Orkuveita Reykjavíkur hefur gert athugasemdir við matsáætlun Landsnets hf. vegna tenginga fyrirhugaðra jarðvarmavirkjana á Hengilssvæðinu. Þar er átt við tengingu áformaðra virkjana Ölkelduháls og Hverahlíðar við tengivirkið hjá Kolviðarhóli, en þaðan verður orkan flutt um háspennulínur til kaupanda. Nú þegar marka háspennumöstur ásýnd Hellisheiðar mjög og með tilkomu frekari mastra má segja að heiðin verði þéttriðin. Möstur þyrftu t.a.m. að koma frá Hverahlíð yfir þjóðveginn niður að Kolviðarhóli. Hellisheiðavirkjun flytur raforkuna frá Hellisheiðavirkjun í jarðstreng yfir til Kolviðarhóls, sem er reyndar örskammt frá. Guðlaugur Þór Þórðarson sagði í viðtali við NFS þ. 21. 09. 2006 að háspennulínur fari óskaplega í taugarnar á honum.

Athugsemdir OR eru því væntanlega settar fram í tvíþættum tilgangi. Annars vegar til að lægja mótþróa gegn frekari virkjunum á heiðinni með málamiðlun um jarðstreng fyrir ný virkjanirnar og hins vegar til að marka nýja stefnu fyrirtækisins varðandi orkuflutning í framtíðinni. Þó má segja að vegalengdin sem athugasemdin nær yfir sé mjög stutt miðað við þær vegalengdir og landsvæði sem öðrum möstrum er reiknað til að koma orkunni áleiðis. Línur í jörð gætu þó orðið til þess að útivistargildi svæðisins haldist að mestu. En þar sem áformaðar virkjanir við Ölkelduháls og Hverahlíð eiga að knýja „hugsanlega stækkun“ álversins í Straumsvík og „hugsanlegt“ álver í Helguvík er ekki víst að nokkrar af þessum tilllögum, athugsemdum eða áætlunum verði nokkurn tíma notaðar.


Myndin er af núverandi háspennulínum að álverinu í Straumsvík þ. 25. 09. 2006, en þær munu að öllum líkindum þrefaldast að umfangi, komi til stækkunar bræðslunnar.
Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.

 

Birt:
8. október 2006
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „OR gerir athugasemdir við matsáætlun Landsnets“, Náttúran.is: 8. október 2006 URL: http://nature.is/d/2007/03/19/matsaaetl_landsnet/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 19. mars 2007
breytt: 2. maí 2007

Skilaboð: