Ábyrgð framleiðenda og innflytjenda á rafeindaúrgangi
Reglugerðin er sett í framhaldi af breytingu á lögum um meðhöndlun úrgangs sem samþykkt var í vor. Með breytingu á lögum um meðhöndlun úrgangs var komið á ábyrgð framleiðanda og innflytjanda á raf- og rafeindaúrgangi. Frá og með næstu áramótum eru skilakerfi ábyrg fyrir meðhöndlun raf- og rafeindatækjaúrgangs sem fellur undir reglugerðina, en allir framleiðendur og innflytjendur eiga að vera aðilar að skilakerfi. Jafnframt skulu framleiðendur og innflytjendur skrá sig í skráningarkerfi framleiðenda og innflytjenda. Ábyrgð skilakerfa nær til fjármögnunar og meðhöndlunar raf- og rafeindatækjaúrgangs, að frátalinni söfnun til söfnunarstöðva. Ábyrgð framleiðenda og innflytjenda nær til landsins alls án tillits til þess hvar varan er seld.
Merkja skal raf- og rafeindatæki með mynd af yfirstrikaðri sorptunnu, en merkið gefur til kynna að safna skuli raftækjum sérstaklega, og skulu framleiðendur og innflytjendur upplýsa kaupendur um að heimilt er að skila raf- og rafeindatækjaúrgangi frá heimilum án greiðslu og að þeir ábyrgist meðhöndlun hans. Í reglugerðinni eru jafnframt sett markmið varðandi endurnýtingu og endurvinnslu raf- og rafeindatækjaúrgangs.
Samhliða setningu reglugerðarinnar tók til starfa Stþrinefnd raf- og rafeindatækjaúrgangs sem hefur umsjón með skilakerfum sem felst m.a. í því að safna upplýsingum frá þeim, meta hvort þau uppfylli skyldur sínar og hvort þau standi undir fjárhagslegum skuldbindingum sínum. Formaður nefndarinnar er Árni Vilhjálmsson hrl., en aðrir í nefndinni eru Bryndís Skúladóttir, Guðrún Björk Bjarnadóttir, Knútur Signarsson og Sigurður Örn Guðleifsson.
Erindi til nefndarinnar skal senda á:
Stþrinefnd raf- og raftækjaúrgangs
b.t. Árni Vilhjálmsson hrl.
Logos
Efstaleiti 5
103 Reykjavík
Nánari upplýsingar veitir Gunnlaug Einarsdóttir, sviðsstjóri sviðs umhverfisgæða.
Mynd:Merki sem skilt er verður að setja á raf- og rafeindatæki. ©Sigrún Guðmundsdóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Umhverfisstofnun „Ábyrgð framleiðenda og innflytjenda á rafeindaúrgangi“, Náttúran.is: 15. desember 2008 URL: http://nature.is/d/2008/12/15/abyrgo-framleioanda-og-innflytjenda-rafeindaurgang/ [Skoðað:22. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.