Umhverfisdagar í HÍ dagana 1.-3. apríl

Í tilkynningu frá HÍ segir að tilgangur daganna er að auka umhverfisvitund meðal stúdenta og starfsfólks skólans. Að þessu sinni verður athygli einkum beint að endurvinnslu og neyslu. Að Umhverfisdögum standa Gaia - félag meistaranema í umhverfis- og auðlindafræðum, Stúdentaráð Háskóla Íslands og Stofnun Sæmundar fróða um sjálfbæra þróun við HÍ.

Þriðjudaginn 1. apríl getur almenningur kynnt sér opna bása á Háskólatorgi, þar sem umhverfisvænar vörur og lausnir verða kynntar. Náttúran.is er einn af þátttakendum. Klukkan 16:40 verður heimildamyndin „We Feed the World“ sýnd í stofu HT-105 á Háskólatorgi, en austurríski kvikmyndagerðarmaðurinn Erwin Wagenhofer stóð að gerð hennar árið 2005. Myndin fjallar um misjafnt aðgengi jarðarbúa að fæðu og hefur hlotið mikið lof á kvikmyndahátíðum erlendis. Hún er 96 mínútna löng, er með enskum texta og í lok hennar verða umræður (á ensku) um efni hennar. Allir velkomnir og aðgangur ókeypis.

Miðvikudaginn 2. apríl halda Valdimar Sigurðsson, lektor við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík, og Ragna I. Halldórsdóttir, deildarstjóri gæða- og þjónustusviðs Sorpu hádegisfyrirlestra um neyslu og endurvinnslu, sem bera yfirskriftina „Kaupa fyrst, henda svo?”

Valdimar mun fjalla um rannsóknir sínar á kauphegðun íslenskra neytenda og Ragna mun tala um úrgangsmálin á höfuðborgarsvæðinu og mikilvægi hvers og eins okkar í því starfi. Fyrirlestrarnir verð haldnir í stofu HT-104 á Háskólatorgi og hefjast kl 12:00.

Nánari upplýsingar á einstökum dagskrárliðum er að finna hér fyrir neðan.

 

Dagskrá Umhverfisdaga í Háskóla Íslands:

1. apríl:

11:30 - Opnir básar á Háskólatorgi - umhverfisvænar vörur og lausnir

16:40 - Sýning heimildamyndarinnar „We Feed the World“ (96 mín – enskur texti) og umræður í lok myndar um efni hennar.

Stofa HT-105, Háskólatorgi.

2. apríl:

12:00 - Hádegisfyrirlestrar Umhverfisdaga: Kaupa fyrst, henda svo? Tilraunir á áhrifum verðs á kauphegðun íslenskra neytenda. - Valdimar Sigurðsson, lektor við viðskiptadeild HR Úrgangsmálin á höfuðborgarsvæðinu: Hver og einn skiptir máli í góðri meðhöndlun með gott hráefni. - Ragna Ingibjörg Halldórsdóttir, deildarstjóri gæða- og þjónustusviðs Sorpu Stofa HT-104, Háskólatorgi.

20:30 - Umhverfis-Quiz - Spurningameistari er Katrín Jakobsdóttir. Staður: Highlander, Lækjargötu 10.

3. apríl:

21:00 - Uppskeruhátíð Umhverfisdaga á Grand Rokk! Staður: Grand Rokk, Smiðjustíg 6.

Nánar um fyrirlestrana 2. apríl:

Tilraunir á áhrifum verðs á kauphegðun íslenskra neytenda - Valdimar Sigurðsson, lektor við viðskiptadeild HR Prófuð voru áhrif mismunandi verðlagningar ákveðins vörumerkis á hlutfallslega sölu (markaðshlutdeild) þess í stórmörkuðum. Notast var við breytilegt inngripssnið, sem þykir henta sérlega vel þegar útiloka þarf áhrif ytri þátta sem ógna sambandi frumbreytu og fylgibreytu.

Verð á ákveðnu vörumerki í vöruflokknum hársápu var öðru hverju, samkvæmt tilraunasniði, lækkað umtalsvert. Samkvæmt lögmáli eftirspurnar skal búast við því að aðgerð sem þessi muni auka sölu vörumerkisins sem lækkaði í verði, gagnvart sínum vöruflokki. Það varð ekki raunin heldur varð hlutfallsleg sala vörumerkisins, þegar verð var lækkað annað hvort sú sama eða minni. Mögulegar ástæður þessa eru ræddar og bent á frekari rannsóknir með það að markmiði að skýra þessar óvæntu niðurstöður enn frekar.

Úrgangsmálin á höfuðborgarsvæðinu. Hver og einn skiptir máli í góðri meðhöndlun með gott hráefni - Ragna Ingibjörg Halldórsdóttir, deildarstjóri gæða- og þjónustusviðs Sorpu

Fyrirlesturinn mun fjalla um SORPU og hlutverk SORPU við móttöku úrgangs á höfuðborgarsvæðinu. Komið verður inn á hlutverk hvers og eins í ferlinu við meðhöndlun úrgangs, þ.e. hvað ber hverju okkar að gera og af hverju. Farið verður í gegnum hverjar starfsstöðvar SORPU eru, hvaða flokkunarmöguleika fyrirtækið býður uppá og hvað verður um þann úrgang sem kemur til meðhöndlunar; í hvað er hann notaður sem hráefni? Einnig verða framtíðarhorfur úrgangsmála á höfuðborgarsvæðinu reifaðar, hvert við stefnum og með hvaða hætti.

Staður: HT-104 Háskólatorgi, miðvikudaginn 2. apríl kl 12:00.

Myndin hér að ofan verður dreift á Umhverfisdögum í HÍ.

Birt:
31. mars 2008
Höfundur:
Viðskiptablaðið
Tilvitnun:
Viðskiptablaðið „Hefur þú grænan grun?“, Náttúran.is: 31. mars 2008 URL: http://nature.is/d/2008/03/31/hefur-thu-graenan-grun/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: