Fyrsti græðarinn fær skráningu
Lög um græðara voru sett af Alþingi árið 2005 en markmið þeirra er að stuðla að gæðum í þjónustu græðara og tryggja öryggi þeirra sem nýta sér hana. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hafði áður hvatt aðildarþjóðir sínar til að setja reglur um þessa starfsemi. Í lögunum eru störf græðara skilgreind sem heilsutengd þjónusta sem byggist fremur á hefð og reynslu en gagnreyndum vísindalegum niðurstöðum og sem veitt eru utan almennu heilbrigðisþjónustunnar. Þjónusta græðara felur í sér meðferð sem hefur að markmiði að efla heilsu fólks, lina þjáningar og draga úr óþægindum.
Til að fá skráningu þarf græðari að vera í fagfélagi sem er viðurkennt sem aðili að frjálsu skráningarkerfi Bandalags íslenskra græðara. Heilbrigðis- og tryggingamála-ráðherra ákveður að fenginni umsögn Landlæknis og Bandalags íslenskra græðara hvort einstök félög uppfylla kröfur sem eru forsenda þess að fá aðild að skráningarkerfinu. Til þessa hafa fimm fagfélög græðara fengið aðild að skráningarkerfinu og umsóknir tveggja félaga til viðbótar eru til skoðunar. Innan þessara félaga eru starfandi liðlega 500 græðarar og má búast við að á næstunni muni fjöldi þeirra óska eftir formlegri skráningu. Græðarar sem sækja um skráningu þurfa meðal annars að hafa ábyrgðatryggingu sem tryggir skjólstæðinga þeirra vegna tjóns sem kann að hljótast af gáleysi í störfum þeirra.
Fyrsta félagið sem fékk samþykkta aðild að skráningarkerfinu var ORGANON, félag hómópata, en síðan hafa fjögur önnur fagfélög bæst við en það eru: CSFÍ, CranioSacral félag Íslands, Shiatsufélag Íslands, Svæðameðferðarfélag Íslands og Félag íslenskra heilsunuddara.
Mynd: Græðararnir sem heimsóttu ráðherra í tilefni skráningu fyrsta græðarans:
Frá vinstri, Árni V. Pálmason, CranioSacral félagi Íslands, Anna Birna Ragnarsdóttir Hómapatafélagi Íslands, Ásta Agnarsdóttir Sambandi svæða-og viðbragðsfræðinga á Íslandi, Siv Friðleifsdóttir, Guðrún Jónína, Félagi íslenskra heilsunuddara,
Ragnheiður Júlíusdóttir, Svæðameðferðarfélagi Íslands.
Birt:
Tilvitnun:
Birgir Þórðarson „Fyrsti græðarinn fær skráningu“, Náttúran.is: 18. maí 2007 URL: http://nature.is/d/2007/05/18/fyrsti-grarinn-fr-skrningu/ [Skoðað:22. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 18. ágúst 2008