Ályktun fundar um stækkun friðlands Þjórsárvera sem haldinn var í Norræna húsinu í dag laugardaginn 07. janúar 2006 að viðstöddu fjölmenni. Ályktun þessi var einróma samþykkt af fundarmönnum með löngu lófataki:

Fundur til stuðnings verndunar Þjórsárvera, haldinn í Norræna húsinu 7. janúar 2006, skorar á stjórnvöld að stöðva áform Landsvirkjunar um frekari virkjunarframkvæmdir í Þjórsárverum. Þess í stað verði friðlandið stækkað í samræmi við tillögur Umhverfistofnunar frá 2003.

Umhverfisráðherra hefur með úrskurði sínum 29. desember 2005 sett skipulag Þjórsárvera aftur á byrjunarreit og jafnframt opnað fyrir þann möguleika að allar hugmyndir um virkjanir á svæðinu verði teknar út úr skipulagi. Samvinnunefnd um svæðisskipulag miðhálendisins hefur rík málefnaleg rök fyrir því að hafna alfarið Norðlingaölduveitu við skipulag Þjórsárvera og þess í stað að vinna að stækkun friðlandsins í Þjórsárverum. Fundurinn telur að umhverfisráðherra sé skylt að styðja slíka ákvörðun.
Þjórsárver eru óumdeilanlega eitt verðmætasta svæðið á hálendi Íslands. Fundurinn telur það að eitt brýnasta verkefnið í náttúrvernd á Íslandi að stækka verndarsvæðið þannig að það falli að náttúrulegum mörkum veranna.

Þjórsárver eru miklu víðfeðmari en núverandi friðland. Þar er að finna eitt víðáttumesta og fjölbreyttasta gróðursvæði á hálendinu sem hþsir mesta heiðagæsavarp í heimi. Þýðing þessarar gróðurvinjar fyrir náttúruauðlegð Íslands og alls heimsins er ótvíræð enda er hún á lista Ramsarsáttmálans um votlendi er hafa alþjóðlegt mikilvægi, einkum fyrir vatnafugla. Landslagsheild Þjórsárvera er ægifögur með jökul sem bakgrunn, fjölbreytt gróðurlendi, tjarnir og vötn, mikið fugla- og smádýralíf, jökulár svo ekki sé minnst á víðerni. Virtir erlendir sérfræðingar telja vel mögulegt að Þjórsárver verði sett á Heimsminjaskrá UNESCO fari stjórnvöld þess á leit.
Minnt er á að andstaða heimamanna gegn virkjunarframkvæmdum er mjög sterk og á sér langa sögu. Ennfremur er mikill stuðningur meðal almennings um stækkun friðlandsins í Þjórsárverum. Ráðamenn verða að hlusta á kall nýrra tíma og taka tillit til viðhorfa sem fela í sér mat á gildi óspilltrar náttúru.
Það er löngu tímabært að ríkisstjórn Íslands og Alþingi taki af skarið og lýsi yfir að ekki verði af frekari virkjunarframkvæmdum í eða við Þjórsárver, og að friðlandið verði stækkað til samræmis við náttúruleg mörk veranna.

Ályktun lýkur.

Af fundinum: Fyrsti dagskrárliður fundarins var fluttur af hópi fólks sem las ljóð og aðra texta sem fjalla um Þjórsárver og stórbrotna náttúru svæðisins. Upplestrinum fylgdi myndasýning frá Þjórsárverum. Ljósmyndirnar voru eftur Jóhann Ísberg o.fl. Enn af upplesurum, ungur drengur, flutti eftirfarandi hugvekju eftir sjálfan sig að ég ætla: Ef farið verður inn í Þjórsárver og land skemmt, er þá verið að hugsa um mig? Kannski fáum við betri hugmyndir!

Ljósmyn: Guðrún Tryggvadóttir

Birt:
7. janúar 2006
Uppruni:
Umhverfisstofnun
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Þjórsárver eru þjóðargersemi - þeim má ekki spilla“, Náttúran.is: 7. janúar 2006 URL: http://nature.is/d/2007/03/22/tjorsarver_tjodargersemi/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 22. mars 2007
breytt: 4. maí 2007

Skilaboð: