Ferðaiðnaðurinn er farinn að finna fyrir áhrifunum sem hvalveiðar Kristjáns Loftssonar hafa á umheiminn. Ferðaskrifstofur sniðganga Ísland sem áfangastað, enda vilja margar þeirra ekki tengja sig og fyrirtæki sín við „hvalveiðiþjóð“. Það þarf í sjálfu sér ekki neinn að furða sig á því að viðbrögð heimsins séu á þessa lund. Heimurinn elskar hvali og hatar þá sem drepa þá, svo einfalt er málið.

Val ferðamanna á áfangastað snýst ekki um það hvort að gefa eigi Íslendingum sjálfsákvörðunarrétt í þessu máli eða ekki, heldur um að halda sig frá landi sem svo gerir, því annars þætti þeim að þeir væru að styðja hvalveiðar. En málið snýst ekki eingöngu um ferðaiðnaðinn heldur allar íslenskar vörur og þjónustu á erlendum mörkuðum (nema kannski Japansmarkaði). Um áraraðir hefur heimsbyggðin barist gegn hvalveiðum.

Ég greinarhöfundur bjó til fjölda ára í Bandaríkjunum og í Evrópu og get vitnað að beggja vegna Atlandshafsins hefur um árabil verið í gangi hatrömm barátta gegn hvalveiðum Íslendinga og gegn „íslenskum vörum“. Í Cleveland (þar sem ég bjó á árunum 1988-1993) voru t.a.m. fjölrituð blöð heftuð á ljósastaura og límd upp í glugga verslana um alla borg (2 millj. íbúa borg) þar sem hvalveiðum Íslendinga var mótmælt harðlega og skorað á fólk að sniðganga „Iceland Seafood products“. Ég sem Íslendingur þurfti að svara fyrir veiðarnar um áraraðir, alsaklaus manneskjan. Þetta var hvimleiður andskoti og gerði mig að ævilöngum hvalveiðiandstæðing. Í Þýskalandi var ég einnig sökuð um að drepa stærstu spendýr jarðar og var litin hornauga þangað til ég gat sannfært viðkomandi um að ég væri persónulega ekki ábyrg. Svona er nú raunveruleikinn og hefur ekkert með það að gera að einhverjir Íslendingar þurfi að mega sanna sjálfsákvörðunarrétt sinn svo að við getum talist sjálfstæð þjóð.
Til hvers var og er verið að eyða peningum í að auglýsa Ísland erlendis, með glæsilegum sendiráðum, sýningum, lambakjötskynningum, skyr.is og öllu hinu ef Kristjáni Loftssyni er síðan gefin heimild til að skemma fyrir öllum hinum með veiðum á örfáum hvölum sem gefa ekki fyrirheit um neina efnahagslega framtíð í stað þess sem tapast með athæfinu.
-
Mér finnst persónulega miklu skemmtilegra að vera stolt af landinu mínu heldur en að þurfa að skammast mín fyrir heimóttarhátt þeirra sem leyfa slíka firru. Svona ákvarðanir eru ekki teknar af fólki sem hefur séð landið sitt utanfrá og gert sér virkilega grein fyrir smæð þess og umkomuleysi.
Nú stendur yfir undirskriftasöfnun á thepetition.com gegn hvalveiðum Kristjáns Loftssonar.

Birt:
28. október 2006
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Dýrkeyptar hvalveiðar - Ábyrgðin hjá stjórnvöldum“, Náttúran.is: 28. október 2006 URL: http://nature.is/d/2007/03/19/dyrar_hvalveidar/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 19. mars 2007
breytt: 2. maí 2007

Skilaboð: