Einstakar urtaveigar eru gerðar úr einstökum hlutum jurta eða allri plöntunni. Það var Paracelsus (1493–1541) sem auðgaði lyfjasafn lækna „með því hann leitaðist við að ná til hins virka kjarna ýmissa lyfjaefna, einkum jurta með því að gera úr þeim vínandaseyði“. Við erum því að öðlast svolitla hlutdeild í leyndardómum gullgerðarlistarinnar með gerð urtaveiga því margt af því sem Paracelsus stóð fyrir er í nánum tengslum við hana.

Sagt er að andi plantnanna birtist í urtaveiginni. Urtaveig er oft notuð fyrir fræ og þéttar rætur, sem eru þá marðar og brytjaðar niður. Þarna gildir það sama og um seyði að meira þarf að vinna á þessum plöntuhlutum.

  • Arfaveig er talin vinna gegn liðagigt.
  • Blöðruþangsveig er talin góð fyrir gigtarsjúklinga og þá sem hafa tregvirkan skjaldkirtil.
  • Fíflarótarveig þykir eitt besta jurtameðal við slæmri lifur en ekki þola allir áfengi, sem þannig er ástatt fyrir, og þá verður jafnvel að bjargast með seyði.
  • Garðabrúðuveig úr rótum vinnur gegn svefnleysi en best er að byrja með smáa skammta.
  • Hvannarveig má gera úr öllum hlutum plöntunnar og hún er styrkjandi fyrir meltingarfærin og öndunarfærin.
  • Jóhannesarrunnaveig er talin geta unnið á taugaspennu ef hún er notuð samfleytt í tvo mánuði og sumir geðlæknar mæla með tei úr blöðum runnans á kvöldin.
  • Maríustakksveig er, eins og nafnið bendir til, talin líkna konum sem hafa slæma tíðaverki og óreglulegar blæðingar.
  • Mjaðjurtarveig má nota við magaverkjum og súrum maga.
  • Morgunfrúarveig er talin vinna gegn slæmri meltingu, sljórri lifur og erfiðum tíðaverkjum. Blómin eru mest notuð en sumir vilja blöðin með og aðra hluta jurtarinnar.
  • Njólaveig úr rótinni vinnur helst á húðvandamálum. Njóla má nota bæði innvortis og útvortis.
  • Piparrótarveig sopin að morgni dags læknar meltinguna en drepur orma í innyflum, ef hún er tekin að kveldi.
  • Rauðsmáraveig gerð af blómum er notuð gegn exemi og soriasis.
  • Rósmarínveig er hressandi og vekjandi. Hana má gera af heilum greinum jurtarinnar.
  • Skarfakálsveig er góð fyrir brjóst og maga og eyðir vindi og andremmu ef hún er tekin inn að morgni dags, segir þjóðtrúin.
  • Vallhumalsveig gerð af blöðum og blómum má reyna gegn þvagvandamálum og tíðaverkjum.

Myndin er af garðabrúðu, tekin við Vík í Mýrdal þ. 30.07.2008. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.

Úr Ætigarðinum - handbók grasnytjungsins, eftir Hildi Hákonardóttur. Bókin er fáanleg hér á Náttúrumarkaðinum.

Birt:
18. júní 2013
Uppruni:

Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Einstakar urtaveigar“, Náttúran.is: 18. júní 2013 URL: http://nature.is/d/2007/11/07/einstakar-urtaveigar/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 7. nóvember 2007
breytt: 1. janúar 2013

Skilaboð: