Unnið að viðbragðsáætlun vegna landtöku hvítabjarna
- Starfshópur hefur verið skipaður til að vinna að viðbragðsáætlun.
- Landhelgisgæslan hefur eftirlit með hvítabjörnum í samstarfi við Umhverfisstofnun.
- Unnið að því að taka saman kostnað sem féll til vegna tilrauna við að bjarga hvítabirninum.
Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra átti fund með Carsten Gröndal, yfirdýralækni dýragarðsins í Kaupmannahöfn, í umhverfisráðuneytinu í dag. Á fundinum var rætt um aðgerðir Umhverfisstofnunar við að bjarga hvítabirninum sem fannst í Skagafirði í fyrradag og umhverfisráðherra þakkaði Carsten Gröndal fyrir veitta aðstoð.
Umhverfisráðherra hefur skipað starfshóp til að vinna að tillögum um viðbragðsáætlun vegna hugsanlegra landtöku hvítabjarna hér á landi. Starfshópurinn mun við vinnu sína taka mið af þeirri reynslu sem fengist hefur af landtöku tveggja hvítabjarna við Skagafjörð síðustu tvær vikur og viðbrögðum við komu þeirra. Ennfremur mun hópurinn leita sem víðast eftir reynslu og þekkingu annarra á þessu sviði og hefur Carsten Gröndal samþykkt að vera starfshópnum til ráðgjafar.
Þyrla Landhelgisgæslunnar fór í eftirlitsflug um Hornstrandir í dag til að kanna hvort hvítabirnir finnist á svæðinu. Eftirlitið fer fram í nánu samstarfi við Umhverfisstofnun og Jón Björnsson, starfsmaður stofnunarinnar, var með í för við eftirlitsflugið í dag. Landhelgisgæslan mun leita víðar á næstu dögum, auk þess sem hefðbundnu ískönnunarflugi á Fokker flugvél Landhelgisgæslunnar verður haldið áfram.
Umhverfisstofnun vinnur nú að því fyrir umhverfisráðuneytið að taka saman kostnað sem til féll vegna tilraunar við að bjarga hvítabirninum í Skagafirði í gær. Vonast er til að þeirri vinnu ljúki í næstu viku.
Myndin er af fundi Þórunnar Sveinbjarnardóttur og Carsten Gröndal í umhverfisráðuneytinu í morgun.
Birt:
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Unnið að viðbragðsáætlun vegna landtöku hvítabjarna “, Náttúran.is: 18. júní 2008 URL: http://nature.is/d/2008/06/18/unnio-ao-viobragosaaetlun-vegna-landtoku-hvitabjar/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.