Orð dagsins 26. febrúar 2008
Danmörk hefur verið útnefnd „Lífræna landið 2009“. Þetta var tilkynnt á stærstu alþjóðlegu lífrænu vörusýningunni í heimi, BioFach, sem lauk í Nürnberg í Þýskalandi sl. sunnudag. Útnefningin hefur það m.a. í för með sér, að lífrænum vörum frá Danmörku verður gert sérstaklega hátt undir höfði á sýningu næsta árs. Ástæður þess að Danmörk fékk þessa viðurkenningu nú, voru m.a. þær að Danmörk innleiddi fyrst allra landa opinbera vottun á lífrænum matvörum, auk þess sem danski innanlandsmarkaðurinn fyrir lífrænar vörur er einn sá stærsti í heiminum, á sama tíma og mikið magn af lífrænum vörum er flutt út þaðan. Salan á lífrænum dönskum vörum hefur aukist um 65% á þremur árum, og samvinna þarlendra framleiðenda og smásöluverslana þykir til fyrirmyndar.
Eva Kjer Hansen, matvælaráðherra Danmerkur, telur útnefninguna mikilvæga fyrir jákvæða ímynd Danmerkur og bþst við að hún veki athygli á alþjóðlegum vettvangi í aðdraganda loftslagsfundarins í Kaupmannahöfn 2009. Alls sýndu um 3.000 aðilar frá 120 löndum vörur sínar á Biofach að þessu sinni, og samanlagður fjöldi gesta var um 50.000. Þess má geta, að upphaflega átti Danmörk að fá þessa viðurkenningu fyrir árið 2008, en baðst þá undan því þar sem talið var ólíklegt að danskir framleiðendur gætu annað þeirri eftirspurn eftir lífrænum vörum sem útnefningin myndi hafa í för með sér. Nú telja Danir sig hins vegar vera í stakk búna til þess.
Lesið frétt Miljörapporten í dag, frétt í danska Bændablaðinu 21. feb. sl., frétt á økologi.dk 21. feb. sl. og frétt á ecoweb.dk 24. feb. sl.
Orð dagsins birtast einnig á vef Staðardagskrá 21 á Íslandi samband.is/dagskra21.Birt:
Tilvitnun:
Stefán Gíslason „Orð dagsins 26. febrúar 2008“, Náttúran.is: 26. febrúar 2008 URL: http://nature.is/d/2008/02/26/oro-dagsins-26-februar-2008/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.