Hellisheiðavirkjun Orkuveitu Reykjavíkur var opnuð við hátíðlega afhöfn í dag, fyrsta vetrardag. 1400 gestum hafði verið boðið til opnunarinnar. Fámennara var þó en búast hafði verið við. Ræðumenn við hátíðahöldin voru Geir H. Haarde forsætirsráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson stjórnarformaður OR, Masafumir Wani forstjóri Mitsibushi Heavy Industries (MHI Nippon), og Guðmundur Þóroddsson forstjóri OR. Íslensku ræðumönnunum var tíðrætt um umhverfið, náttúruna, umhverfisvæni, umhverfisvernd og stefnumörkun fyrirtækisins á því sviði.

Látið var að því liggja að orkan sem nú er framleidd í virkuninni komi að mesu höfuðborgarbúum til góða. Nokkuð fannst höfundi þessarar fréttar örla á að talað væri í kringum hlutina og reynt að láta líta út fyrir að ekkert og þá alls ekki neitt sé hægt að betrumbæta varðandi umhverfismál OR. Því þá að auka áhersluna á umhverfismál innan fyrirtækisisn ef allt er fullkomið og nokk betur, eins og það er? Það er ekki nokkur leið, og ástæðulaust, að hylma yfir það að virkjunin er fyrst og fremst hugsuð til að anna raforkuþörf álvera nú og í framtíðinni. Þó að hugmyndin sé að virkjunin anni einnig heitavatnsþörf höfuðborgarsvæðisins frá og með 2009 (kannski) er það ekki megintilgangur þessarar virkunar. Því þá ekki bara að viðurkenna það? Annars ágætum hátíðahöldum var varpað í nokkuð furðulegt ljós við lofræður þessar. Greinilegt er að mikil og gagnrýnin umhverfismálaumræða hefur haft þau áhrif að OR er harðákveðið í að vera til fyrirmyndar á þessu sviði og er bara hægt að fagna því.
Guðlaugur Þór talaði um stefnu fyrirtækisins í umhverfismálum, styrkingu vísindarannsókna í samstarfi við háskólana og niðurstöður fundar Young Global Leaders nú á dögunum. Sagði hann m.a. í ræðu sinni að ef verkefni um niðurdælingu koltvísýrings reynist möguleg og tækist hér á landi væri hægt að líkja árangrinum við tröllasögurnar úr þjóðsögunum, þegar að tröllin breyttust í stein. Góð samlíking hjá Guðlaugi Þór, en eins og aðrar þjóðsögur er ekki víst að þessi gerist í raunveruleikanum. Þangað til er gott að OR stefni að því að taka fullkomið tillit til umhverfisins.
-
Hellisheiðarvirkjun hefur nú fengið starfsleyfi og hangir það uppi í anddyri stöðvarhússins. Leyfið er dagsett þ. 19. 10. 2006.


Myndirnar eru frá opnuninni, sú efri er tekin af gestum á svölum í andyri og sú neðri af Geir, Guðlaugi Þór, og Birni Inga við sviðsetta gangsetningu virkunarinnar.
Ljósmyndir: Guðrún Tryggvadóttir.

 

Birt:
21. október 2006
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Hellisheiðavirkjun vígð“, Náttúran.is: 21. október 2006 URL: http://nature.is/d/2007/03/19/hellisheidarvirkjun_vigd/ [Skoðað:20. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 19. mars 2007
breytt: 3. maí 2007

Skilaboð: