Segja má að pítsan sé nútímaandstæða hins gamla súrdeigsbrauðs. Hún kom, sá og sigraði, fyrst til New York á sjötta áratugnum og þá með vissum stæl, því bakararnir stóðu úti við opna sölugluggana í sumarhitunum og flöttu út deigið með því að snúa því á fingri sér svo það breiddist út fyrir áhrif miðflóttaaflsins og náði réttri stærð. Svona hafði það verið gert um aldir í heimalandinu, Ítalíu. Etrúskar bökuðu pítsur milli tveggja heitra steina. Í Rómaveldi hófst stórframleiðsla á hveiti í Norður–Afríku.

Að fólkið heimtaði brauð og leiki, panem et circenses, mun ekki hafa verið staðreynd sem slík, heldur ásökunarorð sagnfræðings í því skyni að lítillækka Rómverja, enda urðu þau afar fleyg og festust í sögunni. Hins vegar var brauði útbýtt ókeypis, þegar sérstaklega stóð á, ráðamenn eða pótintátar þurftu að friða samviskuna eða hætta var á að alvarleg óánægja brytist út meðal almúgans.

Fyrirfólk bauð hins vegar hvert öðru í fínar veislur eftir að Rómverjar tileinkuðu sér hinn makráða lífsstíl Grikkja. Ærleg veisla hét cena recta á latínu. Gestgjafinn fór þá á torgið, leigði sér kokk til að taka að sér eldamennskuna og hann sá svo um að velja með sér starfslið. Réttirnir voru fjölmargir og bornir fram á brauðdiskum, sem var gamall siður. Þegar gestirnir höfðu snætt það sem þeir vildu af krásunum var handhægast fyrir alla aðila að þeyta brauðdiskunum með leifunum út um opna gluggana til lýðsins, sem stóð úti fyrir og fylgdist með. Þá spöruðust bæði uppþvottur og ölmusugjafir. Þetta var einn kaflinn í fjölbreytilegri ævisögu pítsunnar, sem nú er orðin alþjóðleg.

Birt:
13. október 2013
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Pítsan - brauð nútímans“, Náttúran.is: 13. október 2013 URL: http://nature.is/d/2007/11/05/ptsan-brau-ntmans/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 5. nóvember 2007
breytt: 1. janúar 2013

Skilaboð: