ferskum eða þurrkuðum jurtum er pakkað þétt í sterkan vínanda. 45% vodki dugar en landi er sterkari. Þrþstið jurtunum vel niður og látið standa í 2–3 vikur og hristið stöku sinnum. Síið svo vínandann frá jurtunum og pressið þær eftir getu. Urtaveigar hafa mikið geymsluþol. Aðeins á að taka inn lítið í einu, teskeið eða nokkra dropa. Þegar ráðlagt er í eldri bókum að láta vín standa á jurtum og súpa síðan af daglega, er það sama aðferð. Líka má leggja jurtir í létt vín en slík veig geymist ekki lengi. Urtaveig má gera af maríustakki, mjaðjurt, blöðruþangi, piparrót, skarfakáli, jóhannesarrunna, rósmarín, víðiberki, arfa, rauðsmára og garðabrúðu, svo eitthvað sé nefnt, en aðeins ein jurt er notuð í hverja veig. Síðar má blanda veigunum saman ef vill.
Heit jurtaolía
Í 1/2 l af sólblómaolíu má setja 250 g þurrkaðar jurtir eða 750 g ferskar. Olía og jurtir eru hitaðar og haldið vel heitum í vatnsbaði í 3 klst. Síðan er olían síuð frá og jurtirnar kreistar. Sett á dökkar flöskur, gjarnan gömul vítamínglös, og lokað vel. Þessi aðferð er góð fyrir valurt, arfa og rósmarín.
Köld jurtaolía
Jurtunum er troðið þétt í glæra, víða krukku, olíu hellt á uns flþtur yfir og lokað. Krukkan er síðan látin standa í sólarglugga í 2–3 vikur. Jurtirnar skulu vera vel þurrar þó þær séu ferskar og það þarf að þrýsta þeim niður í olíuna af og til. Eftir það er olían síuð frá og jurtirnar pressaðar. Þessi aðferð er góð fyrir morgunfrú og jóhannesarrunna. Síðan má setja ferskar jurtir í þessa olíu á nýjaleik og láta standa í nokkrar vikur í viðbót. Sett í dökkar glerkrukkur með góðu loki.
Úr Ætigarðinum - handbók grasnytjungsins, eftir Hildi Hákonardóttur. Bókin er fáanleg hér á Náttúrumarkaðinum.
Ljósmynd: Jurtaþurkkun, Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Um preparöt almennt“, Náttúran.is: 22. febrúar 2013 URL: http://nature.is/d/2007/11/07/um-prepart-almennt/ [Skoðað:30. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 7. nóvember 2007
breytt: 14. mars 2014