Náttúruverndarhreyfingin Saving Iceland stóð fyrir blaðamannfundi kl. 14:00 í dag, í Reykjavíkur Akademíunni.

Ástæða fundarins er sú að umfjöllun fjölmiðla um aðgerðir okkar síðustu mánuði, bendir til þess að það séu nokkrar ranghugmyndir uppi um eðli og tilgang hreyfingarinnar. Þær fréttatilkynningar sem við sendum með hverri aðgerð sem við framkvæmum hafa komist illa til skila og var fundurinn til þess gerður að leyfa fjölmiðlum og öðrum að spyrja okkur spjörunum úr og fá útskýringar á því sem ekki er á hreinu.

Á fundinn mættu fulltrúar tveggja fjölmiðla, Morgunblaðisins og Stöðvar 2, sem sýnir að sumir fjölmiðlar gangast frekar upp í hamagangi sem hlýst af beinum aðgerðum, heldur en að þeir vilji mæta okkur á málefnalegum grundvelli.

Meðfylgjandi er texti sem lesinn var upp í upphafi fundarins, en fjölmiðlar geta nálgast upptöku (HD) af fundinum í heild sinni hjá okkur.

Kynning:

Komiði sæl. Ég heiti Almar. Ég bþð ykkur velkomin á þennan blaðamannafund Saving Iceland. Ástæðan fyrir því að við ákváðum að efna til blaðamannafundar er sú að umfjöllun fjölmiðla um aðgerðir okkur síðustu mánuði, bendir til þess að nokkrar ranghugmyndir séu uppi um eðli og tilgang hreyfingarinnar. E.t.v. skýrist það að nokkru leyti af því að efni fréttatilkynninga frá okkur hefur skilað sér illa til lesenda. Þessi fundur er hugsaður sem vettvangur til að útskýra hvað við erum að gera og svara þeim spurningum sem þið kunnið að hafa.


Hvað er Saving Iceland?

Upphaf Saving Iceland má rekja til neyðarákalls íslenskra umhverfissinna til heimsbyggðarinnar þegar ljóst varð að Kárahnjúkavirkjun yrði að veruleika. Saving Iceland er alþjóðlegt net þeirra sem svöruðu kallinu; grasrótarhreyfing fólks sem neitar að standa hjá og horfa á ríkisstjórn Íslands og orkufyrirtækjum, ásamt stórum her erlendra stórfyrirtækja, eyðileggja náttúru Íslands.

Saving Iceland eru ekki meðlimasamtök með miðstjórn og meðlimaskrá. Við tökum allar ákvarðanir með upplýstu samþykki og byggjum starf okkar á því að enginn sé yfir aðra hafinn þegar kemur að ákvarðanatöku. Enginn er hærra settur en annar og enginn fær greitt fyrir starf sitt innan Saving Iceland.

Saving Iceland hefur aðeins eitt markmið; að losa Ísland undan stóriðjustefnunni með öllum ráðum öðrum en ofbeldi. Vandamálið er ekki aðeins náttúruspjöll á Íslandi heldur stöndum við frammi fyrir yfirtöku risafyrirtækja á efnahags og atvinnulífi. Fyrirtækja sem hvert um sig velta meira fé en íslenska efnahagskerfið. Það er ekki aðeins náttúra Íslands sem þolir ekki stóriðjustefnuna, efnahagurinn þolir hana ekki heldur og lýðræðið er einnig í hættu.



Svæði í hættu

Á næstu 5 árum má reikna með stórframkvæmdum á ýmsum viðkvæmum stöðum:
Má þar nefna Krþsuvík, Hengilssvæðið, Kerlingafjöll og mörg fleiri.

Fyrirhugaðar virkjanir í neðri hluta Þjórsár munu án vafa hafa í för með sér enn meiri orkuþörf og þá er bara tímaspursmál hvenær seilst verður í Norðlingaöldu og Langasjó.

Ef allar álversframkvæmdir verða að veruleika verða 9 álver á Íslandi innan fárra ára.


Siðferði áliðnaðarins

Eftir áratuga baráttu náttúruverndarfólks er almenningur á Íslandi orðinn nokkuð vel upplýstur um þær hættur sem stóriðjustefnan hefur fyrir náttúru landins. Hins vegar virðist töluvert meðvitundarleysi ríkja um tengsl þessara fyrirtækja við hernað og mannréttindabrot.

Fyrirtækin sem við berjumst gegn eru alþjóðleg, með starfsemi sína út um allan heim. Þótt hegðun þeirra hér á landi líti á yfirborðinu ágætlega út, eiga þau flest hrikalega sögu að baki. Hér á landi monta þau sig af því að planta trjám, byggja íþróttahallir og gefa starfsfólki sínu gjafir, en getum við virkilega blindast af þessari tilbúnu glansímynd fyrirtækjanna og horft framhjá því sem þau raunverulega standa fyrir?

Tengsl álframleiðenda við hergagnaframleiðslu eru augljós og höfum við oft og mörgum sinn bent á þá staðreynd. Við getum tekið nokkur dæmi af því hvernig þessir menn vinna: -Alcan framleiðir t.d. ál fyrir EADS (Europian Aerospace and Defense and Space), en samningarnir þar á milli eru kynntir sem samningar milli Airbus og Alcan, til að hylma yfir aðild Alcan að hergagnaframleiðslu.
-Glencore, móðurfyrtæki Century sameinsaðist nýlega RUSAL, sem er aðal álframleiðandi fyrir rússneska herinn. Aðild þeirra að stríðinu í Tjeteníu er augljós sökum framleiðslu þeirra á sprengjum og skotvopnum úr áli. Í þessum átökunum hafa a.m.k. 35.000 manns látið lífið. (1) Wayuu indjánar og bændur í Kólumbíu voru nýlega stráfelldir í kjölfar námustækkanna Glencore. (2)
-Í Hondúras og Mexíco rekur Alcoa svokallaðar sweat-shops, þ.e. vinnubúðir sem sumir hafa líkt við þrælabúðir. Kjör verkamanna þar eru vo bág að þeir þurfa að selja úr sér blóð til að eiga í sig og á. (3)

Þessum staðreyndum reyna ráðamenn og forsvarsmenn fyrirtækjanna hér á landi iðulega að líta framhjá. Sagt er að álframleiðendur hafi ekkert um það að segja hver kaupi álið, það sé einfaldlega ekki þeirra mál. Þessi útúrsnúningur og tregi fyrirtækjanna til að ræða um siðferðisgildi sín og ábyrgð er enn ein ástæðan fyrir baráttunni gegn þeim. Þörfin á
sterkri, alþjóðlegri andspyrnu vex með degi hverjum.

Að selja ál til hergagnaframleiðslu er eitt, en að taka á virkan þátt í framleiðslu og þróun á orrustuflugvélum og öðrum hergögnum er annað. Þann 14. Desember 2005 birtist á heimasíðu Alcoa, frétt þar sem sagði að fyrirtækið hefði gert 12,5 milljón dollara samning við bandaríska herinn, um rannsóknir, þróun og smíði léttra farartækja til hernaðaraðgerða á landi. Þetta er aðeins eitt dæmi um ömurlega viðskiptahætti fyrirtækisins. Fréttavefurinn Allbusiness.com greindi á ágúst árið 2004 frá samningum Alcoa og Howmet Castings, dótturfyrirtæki Alcoa við varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna. Starf Alcoa var að þróa ný efni og málmblöndur, sem draga myndi úr kostnaði við framleiðslu á næstu kynslóð hergagna til notkunar í háloftunum.

Þessar yfirlýsingar um bein tengsl álframleiðenda við stríðsrekstur eru ekki skáldaðar af okkur, eða öðrum umhverfishreyfingum. Þetta eru staðreyndir, fengnar frá fyrirtækjunum sjálfum. Hins vegar hefur það reynst íslenskum fjölmiðlum og öðrum Íslendingum erfitt að sætta sig við staðreyndirnar, og birta þær opinberlega. Það er ekki hægt að vera fylgjandi álverum en á móti stríðsrekstri, eins og staðan er í dag.

Yfirtaka Rio Tinto á Alcan er yfirvofandi. Áður en Íslendingar bjóða þann þríhöfða þurs velkominn væri við hæfi að kynna sér sögu hans. Rio Tinto hefur t.d. vísvitandi neytt starfsmenn sína til að starfa í banvænum gullnámum sínum í Brasilíu og njósnað um og rekið meðlimi verkalþðsfélaga. Einnig eru dæmi um að fátækir heimamenn í leit að gulli
í námum Rio Tinto hafi verið skotnir af öryggisvörðum fyrirtækisins.
Þetta eru bara örfá dæmi.

Alcan stefnir nú á að reisa álver í Suður-Afríku, á nær skattfrjálsu svæði sem nefnist „Coega Development Zone“. (4) Raforka fyrir álverið verður framleidd með kolum og kjarnorku, en sú staðreynd fellir um koll þær lygar að það sé siðferðisleg skylda Íslendinga að byggja álver hér á landi til þess að koma í veg fyrir mengun annarsstaðar. Alcan mun síður
en svo stöðva framkvæmdir sínar í Afríku ef fleiri álver verða reist hér á landi, enda er fyrirtækið með mörg önnur verkefni á teikniborðinu í Afríku ‚Greenfield‘ verkefnið þeirra inniheldur t.d. Kamerún, Ghana, Guinea, Madagascar og Suður-Afríku, en ‚Greenfield‘ stendur fyrir það þegar ósnert náttúra er eyðilögð fyrir námugröft, grunngerð, álbræðslur og stíflur. Í Suður-Afríku er 30% íbúa án rafmagns, en samt sem áður virðist vera ástæða til að framleiða ódýra raforku á gífurlega mengandi og hættulegan hátt, til þess eins að keyra álver. (5) Þá teljum við það Íslendingum síst til sóma að Landsvirkjun skuli vera að seilast inn í þetta andrúmsloft spillingar.

Áliðnaðurinn er samofinn lygum og blekkingum. Fyrirtækin sem nú fjölga sér hér á landi eru þekkt fyrir umhverfisslys og mannréttindabrot út um allan heim. Við getum ekki tekið þessu fyrirtækjum fagnandi hendi og horft framhjá sannleikanum. Hegðun þeirra annars staðar í heiminum skiptir máli hér á landi, því þrátt fyrir að fyrirtækin feli sig undir íslenskum nöfnum, er þetta sama megamaskínan. Okkur kemur þetta við og þess vegna spyrnum við á móti.


Neyslumenningin

Menn hafa undrast það hvernig við tengjum saman umhverfisbaráttu og andóf gegn ofneyslu. Stórfyrirtækjastefna og neyslumenning haldast í hendur. Við getum ekki verið á móti stóriðju en afstöðulaus gagnvart neyslunni. Það væri hræsni af okkur að segja; látið Ísland í friði, farið og reisið álver í þriðja heiminum.

Sannleikurinn er sá að jörðin ber ekki meiri neyslu. Við getum annaðhvort haldið áfram á sömu braut, notað þriðja heiminn sem sorphaug og krafist þess að fátækari þjóðir sætti sig við örbirgð og þrælkun eða við getum slakað á lífsgæðakapphlaupinu. Þessvegna er nauðsynlegur hluti af baráttu okkar að draga úr neyslu og hvertja aðra til þess líka.


Aðferðir okkar

Því miður hafa fjölmiðlar lagt meira upp úr því að fjalla um aðferðir okkar en tilgang þeirra. Við höfum beitt beinum aðgerðum meira en almennt hefur tíðkast á Íslandi og af umræðunni í þjóðfélaginu má ráða að margir átti sig ekki því hvers vegna við förum þá leið.

Markmið aðgerðanna er tvíþætt:

Í fyrsta lagi: Að gera stjórnvöldum ljóst að umhverfissinnum er full alvara með áform sín um að stöðva gengdarlausa eyðileggingu á náttúru Íslands.

Þrátt fyrir hefðbundnar mótmælaaðgerðir gegn stóriðjustefnunni árum saman ætla íslensk stjórnvöld að halda þessari stefnu ótrauð áfram. Skilaboð okkar til stjórnvalda og stórfyrirtækja eru þessi: Þið hlustið ekki á rök og þvæi kemur til átaka.

Til að koma þessu markmiði til leiðar höfum við beitt og munum áfram beita beinum aðgerðum sem stundum má flokka má sem borgaralega óhlýðni. Við höfum t.d. hindrað aðgang að vinnusvæðum og valdið þar truflun, beinlínis í því skyni að koma höggi á fyritækin fjárhagslega og valda þeim óþægindum.

Í öðru lagi: Að vekja almenning til vitundar um ábyrgð einstaklingsins á umhverfis-og mannréttindamálum.

Náttúruverndar- og mannúðarsjónarmið verða ekki höfð að leiðarljósi nema almenningur beiti sér fyrir því. Skilaboð okkar til almennings eru þessi: Við sem neytendur berum ábyrgð gagnvart náttúrunni, gagnvart framtíðinni og gagnvart öðrum heimshlutum og við ráðum því hvort og viðhvaða fyrirtæki við skiptum.

Við höfum hvatt fólk til að draga úr ofneyslu og sniðganga stórfyrirtæki sem fótum troða umhverfis- og mannúðarsjónarmið, t.d. með uppákomum trúða á opinberum stöðum, svosem í Kringlunni.

Ástæðan fyrir því að við beitum borgaralegri óhlýðni er einföld:
Stjórnvöld hafa ekkert slakað á stóriðjustefnu sinni þrátt fyrir endalausar mótmælastöður, skiltaburð, bréfaskrif, blaðaskrif, ráðstefnur, tónleika, metsölubók og fjölmennustu götumótmæli Íslandssögunnar. Þess vegna er nauðsynlegt að taka upp skilvirkari aðferðir til að berjast gegn jarðeyðingarstefnunni.

Auk beinna aðgerða hefur hreyfingin beitt ýmsum hefðbundnum leiðum til að vekja athygli á málstað sínum. Þann 2. Júlí voru stórtónleikar á NASA þar sem fjöldi þjóðþekktra listamanna gaf vinnu sína og lýstu þar með yfir stuðningi við aðgerðir Saving Iceland. Í sömu viku var listaverkaupboð í Start Art til styrktar hreyfingunni. Helgina 7. og 8. júlí héldum við hágæða ráðstefnu undir nafninu „Hnattrænar afleiðingar stóriðju og stórstíflna“, en þar komu fram fyrirlesarar frá fimm heimsálfum, rithöfundar, blaðamenn, virtir vísindamenn og aktívistar, en flest þetta fólk stendur í nákvæmlega sömu baráttu og við, við sömu fyrirtækin. Ráðstefnan fékk ekki mikla athygli fjölmiðla, en það virðist ekki vera fréttnæmt þegar samtök á borð við Saving Iceland standa fyrir svona ‚hefðbundnum‘ aðgerðum. Við gáfum einnig út fréttablað samhliða ráðstefnunni og héldum borgarafundi í Þorlákshöfn og á Húsavík.

Það eru þó beinu aðgerðirnar sem vekja mesta athygli og halda umræðunni gangandi, ekki aðeins hér á landi því stór náttúruverndarsamtök og fjölmiðlar erlendis hafa einnig sýnt málefnum okkar áhuga


Ábyrgð fjölmiðla

Umfjöllun fjölmiðla um Saving Iceland er á margan hátt gagnrýniverð. Það hefur ekkert skort á upplýsingaflæði frá okkur til fjölmiðla. Samhliða hverri aðgerð höfum við sent upplýsingar um fyrirtækið sem við ráðumst gegn í hvert skipti. Við höfum sagt frá ömurlegu siðferði fyrirtækjanna, umhverfisslysum og mannréttindabrotum. Við höfum útskýrt hvernig verkfræðistofurnar sem framkvæma umhverfismat fyrir virkjanir, hafa hagsmuna að gæta varðandi byggingu þeirra og byggingu álvera á landinu. Við höfum bent á hvernig jarðvarmavirkjanir rísa og stækka í þeim eina tilgangi að fullnægja orkuþörf stóriðjufyrirtæka. Má þar nefna Hellisheiðarvirkjun.Við höfum bent á allt þetta og meira til en fjölmiðlar virðast vilja einblína á aðgerðir okkar frekar en ástæðu þeirra. Fjöldi handtekinna skiptir meira máli en botnlausar sakaskrár andstæðinga okkar. Við höldum einnig úti vefsíðu þar sem allar þessar upplýsingar er að finna.


Lokaorð

Við hjá Saving Iceland erum mjög upptekið fólk. Fyrir öllum umhverfissinnum liggur það verkefni að hrekja stærstu álframleiðendur heims héðan burtu. Það er mikið verk og við höfum því ekki tíma til þess að vera stöðugt að verjast rógburði. Við teljum með ólíkindum að jafn virtur fjölmiðill og fréttastofa ríkissjónvarpsins hafi án nokkurs rökstuðnings haldið því fram að við fáum greiðslur fyrir að vera handtekin að við vitum ekki um hvað við erum að tala.Við íhugum nú að kæra þetta framferði til Siðanefndar Blaðamannafélagsins.

Við viljum nota þetta tækifæri til að gefa ykkur þær upplýsingar sem þið óskið eftir um hugmyndafræði og vinnulag hreyfingarinnar.


Heimildir.

(1 )Amnesty International, "What Justice for Chechnya's disappeared?",
May 23rd 2007.

(2). Frank Garbely, Mauro Losa. "Paradis fiscal, enfer social",
Télévision Suisse Romande, 29 June 2006.

(3) http://www.nlcnet.org/reports.php?id=277

(4) http://www.alcant.co.za/index.html

(5) Grapevine, Issue 10, July 13, 2007. Viðtal einnig á
http://www.savingiceland.org/node/870

Birt:
2. ágúst 2007
Höfundur:
Saving Iceland
Tilvitnun:
Saving Iceland „Blaðamannfundur Saving Iceland“, Náttúran.is: 2. ágúst 2007 URL: http://nature.is/d/2007/08/02/blaamannfundur-saving-iceland/ [Skoðað:28. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: