Í sólskinsblíðu laugardagseftirmiðdaginn 19. ágúst áttu nokkrir einstaklingar kost á því að fara í fræðsluferð með Pétri M. Jónassyni prófessor um Þingvelli og vatnasvið Þingvallavatns. Fjallað var í ferðinni um margvíslegan fróðleik um náttúru og sögu, en Pétur er einstakur fræðari og mikill eldhugi í náttúruverndarmálum, sem býr yfir einstakri þekkingu um Þingvallavatn, jarð- og vistfræði auk fróðleiks um búsetu, mannlíf og þjóðhætti á bæjum í nágrenni vatnsins.

Eins og allir vita er mikinn fróðleik að finna í náttúru og sögu Þingvallasvæðisins og alltaf er skemmtilegt að fara í fræðslumiðstöðina á Hakinu við Almannagjá, fyrst verður þó fróðleikurinn lifandi þegar fólk fær að njóta kynningu við fræðimann og eldhuga sem Pétur er, en fræðsla hans um náttúru Þingvallasvæðisins með áherslu á vatnið, sérstöðu þess og lífríki, jarðfræði og grunnvatnsrennsli er bæði lifandi og bráðskemmtileg með innskotum um menn og málefni, bæði þá sem gengir eru og þá sem setja svip á samtímann.

Þegar fjallað er um svo fjölbreytilegt efni eins og fiska og landrekskenningar, málverk Kjarvals og Jóns Stefánssonar, gróður, niturmengun, trjárækt og vegamál, hitnar í frásögninni þegar haldið er að Trinton og í átt að Stóra-Dímon og séð yfir og hugleitt um Gjábakkaveg í beinni aksturslínu í átt að Laugarvatni á 120. Þeim fjölgar líka, sem eru komnir á þá skoðun, að fyrirhugaður vegur #365, frá þjóðgarðinum til Laugarvatns, eins og Vegagerðin og Alþingi hefur ákveðið, sé hið almesta kostnaðarsamt glapræði. Nær sé að endurgera í nútímaveg umrædda leið á núverandi vegstæði og hætta þar með við að gera hraðbraut, sem færi um ósnortið land m.a. um óskert víðerni Eldborgarhraunsins.

Pétur hefur undanfarin 3 ár barist hart gegn lagningu þessa Miðfellsvegar um Eldborgarhraun og er nú eini aðilinn sem hefur kært úrskurð Skipulagsstofnunar um umhverfismat á umræddu verki. Hann hefur m.a. bent á hversu mikilfenglegt útsýni er á núverandi Kóngsvegi og einstakt er t.d. fyrir ferðamenn að stoppa þar víða og virða fyrir sér landslag og náttúru við Þingvallavatn og öðlast skilning á landinu og kenningum um landrek, en hvergi í heiminum er hægt að sjá á landi hvernig Evrópu og Ameríku landflekarnir sigla í hvor sína áttina, en þarna upp við Trinton sést vel hvernig hraunstraumar, sprungur og Þingvallavatn sameinast í eina heild; Atlantshafshrygginn.

Vel væri hægt að hugsa sér að komið sé upp útsýnispalli, með skýringum um jarðfræði og náttúrufar, þarna við veginn1. Um þennan veg hafa íslendingar farið í meir en 1100 ár á ferðum sínum til og frá Alþingi. Vegir í þjóðgörðum eiga ekki að vera hraðbrautir, þeir eiga að fylgja landslaginu og taka tillit til náttúrufars þar, sem hægt er að njóta og skoða fegurð og náttúru. Hinn vaxandi atvinnuvegur, sem ferðaþjónusta er færi mikils á mis við að missa af möguleika á slíkum fróðleik, eins og gefst kostur á þarna; “Af Kóngsveginum er eitt fegursta og dýrmætasta útsýni yfir Þingvallaþjóðgarð, sjálfan Atlanthafshrygginn og Þingvallasigdældina í heild sinni.” Svo vitnað sé í Pétur. Miðfellsvegur gegnum Eldborgarhraun er ekki einungis eyðilegging á ósnortnu landi heldur yrði þetta bein og útsýnislítil hraðbraut, líklega snjóþung á vetrum. Jafnframt mundi þessi vegur auka mengunarhættu verulega fyrir viðkvæmt náttúrufar Þingvallavatns auk þess að vera í raun lengri leið fyrir íbúa þar austur í Tungum og Laugarvatni, því lítil raunsamgöngubót.
-
Pétur Mikkel Jónasson (f.1920) er professor emeritus dr. phil hjá Kaupmannahafnarháskóla og hefur hann starfað við rannsóknarstofu háskólans í vatnalíffræði (Ferskvatnsbiologisk Laboratorium Köbenhavns Universitet) síðan 1956. Pétur var um tíma forseti Alþjóðasamtaka vatnalíffræðinga og Hins íslenska fræðafélags í Kaupmannahöfn. Pétur hefur unnið að rannsóknum á lífríki Þinvallavatns um langt árabil og er höfundur og ritstjóri fræðibóka um Þingvallavatn og Mývatn. Pétur dvaldi sem ungur drengur um árabil hjá afa sínum og ömmu (Ása Þorkelsdóttir 1866-1950 og Guðmundur Jónsson Ottesen 1869-1956) að Miðfelli í Þingvallasveit og tileinkaði bókina um Þingvallavatn minningu þeirra.
-
Greinarhöfundur: Birgir Þórðarson umhverfisskipulagsfræðingur 08/2006.
1Efri myndin er tekin þaðan sem Pétur leggur til að útsýnispallur verði reistur. Séð niður til Kóngsvegar. Neðri myndin er af Pétri M. Jónassyni í kynnisferðinni sem greinin fjallar um.
Ljósmyndir: Guðrún Tryggvadóttir.


Birt:
21. ágúst 2006
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Pétur M. Jónasson - Lífríki Þingvallavatns stefnt í voða með fyrirhuguðum Gjábakkavegi“, Náttúran.is: 21. ágúst 2006 URL: http://nature.is/d/2007/03/22/lifrthing_voda/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 22. mars 2007
breytt: 30. mars 2008

Skilaboð: