Styrkur köfnunarefnisdíoxíða (NO2) getur farið yfir heilsuverndarmörk í þéttbýli en efnin geta í háum styrk ert lungu manna og dýra. Á lognblíðum vetrardögum í Reykjavík myndast slör af menguðu lofti yfir borginni og þá fer magn köfnunarefnisdíoxíðs (NO2) á sólarhring stundum yfir viðmiðunarmörkin.

Sólarhringsmörk NO2 eru 75 míkrógrömm á rúmmetra og hefur þegar farið einu sinni yfir þau mörk á þessu ári. Líkur eru á að svo verði á ný í dag 4. janúar og á morgun. Þeir sem eru viðkvæmir í öndunarfærum geta fundið fyrir einkennum á dögum eins og þessum.

Samkvæmt reglugerð má NO2 einungis fara sjö sinnum yfir heilsuverndarmörk á ári. Styrkur köfnunarefnisdíoxíðs um miðjan dag voru að meðaltali 70 míkrógrömm á rúmmetra við Grensásveg en við Miklubraut og Stakkahlíð 61 míkrógrömm á rúmmetra og í FHG 41 míkrógrömm á rúmmetra.

Upptök NO2 mengunar í Reykjavík eru falin í útblæstri frá bifreiðum. Aðferðin til að draga úr loftmengun á borð við þessa er því sú að draga úr notkun einkabílsins og velja aðrar leiðir til að fara á milli staða, s.s. ganga, hjóla og nota almenningssamgöngur. Mikilvægt er að bifreiðar standi ekki í lausagangi að óþörfu.

Áfram er spáð hægu veðri og því má búast við háum NO2 tölum áfram. Mengun er líklegust til að fara yfir mörkin við miklar umferðargötur. Viðbragðsteymi á vegum Reykjavíkurborgar um bætt loftgæði metur til hvaða aðgerða þarf að gripa hverju sinni ef loftgæði eru léleg eða ef spár benda til þess. Það leggur síðan fram tillögur í samráði við Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur.

Köfnunarefnisoxíð (NOx) - kemur nær eingöngu úr pústi bíla - hvarfast við óson - og úr verður köfnunarefnisdíoxíð (NO2).

Mynd: Greina má fagurlitað slör við sjóndeildarhring í Reykjavík á kvöldin, Umhverfis- og samgöngusvið Reykjavíkur.

Loftgæði - vöktun - viðbrögð

Loftslags- og loftgæðastefna Reykjavíkur

Fræðsluefni um köfnunarefnisdíoxíð

Birt:
Jan. 4, 2010
Höfundur:
Gunnar Hersveinn
Tilvitnun:
Gunnar Hersveinn „Styrkur köfnunarefnisoxíðs (NOx) yfir mörkum í Reykjavík“, Náttúran.is: Jan. 4, 2010 URL: http://nature.is/d/2010/01/04/styrkur-kofnunarefnisoxio-nox-yfir-morkum-i-reykja/ [Skoðað:Dec. 11, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: