Um virkjanir á Hellisheiði og náttúruvernd
Hellisheiðin hefur lengi verið eitt af vinsælustu útivistarsvæðum íbúa höfuðborgarsvæðisins. Nú hefur friðsæld og upplifun af náttúru heiðarinnar verið rofin með stórvirkum vinnuvélum og hvæsandi borholum upp um allar hlíðar. Stór hluti Hellisheiðar er orðin að iðnðarsvæði fyrir jarðhitavirkjanir, með tilheyrandi jarðraski.
Sjónræn áhrif þessara framkvæmda eru mikill og útivistargildi svæðisins hefur minnkað verulega. Upplifun þeirra sem vilja njóta ósnortinnar náttúru í næsta nágrenni þéttbýlisins er ekki söm. Nú hefur sveitarfélagið Ölfus auglýst breytingu á aðalskipulagi vegna Bitruvirkjunar. þarna er um að ræða mjög umdeilda framkvæmd, ekki síst vegna hættu á loftmengun af völdum brennisteinsvetnis. Af þeim sökum er veruleg hætta á að Bitruvirkjun geti rýrt lífsgæði íbúa í Hveragerði og næsta nágrenni.
Nú þegar hefur brennisteinsmengun af núverandi virkjunum valdið fólki sem fer um Hellisheiði óþægindum og skemmdir hafa komið fram á gróðri í nágrenni virkjunarinnar. Tæknilegar lausnir til að bregðast við brennisteinsmengun eru enn á frumstigi. Náttúruverndarsamtök Suðurlands hafa látið sig varða virkjanaframkvæmdir á Hellisheiði, sent frá sér athugasemdir og umsagnir og sérstaklega lagst gegn framkvæmdum við Birtuvirkjun.
Frá sjónarhóli náttúruverndarfólks eru fáir kostir við svo ágenga orkuvinnslu sem nú fer fram á Hellisheiði eða er fyrirhuguð þar. Stöðugt er hamrað á sjálfbærni og endurnýjanlegum orkuauðlindum Íslendinga, en sjaldan er rætt um þá staðreynd að ofnýting jarðhitans getur valdið kólnun og að jarðhitageymar viðkomandi svæða geta tæmst, auk annara óæskilegra umhverfisáhrifa. Óskandi væri að sveitarstjórnir og önnur stjórnvöld hefðu hófsemi og skynsemi að leiðarljósi við nýtingu á orkulindum landsins. Ekki er nauðsynlegt að virkja alla orku sem hægt er að virkja hér og nú. Orka í jörðu og vatn sem streymir í sjó fram, í eilífri hringrás vatnsins, er eftir sem áður mikil auðlind sem gott er að eiga óskerta til lengri tíma litið. Óröskuð náttúra, víðerni hálendisins og landslagsheildir eru líka arðbærar auðlindir sem ber að vernda og varðveita komandi kynslóðum til hagsbóta.
Höfundur er formaður Náttúruverndarsamtaka Suðurlands. Sjá nss.is.
Mynd: Reykjadalsá. Ljósmynd: Árni Tryggvason.
Birt:
Tilvitnun:
Ólafía Jakobsdóttir „Um virkjanir á Hellisheiði og náttúruvernd“, Náttúran.is: 5. október 2009 URL: http://nature.is/d/2009/10/05/um-vikjanir-hellisheioi-og-natturuvernd/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.