Salt og sandur var ofarlega í huga gesta á málþingi Félags umhverfisfræðinga á Íslandi um umferðarmengun og loftgæði en það var haldið á Akureyri í gær. „Sandur á götum er aukauppspretta svifryks,“ segir Anna Rósa Böðvarsdóttir hjá Umhverfis- og samgöngusviði.

Sandi er dreift á götur til að vinna bug á hálkunni á Akureyri en salt er notað í Reykjavík. Árið 2007 fór svifryk 40 sinnum yfir heilsuverndarmörk á Akureyri en 17 sinnum í Reykjavík. Salt og sandur eru þó ekki einu svifryksvaldarnir því fjöldi bifreiða á nagladekkjum vegur þungt, úrkoma og lega höfuðstaðanna.

„Minni mengun – betri heilsa“ var yfirskrift málþings umhverfisfræðinga og beindist athyglin að svifryksmengun því hún er loftgæðavandinn í þéttbýli. Svifryk á sér margar uppsprettur en uppspænt malbik er mikilvirkur orsakavaldur ásamt nagladekkjum og hálkuvörnum.

Ókostur þess að dreifa sandi á götur felst í svokölluðum „sandpappírsáhrifum“. Núningur milli bíldekkja og sands á götum slítur malbikið og þá brotnar sandurinn í örsmáar einingar. Rykkorn sem mælist PM10 að stærð kallast svifryk. Ókosturinn við salt felst í því að valda bifreiðum auknu ryði. Spurt var á málþinginu hvort væri verra: ryðguð bifreið eða heilsutjón vegna svifryks?

Anna Rósa Böðvarsdóttir, heilbrigðisfulltrúi á Umhverfis- og samgöngusviði Reykjavíkurborgar, flutti erindi á ráðstefnunni og sagði frá loftgæðamálum í Reykjavík og hver framtíðarsýnin væri. „Erlendar rannsóknir sýna að því meiri sandur sem er á götum því meiri verða sandpappírsáhrifin og malbikið eyðist hraðar. Sandur er því aukauppspretta svifryks,“ sagði Anna Rósa.

Anna Rósa nefndi ýmiskonar mótvægisaðgerðir gegn svifryki sem beitt er í hinum ýmsu borgum: dregið úr umferðarhraða. götum lokað tímabundið, tollur tekinn í ákveðnum bæjarhlutum, þungaumferð takmörkuð, bílar sem menga mikið útilokaðir frá ákveðnum svæðum, rykbindingar og hreinsun, fræðsla og aðgengilegar upplýsingar.

Anna Rósa nefndi einnig að unnið væri að aðgerðaráætlun um loftgæði í borginni og að loftgæðastjórnunarkerfi sem meðal annars fæli í sér að hægt verður að gera loftgæðaspár fyrir almenning. Loks nefndi hún að Umhverfis- og samgöngusvið væri í samvinnu við Landspítalann, Stofnun Sæmundar fróða og Miðstöð í lþðheilsuvísindum um áhrif mengunar á almenning. „Þessi samvinna er mjög mikilvæg til að komast að því hversu mikil áhrif loftmengun hefur á heilsufar almennings,“ sagðir Anna Rósa.
Birt:
15. apríl 2008
Höfundur:
Gunnar Hersveinn
Tilvitnun:
Gunnar Hersveinn „Hvort er verra salt eða sandur?“, Náttúran.is: 15. apríl 2008 URL: http://nature.is/d/2008/04/15/hvort-er-verra-salt-eoa-sandur/ [Skoðað:27. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: