Líflegar borgir draga úr bílaumferð
„Leiðin til að skapa rými fyrir fólk í borgum er að ganga á rými bifreiða,“ sagði Jan Gehl á fyrirlestri í hádeginu á vegum Félags íslenskra landslagsarkitekta. Gehl er arkitekt og starfaði sem prófessor í Kaupmannahafnarháskóla. „Fleiri og betri vegir og bílastæði merkir aðeins meiri umferð og loftmengun.“
Fræðasvið Gehls hefur í fjóra áratugi beinst að því að skapa meira rými í borgum fyrir fólk. Hann hefur með góðum árangri unnið að því að hreinsa bifreiðar af torgum, stéttum og upplögðum göngugötum - með nýju skipulagi. Hann hefur skrifað áhrifaríkar bækur um efnið, sú þekktasta heitir Lífið á milli bygginga og sú nýjasta Nýr lífsstíll í borgum og fjallar um hvernig Kaupmannahöfn hvarf frá því að vera bílaborg til þess að vera borg útilífs og útivistar. Hlutfall þeirra sem nú hjóla til og frá vinnu í Kaupmannahöfn er nú 36%.
Gehl sagði að leiðin til að bjarga borg undan bílnum væri að greiða götu gangandi og hjólandi með áberandi og áþreifanlegum hætti. Hann stofnaði fyrirtækið Gehl Architects eftir að hann fór á eftirlaun og nú vinnur GA meðal annars fyrir borgarstjórn New York bjóða hjólreiðafólk velkomið með því að leggja 6. þúsund km af hjólareinum. „Ráðið er að bjóða hjólandi og gangandi velkomið með mannvirkjum sem ganga á hlutdeild bifreiða,“ sagði Jan Gehl.
Mynd frá fyrirlestri Jan Gehls sem fram fór á Grand Hótel í Reykjavík og var mjög vel sóttur.
Birt:
Tilvitnun:
Gunnar Hersveinn „Líflegar borgir draga úr bílaumferð “, Náttúran.is: 13. maí 2008 URL: http://nature.is/d/2008/05/13/liflegar-borgir-draga-ur-bilaumfero/ [Skoðað:27. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.