Ástandið er að kaffæra þjóðina
Í dag laugardaginn 1. nóvember boða Nýir tímar til borgarafundar í Iðnó kl. 14:00 og mótmæla á Austurvell kl. 15:00. Nýir tímar er ekki stjórnmálaafl heldur sameiningartákn fyrir þá sem sætta sig ekki við að núverandi valdhafar, þeir sem sigldu okkur í kaf, fái að „greiða úr“ óreiðunni líka.
Vefurinn kjósa.is er óháð framtak og safnar undirskriftum þeirra sem finnst skynsamlegast að boða til nýrra kosninga. Nú þegar hafa tæplega fjögurþúsund undirskriftir safnast.
Á vef Nýrra tíma eru nokkrar hugleiðingar sem lýsa vel stöðunni sem uppi er komin í þjóðfélaginu og þeirri angist sem er að grafa um sig meðal þjóðarinnar. Nokkur dæmi hér að neðan:
Ábyrgðarlaus ríkisstjórn
Þegar fólki í æðstu stöðum þjóðfélagsins verður á mistök þá á það að taka ábyrgð á gjörðum sínum og segja af sér. Mistök á mistök ofan og enn sitja þau. Þau benda hvert á annað, engin ber ábyrgð. Þjóðin borgar!
Blá-saklaus ríkisstjórn
Ef ríkisstjórninni hefur mistekist að ná fram markmiðum sínum með þeim ósköpum að fjármálakerfi þjóðarinnar er hrunið, gengi gjaldmiðilsins er í frjálsu falli, verðbólguspá er á bilinu 50-70%, gjaldeyrisviðskipti hafa stöðvast, lífskjör almennings hríðfalla og fyrirtæki leggja unnvörpum upp laupana – hvenær, ef ekki þá, er tími til kominn fyrir ríkisstjórnina að segja af sér?
Fræðilegt vandamál?
Stjónvöld ábyrgjast heilt spilavíti, rússneska rúllettu og niðurstaðan er ónýtt mannorð heillar þjóðar. Þau segja ekkert og þeir segja ekkert. Fræðilegt eða hræðilegt vandamál?
Ekki hlustað á varnaðarorð IMF, né annarra
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn varaði stjórnvöld við árið 2006 og sagði útþenslu bankanna vera "hrikalega" eða "staggering" eins og það var orðað. Stjórnvöld kusu að hlusta ekki á varnarorð sjóðsins frekar en annara fræðinga!
Smáþjóð með risabanka
Stærð bankanna í hlutfalli við ríkið var alltof mikil. Í stað þess að efla gjaldeyrisvarasjóðinn eða beita sér fyrir því að hluti af starfsemi bankanna færi úr landi gerði ríkisstjórnin ekkert, ekki neitt.
Stþrivextir í dag, stýrivextir á morgun
Tvisvar á tíu dögum hafa stýrivextir verið lækkaðir og svo hækkaðir. Hver tók ákvörðun um það? Veit það einhver? Ef ríkisstjórnin veit það ekki, hver þá?
Ríkisstjórnin rannsakar ríkisstjórnin
Ríkisstjórnin er ábyrg fyrir þeirri peningamálastefnu sem nú hefur hrunið. Hún talaði fyrir einkavæðingu bankanna, blinduð og vankunnandi, stefnu og stjórnlaus. Og rannsakar nú sjálfa sig!
Pólitískur Seðlabankastjóri
Hæfur, hlutlaus og vel menntaður hagfræðingur ætti að stjórna Seðlabankanum en ekki umdeildur stjórnmálamaður með lögfræðipróf. Samkvæmt skoðanakönnun vill 90% þjóðarinnar að Seðlabankastjóri víki og það strax. Ríkisstjórnin hlustar ekki á þjóðina.
Engin svör
Kynningarfulltrúar bankanna, a.k.a. ríkisstjórnin, heldur blaðamannafundi í útlöndum og segir Lýðurinn borgar! Þau halda blaðamannafundi á Íslandi en svara ekki þeim þúsund spurningum sem á okkur hvílir: Hvað sagði hver við hvern? Hvenær? Um hvað? Hvernig? Hvað verður?
IceSave á okkar ábyrgð
Örfáir einstaklingar fengu leyfi til þess að veðsetja þjóðina, að henni forspurðri. Það er ein stærsta atlaga sem gerð hefur verið að lýðræði þjóðarinnar og alvarleikinn slíkur að jaðrar við föðurlandssvik. Tilboði Breta um að bjarga IceSave ekki tekið? Hverju og hverjum trúum við nú? Hverjum treystum við? Ekki ríkisstjórninni!
Myndirnar eru teknar í miðbæ Reykjavíkur síðastliðinn laugardag. Ljósmyndir:Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Ástandið er að kaffæra þjóðina“, Náttúran.is: 8. nóvember 2008 URL: http://nature.is/d/2008/11/08/astandio-er-ao-kaffaera-thjooina/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.