„Vistvæn innkaup geta sparað hinu opinbera stórfé og dregið úr losun gróðurhúsaáhrifa á jörðinni.“ Þessi fullyrðing verður studd gögnum á alþjóðaráðstefnu um vistvæn innkaup sem stendur yfir í Reykjavík dagana 26. og 27. mars.

Reykjavíkurborg heldur ráðstefnuna EcoProcura fyrir hönd ICLEI - alþjóðasamtaka sveitarstjórna um sjálfbærni. Alls eru 209 gestir hvaðanæva úr heiminum skráðir á hana eða frá 40 löndum. Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri býður ráðstefnugestum í móttöku í Ásmundarsafni í kvöld 25. mars. Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir formaður umhverfis- og samgönguráðs setur ráðstefnuna á Hótel Hilton í fyrramálið 26. mars klukkan níu og Kolbrún Halldórsdóttir umhverfisráðherra flytur ávarp.

David Cadman forseti ICLEI og borgarfulltrúi í Vancouver í Kanada er meðal gesta. Hann hefur meðal annars óskað eftir að hitta stúdenta og mun funda með meistaranemendum í umhverfis- og auðlindafræðum við HÍ og frjálsum félagasamtökum sem koma að umhverfis- og náttúruvernd á Íslandi.

Vistvæn innkaup og hlýnun jarðar eru meginý ema ráðstefnunnar. Reykjavíkurborg hefur ný lokið við að semja drög að loftlags- og loftgæðastefnu fyrir borgina en hún miðar að því að halda losun gróðurhúsalofttegunda í lágmarki og að loftgæði í borginni séu heilsusamleg.

Leitað er um þessar mundir eftir ábendingum í þessum málaflokki frá Reykvíkingum. Tillögur hafa þegar borist meðal annars um að banna nagladekk og um aukið samráð á milli stofnana hins opinbera, fyrirtækja og íbúa um þessi málefni. Frestur til að skila inn ábendingum þriðjudaginn 31. mars 2009. (Senda ber ábendingar á netfangið: eygerdur.margretardottir@reykjavik.is)

Fjörutíu sérfræðingar frá Evrópusambandinu funduðu í dag, miðvikudag, í húsakynnum Reykjavíkurborgar á Höfðatorgi í Borgartúni 12-14 til að búa sig undir ráðstefnuna. Ráðstefnan er stefnumót fólks úr fræðaheiminum, viðskiptalífinu og stjórnsýslunni þar sem skipst er á upplýsingum og fræðst um leiðir. Gestir á móttöku EcoProcura.
Birt:
25. mars 2009
Höfundur:
Gunnar Hersveinn
Tilvitnun:
Gunnar Hersveinn „Vistvæn innkaup myndu spara hinu opinbera stórfé“, Náttúran.is: 25. mars 2009 URL: http://nature.is/d/2009/03/25/vistvaen-innkaup-myndu-spara-hinu-opinbera-storfe/ [Skoðað:18. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: