Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra tilnefndi Guðlaugstungur og Snæfells- og Eyjabakkasvæðið á lista Ramsarsamningsins yfir alþjóðlega mikilvæg votlendissvæði á ráðstefnu um votlendissvæði á Hvanneyri í dag. Umhverfisráðherra og landeigendur undirrituðu einnig viljayfirlýsingu um að friðlýsa votlendissvæði við Hvanneyri og að tilnefna svæðið á lista Ramsarsamningsins.

Markmið Ramsarsamningsins er að stuðla að verndun og skynsamlegri nýtingu votlendissvæða í heiminum, sérstaklega alþjóðlega mikilvæg svæði sem búsvæði fyrir votlendisfugla. Guðlaugstungur og Snæfells- og Eyjabakkasvæðið eru mikilvæg varp- og beitilönd heiðagæsa og Hvanneyri er mikilvægur viðkomustaður blesgæsa og annarra votlendisfugla vor og haust. Fyrir eru þrjú íslensk svæði á Ramsarlistanum: Mývatn og Laxá, Þjórsárver og Grunnafjörður.

Ísland gerðist aðili að Ramsarsamningnum árið 1978 og skuldbatt sig þar með til að lúta ákvæðum hans sem eru m.a. þau að tilnefna votlendissvæði á lista samningsins, stuðla að skynsamlegri nýtingu votlendissvæða, stofna friðlönd á votlendissvæðum og þjálfa starfsmenn þeirra, auk þess að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi um votlendisverndun. Votlendissvæði telst mikilvægt á alþjóðavísu þegar það fóstrar reglulega plöntu- og dýrategundir á viðkvæmu stigi lífsferils eða veitir þeim athvarf við erfið skilyrði, þegar það fóstrar reglulega 20.000 votlendisfugla og þegar það fóstrar reglulega 1% af einstaklingum stofns einnar tegundar. Alls eru 1888 svæði í heiminum á Ramsarlistanum og þekja þau ríflega 185 milljón hektara í 159 aðildarlöndum samningsins.

Ráðstefna um votlendi og endurheimt þess:

Í dag stendur yfir ráðstefna um votlendi og endurheimt þess sem umhverfisráðuneytið og Landbúnaðarháskóli Íslands e. Ráðstefnan er haldin í tilefni alþjóðlegs árs líffræðilegrar fjölbreytni og í ljósi vaxandi umræðu um mikilvægi votlendis í loftslagsbreytingum.

Í ávarpi á ráðstefnunni fjallaði umhverfisráðherra um votlendi í samhengi loftslagsbreytingu: ,,Staðreyndin er sú að votlendi geymir mikið magn kolefnis. Ísland hefur lagt fram tillögu í alþjóðlegu loftslagsviðræðunum þess efnis að endurheimt votlendis verði gild loftslagsaðgerð í Kýótó samningnum. Með því verði hægt að hvetja til aðgerða til að koma í veg fyrir þá miklu losun kolefnis úr jarðvegi mýra, sem verður í kjölfar framræslu.

Enn liggur ekki fyrr hvort þessi tillaga verði samþykkt, en óhætt er að segja að hún njóti víðtæks skilnings enda mikilvægi votlenda fyrir loftslagið ótvírætt. Fyrir loftslagsráðstefnuna í Kaupmannahöfn lá fyrir í samningsdrögunum mótaður texti um það hvernig endurheimt votlendis gæti formast sem loftslagsaðgerð, sem búið að var að skapa ágæta samstöðu um milli helstu ríkjahópa. Hins vegar varð niðurstaðan í Kaupmannahöfn þannig, eins og allir hér vita, að ekkert bindandi samkomulag náðist. Framundan er ákveðin óvissa í því ferli, fyrirhuguð er aðildaríkjaráðstefna í Mexíkó í vetur sem ekki eru miklar væntingar til að skili samningi, og síðan í Suður Afríku árið 2011 þar sem vonandi verður hægt að sjá til lands í þessu ferli. Ísland er í hópi þeirra ríkja sem knýja á um að samkomulag takist sem fyrst til að leiða vinnu einstakra ríkja í loftslagsmálum.“

Meðal fyrirlesara á ráðstefnunni var Hans Joosten, prófessor við Greifswaldháskóla í Þýskalandi, sem er mjög virtur sérfræðingur í endurheimt votlendis á alþjóðavettvangi. Hann hefur verið leiðandi í alþjóðlegum umræðum um þátt votlendis í loftslagsbreytingum og hefur jafnframt tekið virkan þátt í starfi öflugustu félagasamtaka um málefni votlendis Wetland International.

Ljósmynd: Sveppir og gras, Guðrún Tryggvadóttir

Birt:
12. maí 2010
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Votlendissvæði skráð á lista Ramsarsamningsins“, Náttúran.is: 12. maí 2010 URL: http://nature.is/d/2010/05/12/votlendissvaedi-skrad-lista-ramsarsamningsins/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: