Er Náttúrubanki Íslands í öruggum höndum? - afmælisfundur Framtíðarlandsins 16. júní
Þann 16. júní næstkomandi kl.12:00 á hádegi verður afmælisfundur Framtíðarlandsins í Þjóðmenningarhúsinu. María Ellingsen kynnir starf félagsins og nýja stjórn og Andri Snær Magnasson veltir upp þeirri spurninguhvort sá banki sem við eigum í náttúru Íslands sé í öruggum höndum og hvað þarf að geratil að verjast aukinni ásókn í þann höfuðstól.
Allir sem áhuga hafa á framtíð Íslands eru hvattir til að mæta, fá sér súpu og leggja fram sínar hugmyndir á teikniborðið.
Framtíðarlandið- félag áhugafólks um framtíð Íslands hélt sinn fjórða aðalfund 27.maí síðastliðinn. Framtíðarlandið er þverpólitískt þrýstiafl og hugmyndaveita sem styður stjórnvöld, atvinnulífið og stofnanir til að móta framsýnt samfélag í sátt við náttúru landsins. Félagar eru 3000 talsins og byggir starfið á víðtækri þátttöku frumkvöðla, fræðimanna, listamanna og einstaklinga af öllum sviðum atvinnulífsins. Félagið, sem var stofnað 17. júní 2006, hefur meðal annars staðið fyrir þingum, bæði í Reykjavík og á landsbyggðinni, undir yfirskriftinni „Ísland á teikniborðinu" þar sem kallað var eftir framtíðarsýn og skapandi atvinnustefnu. Í þessum anda átti Framtíðarlandið þátt í því að skapa vettvang til umræðu um framtíð Íslands með Þjóðfundi í lok síðasta árs þar sem 1500 manns, þverskurður af þjóðfélaginu, komu saman til að ræða á hvaða gildum og stoðum við viljum byggja samfélagið. Þá réðst Framtíðarlandið í það mikilvæga verkefni að gera aðgengilegt á netinu kort af Íslandi sem gefur yfirsýn yfir þau svæði sem fyrirhugað er að nýta til orkuframleiðslu eða raska á annan hátt vegna stóriðjuáforma á Íslandi. Auk ljósmynda af hverju svæði fyrir sig eru veittar ítarlegar náttúrufarsupplýsingar, sjá: www.natturukortid.is
Í nýkjörinni stjórn sitja: Andri Snær Magnason, rithöfundur, Birkir Björnsson, gagnagrunnssérfræðingur, Irma Erlingsdóttir, forstöðukona rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum við HÍ, María Ellingsen, leikari og leikstjóri, Ósk Vilhjálmsdóttir, myndlista- og leiðsögukona, Pétur Bragason, verkfræðingur, Sigrún Þorgeirsdóttir, viðskiptafræðingur, Sigríður Þorgeirsdóttir, prófessor í heimspeki við HÍ og Þröstur Sverrisson, umhverfissagnfræðingur
Með félaginu starfar einnig öflugt sérfræðingaráð.
Birt:
Tilvitnun:
Framtíðarlandið „Er Náttúrubanki Íslands í öruggum höndum? - afmælisfundur Framtíðarlandsins 16. júní“, Náttúran.is: 15. júní 2010 URL: http://nature.is/d/2010/06/15/er-natturbanki-islands-i-oruggum-hondum-afmaelisfu/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.