Sveitarfélagið Ölfus auglýsti tillögur að breytingum á aðalskipulagi 2002-2014 þ. 20. ágúst sl. en athugasemdir við tillögurnar (sjá hér) skulu sendast í formi venjulegs pappírsbréfs í frímerktu umslagi (ath. tölvupóstur nægir ekki) til: Sveitarfélagsins Ölfuss, Hafnarbergi 1, 815 Þorlákshöfn.

Það nægir sem sagt ekki að hafa verið einn/ein af þeim 678 sem sendu athugasemdir við umhverfismat að sömu framkvæmdum árið 2007 og það nægir heldur ekki að hafa verið einn/ein af þeim rúmlega 1.000 sem sendu inn athugasemd við aðalskipulagið í fyrra. Aftur, því lagabókstafurinn kveður svo á um, er almenningi gefinn kostur á að gera athugsemdir við skipulag sem gerir enn og aftur ráð fyrir Bitruvirkjun, Hverahlíðarvirkjun og gríðarlegri aukningu virkjanaumsvifa á svæðinu með tilheyrandi línulögnum, mengun og umhverfisspjöllum. Það verður áhugavert að fylgjast með hvort daufheyrst verður við lýðræðinu í þriðja sinn.

Hér að neðan má líta fyrstu þrjá liði í splunkunýjum athugasemdum og andmælum þeirra Ingibjargar Elsu Björnsdóttur og Björns Pálssonar við tillögunum:

1. Áhrif á gróðurfar
Vitað er að brennisteinsvetni og útblástur frá jarðhitavirkjunum og blásandi borholum hefur neikvæð áhrif á gróðurfar. Ljóst er því að fyrirhugaðar virkjanir og iðnaðarsvæði við Gráhnjúka, Hverahlíð og Bitru munu hafa neikvæð áhrif á mosa og annan gróður. Ennfremur virðist sem að tæringarvörn frá línumöstrum sem inniheldur mikið af málmum eins og Sinki (Zn) hafi neikvæð áhrif á gróður í kringum línumöstrin. Það vekur þó athygli við lestur skýrslu Landmótunar, að skýrsluhöfunda virðast hafa meiri áhyggjur af mosanum á svæðinu en af hugsanlegum áhrifum brennisteinsmengunar á heilsu fólks t.d. í Hveragerði. Út af fyrir sig er ágætt að sveitarfélagið Ölfus krefst bestu fáanlegu tækni við hreinsun á útblæstri brennisteinsvetnis frá virkjunum. Vandamálið virðist hins vegar vera það, að ekki virðist vera til nein alþjóðleg skilgreining á því hvað felst í bestu fáanlegu tækni í þessu tilviki, né nein sérstök alþjóðleg BAT skýrsla (alþjóðleg skýrsla sem lýsir bestu fáanlegu tækni – Best available technology) sem fjallar um hreinsun brennisteinsvetnis úr útblæstri. Enda er alls ekki ljóst á þessu stigi hvernig Orkuveita Reykjavíkur og Sveitarfélagið Ölfus koma til með að standa að hreinsun brennisteinsvetnis úr útblæstri frá virkjunum, þótt tilraunir á þessu sviði séu vissulega í gangi. Á meðan ekki er til nein alþjóðlega skilgreind besta fáanlega tækni fyrir hreinsun brennisteinsvetnis má segja að Orkuveitan geti notað þá tækni sem fyrirtækinu sýnist. Á meðan þau mál eru öll í óvissu, og óvíst er hvort hreinsikerfin virka, eða hvort t.d. fjármagn fæst til að hreinsa brennisteinsvetni frá þeim virkjunum sem nú þegar eru fyrir hendi, hvað þá frá fyrirhuguðum virkjunum við Hverahlíð, Gráhnjúka eða Bitruvirkjun, verður einfaldlega að krefjast þess að öllum frekari skipulagsbreytingum og virkjanaframkvæmdum á Hengilssvæðinu og Hellisheiði verði frestað um óákveðinn tíma. Einnig þarf að krefjast þess að hreinsikerfi fyrir brennisteinsvetni verði fyrst sett á eldri virkjanir á svæðinu þannig að öruggt sé, og hægt sé að sýna fram á að kerfin virki og mengun fari minnkandi á svæðinu. Þetta er ekki síst gert með hagsmuni Hvergerðinga í huga, sjá kafla 10 og 11 í athugasemdum þessum.

2. Áhrif á fuglalíf
Ekki eru gerðar athugasemdir við áhrif á fuglalíf.

3. Áhrif á jarðfræði og jarðmyndanir
Skipulagsbreytingin felur í sér óbeina eyðileggingu á svæðum sem hafa umtalsvert jarðfræði‐ og náttúrulegt gildi. Fyrirhugað iðnaðarsvæði við Bitru mun t.d. að stórum hluta liggja innan svæðis sem er á náttúruminjaskrá. Hingað til hefur það þótt talsvert afrek á Íslandi að koma svæðum yfirleitt á náttúruminjaskrá. Staðan er því sú, að það er fullt af svæðum sem ættu að vera á náttúruminjaskrá hér á landi, en eru það ekki. Sú staðreynd að fyrirhugað iðnaðarsvæði Bitruvirkjunar er nú þegar á náttúruminjaskrá undirstrikar hversu ríkt náttúruverndargildi svæðisins er. Þótt aðeins einum borteig sé ætlaður staður á Ölkelduhálsi, og engum í Reykjadal eða Grændal, mun Bitruvirkjun með öllum sínum mannvirkjum í sjónlínu gjörbreyta upplifun göngu‐ og ferðamanna af svæðinu. Það verður t.d. ekki hægt að ganga um Ölkelduháls án þess að verða rækilega var við Bitruvirkjun, en um þessa þætti verður fjallað nánar í kafla um áhrif á ferðaþjónustu og útivist (sjá kafla 5). Sú hætta er einnig alltaf fyrir hendi að of mikil ágeng nýting á Bitru‐ og Hengilssvæðinu í heild muni valda því að þrýstingsfall verði í jarðhitageymum á svæðinu. Þá gætu einstakar laugar, böð og hverir í Reykjadal og Grændal.

Bæði erlendir og íslenskir ferðamenn sækjast fyrst og fremst eftir því að upplifa „ósnortna“ náttúru. Nú má kannski segja sem svo að enginn fermetri á yfirborði jarðar sé lengur algjörlega ósnortinn, m.a. vegna loftborinnar mengunar sem veldur því að mengun málma eins og blýs (Pb) finnst m.a. í snjóþekjunni á tindi Everestfjalls. En sé horft til íslenskrar náttúru er ljóst að aðdráttarafl hennar felst fyrst og fremst í jarðfræðilegum fjölbreytileika, stórbrotnum landslagsheildum, mikilli víðáttu og þeirri einstöku tilfinningu sem ferðamenn oft upplifa, ‐ að þeir séu einir með náttúrunni. Sú tilfinning er mannkyninu svo nauðsynleg að menn ferðast hingað til lands frá stórborgum heimsins einungis til þess að fá að upplifa hana einu sinni á ævinni.
Þótt Búrfellslína 3 hafi nú þegar raskað Hengilssvæðinu sorglega mikið, er þó enný á hægt að upplifa einstaka náttúru Grændals, Reykjadals og Ölkelduhálssvæðisins með því að ganga um svæðið í fylgd góðra leiðsögumanna. Þetta svæði gefur því enný á möguleika á því að upplifa þá tilfinningu að vera einn með náttúrunni og sjálfum sér. Möguleikarnir á slíkum einstökum náttúruupplifunum munu skerðast allverulega eða jafnvel endanlega með tilkomu Bitruvirkjunar og reyndar líka með tilkomu virkjana við Hverahlíð og Gráhnjúka. Það er verulega truflandi fyrir náttúruupplifun ferðamannsins að þurfa að horfa á borplan eða hlusta á blásandi borholur um leið og hann reynir árangurslaust að einbeita sér að útsýninu yfir að sunnanverðu Þingvallavatni. Allt svæðið í kringum Bitru, ekki bara hið skilgreinda iðnaðarsvæði, mun einfaldlega glata gildi sínu almennt sem ferðamannasvæði þar sem svæðið mun breytast úr útivistar‐ og göngusvæði yfir í iðnaðarsvæði líkast þeim sem þekkist frá erlendum stórborgum þar sem ekið er í gegnum umfangsmikil iðnaðar‐ og verksmiðjusvæði í útjaðri borga áður en komið er inn í borgirnar sjálfar (sbr. á þýsku Industrigebiet). Það stoðar lítið að tala fagurlega um friðun Grændals og Reykjadals, enda ljóst að friðun hefur aldrei verndað svæði á Íslandi fyrir einbeittum ágangi framkvæmdaraðila til þessa. Auk þess eru uppi hugmyndir með ágengri vinnslu Bitruvirkjunar um að skábora undir Reykjadal og Grændal. Slíkt gæti haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir hverina og laugarnar sem þar eru, og þá má nú segja að fyrirhuguð friðun fari fyrir lítið.
Í raun og veru er, með álversframkvæmdum í Helguvík, og fyrirhuguðum virkjanaframkvæmdum á Hellisheiði og Bitrusvæðinu, verið að byggja upp umfangsmikið iðnaðarsvæði með þungaiðnaði í kringum höfuðborgina, Reykjavík. Svæði sem mun einkennast af miklum rafmagnslínum, virkjunum og álverksmiðjum. Er hægt að ímynda að erlendir ferðamenn muni koma hingað til lands til þess að skoða þessi mannvirki? Nei! þeir munu flýta sér eins og þeir geta upp á hálendið a.m.k. á meðan ekki er búið að eyðileggja það líka. Orkuveitan mun þó líklega leggja göngustíga og skipuleggja áfram gönguferðir um Hengilssvæðið, en hætt er við því að áhugi á þeim ferðalögum verði hverfandi eftir það sem á undan er gengið.

Að lokum er rétt að benda á að Grændalur, Reykjadalur, Ölkelduháls og umhverfi hans í Grafningi s.s. Þverárdalur, Tjarnarhnúkur, Hrómundartindur og Kattartjarnir eru mikilvæg útvistarsvæði Hvergerðinga og gesta þeirra nú. Þar með má segja að íbúar þess bæjarfélags verði sérstaklega fyrir tjóni vegna fyrirhugaðra skipulagsbreytinga á aðalskipulagi Ölfuss, sem eru undanfari mikilla framkvæmda á Hengilssvæðinu austanverðu. Sú spurning hlýtur að vakna hvort sveitarfélagið Ölfus verði ekki skaðabótaskylt gagnvart Hvergerðingum að einhverju leyti þar sem svo greinilega er verið að fórna beinum hagsmunum eins sveitarfélags (þ.e. Hveragerðis) fyrir ætlaða hagsmuni annars (þ.e. Ölfus).

Sjá athugasemdirnar hér í fullri lengd þar sem um 13 blaðsíðna skjal er að ræða.

Mynd: Laugadepla [Veronica anagallis-aquatica], jurt í útrýmingarhættu, við Klambragil í Reykjadal, svæði nr. 752 á Náttúruminjaskrá (sjá hér)  ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
29. september 2009
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Athugasemdir og andmæli vegna breytinga á aðalskipulagi Ölfuss, 2002‐2014“, Náttúran.is: 29. september 2009 URL: http://nature.is/d/2009/09/29/athugasemdir-og-andmaeli-vegna-breytinga-aoalskipu/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: