Athugasemdir við umsókn ORF Líftækni hf. um leyfi til útiræktunar á erfðabreyttu byggi
Ég undirritaður beini þeim eindregnu tilmælum til Umhverfisstofnunar að ORF Líftækni hf. verði ekki veitt leyfi til útiræktunar á erfðabreyttu byggi í Gunnarsholti eins og fyrirtækið hefur óskað eftir. Þessi tilmæli er studd þeim rökum sem fram koma í eftirfarandi umsögn.
1. Ófullnægjandi samráðsferli
Eins og fram kom í tilkynningu á heimasíðu Umhverfisstofnunar 20. maí 2009 vill stofnunin gefa almenningi og hagsmunaaðilum tækifæri til að kynna sér tilgreind áform um útiræktun. Með sömu tilkynningu voru „birt helstu gögn er verða lögð til grundvallar við ákvörðun um leyfisveitingu að hálfu Umhverfisstofnunar“. Í tilkynningunni var einnig boðað til opins fundar í Frægarði, fundarsal Landgræðslu Ríkisins í Gunnarsholti, þriðjudaginn þann 26. maí. Þar var og gefinn frestur til 28. maí til að skila inn skriflegum athugasemdum til Umhverfisstofnunar. Þetta samráðsferli byggir væntanlega á heimild í 31. gr. rgl. nr. 493/1997 um sleppingu eða dreifingu og markaðssetningu erfðabreyttra lífvera.
Það samráðsferli sem lýst er hér að framan getur á engan hátt talist fullnægjandi. Telja verður með öllu óviðunandi að gefa aðeins 8 daga frest til að skila athugasemdum við málefni á borð við þetta, sem í senn er afar flókið í eðli sínu og hefur mikið fordæmisgildi. Auk heldur var birting tilkynningarinnar og tímasetning hennar með þeim hætti, m.a. þegar haft er í huga að dagarnir 21., 23. og 24. maí voru almennir frídagar, að væntanlega hafa fáir átt þess kost að kynna sér málsatvik fyrr en mánudaginn 25. maí, þ.e. daginn fyrir boðaðan fund og þremur dögum fyrir síðasta skiladag athugasemda. Sömuleiðis er óhjákvæmilegt að gera athugasemd við staðsetningu og tímasetningu kynningarfundarins. Hann var haldinn fjarri þéttbýlasta hluta landsins á miðjum vinnudegi, sem væntanlega hefur dregið mjög úr möguleikum almennings á að sækja fundinn. Staðsetning fundarins hefur væntanlega verið valin með tilliti til staðsetningar fyrirhugaðrar ræktunar, en í því sambandi má benda á að Íslendingar sem búsettir eru fjarri ræktunarstaðnum hafa einnig verulega hagsmuni í þessu sambandi, þar sem ræktunin kann að hafa áhrif á ímynd Íslands og markaðsstöðu, sjá síðar.
Hvað varðar frestinn til að skila athugasemdum má benda á ákvæði 12. gr. rgl. nr. 493/1997 um sleppingu eða dreifingu og markaðssetningu erfðabreyttra lífvera, en skv. henni skal Umhverfisstofnun „taka afstöðu til umsóknar innan 90 daga frá viðtöku hennar og senda umsækjanda skriflegt svar [...]. Ofangreindur 90 daga frestur tekur þó ekki til þess tíma sem það tekur [Umhverfisstofnun] að afla viðbótarupplýsinga sem hún kann að hafa krafið umsækjanda um eða að leita samráðs við samtök eða almenning í samræmi við 31. gr.“.
Í umsögn meirihluta Ráðgjafarnefndar um erfðabreyttar lífverur kemur fram að nefndin telji „rétt, í ljósi þess að um umdeilda ræktun er að ræða, að fram fari víðtæk kynning á þessum áformum ORF Líftækni hf.“. Því fer fjarri að sú kynning sem hér um ræðir geti talist „víðtæk“ og endurspegli þannig þessa skoðun nefndarinnar. Jafnframt mælir ráðgjafarnefndin með því við Umhverfisstofnun að stofnunin setji það skilyrði fyrir leyfinu „að fram fari grenndarkynning á fyrirhugaðri tilraun og öðrum áformum ORF Líftækni hf.“. Ekki verður séð að fundurinn í Gunnarsholti 26. maí sl. standi undir nafni hvað þetta varðar, eins og áður er rakið.
Með hliðsjón af framanskráðu verður ekki séð að neina nauðsyn hafi borið til að sníða umræddu samráðsferli svo þröngan stakk sem raun ber vitni. Að mati undirritaðs hefur samráðsferlið því verið með öllu ófullnægjandi. Því beri að gera þá lágmarkskröfu til Umhverfisstofnunar að afgreiðslu umsóknarinnar verði frestað svo að almenningur eigi þess raunverulegan kost að kynna sér málið og taka afstöðu til þess. Um leið gæfist Umhverfisstofnun færi á að „leita umsagnar annarra sérfræðistofnana eða sérfræðinga“, eins og heimilt er skv. 10. gr. fyrrnefndrar reglugerðar. Slíkar umsagnir hljóta að vera stofnuninni afar mikils virði og í raun nauðsynlegar að teknu tilliti til eðlis málsins.
2. Ófullnægjandi fræðsla
Samkvæmt 6. grein laga nr. 18/1996 um erfðabreyttar lífverur skal umhverfis-ráðherra „skipa níu manna ráðgjafanefnd sem hefur sérfræðiþekkingu á þessu sviði. [...]. Nefndin skal veita umsagnir samkvæmt lögum þessum auk þess sem hún skal veita eftirlits- og framkvæmdaraðilum ráðgjöf um framkvæmd laganna og beita sér fyrir fræðslu um erfðabreytingar“. Í frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 18/1996 (sjá síðar) er lögð til sú breyting að Umhverfisstofnun taki við þessu fræðsluhlutverki og beiti „sér fyrir fræðslu um erfðabreyttar lífverur og áhrif þeirra á umhverfið í samráði við ráðgjafanefnd“, enda hafi ráðgjafarnefndin „ekki haft fjármagn né aðstöðu til að sinna því hlutverki“, eins og segir í athugasemdum við frumvarpið.Eins og lesa má út úr framangreindum athugasemdum hafa stjórnvöld ekki veitt almenningi þá fræðslu sem ætlað var í samræmi við 6. grein laga nr. 18/1996. Þetta gerir það enn nauðsynlegra en ella að ráðast í umfangsmikið kynningar- og samráðsferli áður en ákvörðun er tekin um afgreiðslu umræddrar umsóknar frá ORF Líftækni hf.
3. Ófullnægjandi gögn
Til viðbótar því sem þegar hefur komið fram um takmarkanir samráðsferlisins sem viðhaft var vegna umræddrar afgreiðslu, er óhjákvæmilegt að gera alvarlegar athugasemdir við þau gögn sem Umhverfisstofnun birti með tilkynningunni á heimasíðu sinni 20. maí sl., einkum hvað varðar útdrátt úr umsókninni frá ORF Líftækni hf. Í útdrættinum koma ekki fram neinar tölulegar upplýsingar um umfang fyrirhugaðrar ræktunar, dagsetningar né neitt annað sem gerir það mögulegt að taka faglega afstöðu til umsóknarinnar. Fljótt á litið virðist auk heldur gæta misræmis í þeim tölulegu upplýsingum sem lesa má út úr gögnum málsins, öðrum en útdrættinum, séu þau borin saman við tilkynningu sem birtist á opinberu vefsetri Evrópusambandsins um erfðabreyttar lífverur, www.gmoinfo.jrc.europa.eu, (tilkynning nr. B/IS/09/01). Vegna hins knappa tíma sem gefst til vinnslu umsagna hefur undirrituðum þó ekki gefist ráðrúm til að sannreyna þetta.
Í 13. grein laga nr. 18/1996 um erfðabreyttar lífverur með síðari breytingum kemur fram að umsóknir um leyfi „skulu vera þannig úr garði gerðar að þær séu fallnar til almennrar kynningar eftir því sem ákveðið kann að verða og samrýmist ákvæðum um upplýsingaskyldu og trúnað“. Þar sem undirritaður hefur ekki aðgang að upphaflegri umsókn getur hann ekkert fullyrt um hvort hún uppfylli ákvæði 13. greinarinnar, en hins vegar er ljóst að sá útdráttur sem birtur var á vef Umhverfisstofnunar er fjarri því að vera fallinn til almennrar kynningar. Vera kann að útdrátturinn sé svo takmarkaður sem raun ber vitni til að gæta trúnaðar við umsækjandann. Undirrituðum er kunnugt um ákvæði um trúnaðarskyldu í málum sem þessu, en hér virðist þá hafa verið gengið mun lengra í þeim efnum en eðlilegt getur talist. Í því sambandi má benda á þær upplýsingar sem almenningur hefur jafnan aðgang að við afgreiðslu á starfsleyfum, skýrslum um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda o.s.frv.
Gera verður þá lágmarkskröfu til Umhverfisstofnunar að lögð verði fram gögn í málinu, sem fallin eru til almennrar kynningar og afgreiðslu umsóknar frestað til að gefa almenningi kost á að kynna sér þau gögn.
4. Markmið laga
Markmið laga nr. 18/1996 um erfðabreyttar lífverur er að „vernda náttúru landsins, vistkerfi, plöntur og heilsu manna og dýra gegn skaðlegum og óæskilegum áhrifum erfðabreyttra lífvera“. Í 5. grein laganna kemur fram að Umhverfisstofnun sé „óheimilt að veita leyfi ef slík leyfisveiting samræmist ekki markmiðum laga þessara“. Það er mat undirritaðs að sú leyfisveiting sem hér er til umfjöllunar samræmist ekki markmiðum laganna, þar sem ekki hafi verið færðar nægjanlegar sönnur á að umrædd ræktun erfðabreyttra lífvera valdi ekki skaðlegum og óæskilegum áhrifum. Í þessu sambandi vísast sérstaklega til Varúðarreglunnar, sem síðar verður vikið að.
5. Próf og athuganir
Samkvæmt 10. gr. rgl. nr. 493/1997 um sleppingu eða dreifingu og markaðs-setningu erfðabreyttra lífvera skal Umhverfisstofnun „ef þörf krefur, gera í eftirlitsskyni þau próf og athuganir sem kunna að vera nauðsynlegar“ áður en afstaða er tekin til umsókna. Undirrituðum er ekki kunnugt um að Umhverfisstofnun hafi gert nein slík próf eða athuganir í eftirlitsskyni, heldur virðist stofnunin á heimasíðu sinni vísa einvörðungu til rannsóknarskýrslu frá Landbúnaðarháskóla Íslands, þar sem greint er frá niðurstöðum takmarkaðra rannsókna á byggi, sem ná aðeins yfir mjög skamman tíma. Undirritaður telur óhjákvæmilegt að Umhverfis-stofnun geri frekari próf eða athuganir, eða hafi tiltækar frekari staðfestingar á meintu skaðleysi umræddrar ræktunar áður en ákvörðun er tekin. Þetta er sérstaklega mikilvægt í ljósi þess hversu málið er flókið í eðli sínu og hefur mikið fordæmisgildi.
Í þessu sambandi er einnig rétt að benda á, að á kynningarfundinum í Gunnarsholti 26. maí sl. mun hafa komið fram að Landbúnaðarháskólinn ætti um þessar mundir 8-10% hlut í ORF Líftækni hf, auk þess sem fjármálastjóri LBHÍ situr í stjórn fyrirtækisins. Þetta þarf ekki að rþra faglegt gildi umræddra rannsókna á nokkurn hátt, en beinir þó athyglinni að sameiginlegum hagsmunum aðila.
6. Lagaleg staða
Þann 18. maí sl. var dreift á Alþingi frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 18/1996, um erfðabreyttar lífverur, (137. löggjafarþing 2009, Þskj. 2 – 2. mál), en með frumvarpinu er verið að innleiða tilskipun Evrópuþingsins og -ráðsins 2001/18/EB, um sleppingu erfðabreyttra lífvera út í umhverfið. Tilskipunin varð hluti af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar þar um nr. 127/2007 hinn 28. september 2007. Hefðbundinn sex mánaða frestur Íslands til að innleiða tilskipunina í íslenska löggjöf rann út 28. mars 2008.
Vegna þess afar knappa tíma sem gefinn er til að koma á framfæri athugasemdum við umsókn ORF Líftækni hf. um umrædda ræktun á erfðabreyttum lífverum, hefur undirritaður ekki haft ráðrúm til að kynna sér fyrrnefnt lagafrumvarp til hlítar. Í athugasemdum við frumvarpið kemur þó fram, að tilskipunin sem frumvarpinu er ætlað að innleiða kveður á um ítarlegri málsmeðferðarreglur en eldri tilskipunin gerði. Þar er ekki síst mikilvægt að kveðið er á um aukinn rétt almennings til aðkomu að málum áður en endanleg ákvörðun um leyfisveitingu er tekin. Eins og fram kemur einnig í athugasemdum með frumvarpinu, var við samningu tilskipunarinnar „tekið sérstakt mið af varúðarreglunni (e. Precautionary Principle) og kveðið á um að taka beri tillit til hennar þegar tilskipunin komi til framkvæmda. Varúðarreglan er meginregla í umhverfisrétti sem er m.a. að finna í 15. meginreglu Ríó-yfirlýsingarinnar. Hún felur í sér að þar sem hætta er á alvarlegu eða óbætanlegu tjóni skuli ekki beita skorti á vísindalegri fullvissu sem rökum til að fresta kostnaðarhagkvæmum aðgerðum sem koma í veg fyrir umhverfisspjöll. Þetta má líka orða þannig að þegar fyrir hendi er vísindaleg óvissa um afleiðingar framkvæmda fyrir umhverfið, skuli náttúran njóta vafans. Þannig skal, eins nafn reglunnar ber með sér, fara fram af varúð“. Einnig kemur fram að tillit hafi verið tekið til „alþjóðlegrar reynslu á þessu sviði og alþjóðlegra skuldbindinga í viðskiptum og að hluta til þeirra krafna sem gerðar eru í Kartagena-bókuninni um líföryggi sem gerð var við samninginn um líffræðilega fjölbreytni. Ísland er aðili að samningnum um líffræðilega fjölbreytni og hefur undirritað Kartagena-bókunina þó hún hafi ekki verið fullgilt hér á landi enn sem komið er. Kartagena-bókunin tekur sérstaklega til flutnings erfðabreyttra lífvera milli landa, leyfisveitingar, meðhöndlunar og notkunar, mats á áhættu og upplýsinga og aðgangs að upplýsingum. Með bókuninni er stefnt að því að tryggja viðhlítandi verndarstig hvað varðar öruggan flutning, meðhöndlun og notkun á lifandi erfðabreyttum lífverum, sem kunna að hafa skaðleg áhrif á verndun og sjálfbæra nýtingu líffræðilegrar fjölbreytni, sem og heilsu manna. Í aðfaraorðum tilskipunar 2001/18/EB er vísað til Kartagena-bókunarinnar og því eðlilegt að meginmarkmið hennar séu höfð til viðmiðunar við túlkun ákvæða tilskipunarinnar að því marki sem gildissvið bókunarinnar og tilskipunarinnar fara saman“.
Í þessu sambandi er rétt að undirstrika að samkvæmt Varúðarreglunni hvílir sönnunarbyrðin á þeim sem vill taka áhættu, en ekki þeim sem vill forðast hana. Í erfðatækninni hvílir sönnunarbyrðin því á framleiðendum. Það er sem sagt hlutverk framleiðendanna að sýna fram á að verkefni þeirra og vörur hafi ekki skaðleg áhrif á umhverfi og heilsu.
Telja verður það afar óeðlilegt og reyndar ámælisvert að afgreiða umsókn ORF Líftækni hf. um umrædda ræktun á grundvelli eldri laga og reglugerða þegar fyrir liggur frumvarp til breytinga á lögunum með ákvæðum sem Íslendingum bar samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið að innleiða í íslenska löggjöf í síðasta lagi 28. mars 2008. Afgreiðsla umsóknarinnar við þessar aðstæður brþtur hugsanlega í bága við skuldbindingar Íslands hvað þetta varðar. Því verður að gera þá kröfu til Umhverfisstofnunar að hún fresti afgreiðslu umsóknarinnar þar til íslensk stjórnvöld hafa innleitt ákvæði tilskipunarinnar eins og þeim ber. Afgreiðslan verði síðan byggð á ákvæðum hinna breyttu laga og reglugerða sem settar verða á grundvelli þeirra.
7. Ófullnægjandi áhættumat
Í umsögn Náttúrufræðistofnunar um umsókn ORF Líftækni hf. kemur fram það mat stofnunarinnar að skoða þurfi tvö meginatriði vegna ræktunar á erfðabreyttu byggi og þar með hugsanlegrar dreifingar erfðabreyttra lífvera út í íslenska náttúru. Í fyrsta lagi þurfi að „skoða hvort hætta sé á því að próteinið sem á að framleiða sé skaðlegt fyrir aðrar lífverur, berist það í þær, og í öðru lagi hvort gen sem hið erfðabreytta bygg er hþsill fyrir berist í aðrar lífverur með víxlfrjóvgun eða með öðrum leiðum“.
Í umsögn stofnunarinnar kemur fram „að litlar líkur séu á að græði próteinin sem framleiða á skaði villt dýr og menn”. Þetta eru engan veginn fullnægjandi rök fyrir því að leyfa umrædda ræktun, sé tekið mið af Varúðarreglunni, sem ætlað er að vera einn af grunný áttunum í löggjöf og stefnumótun ríkja samkvæmt samþykktum Heimsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun í Ríó 1992 og liggur m.a. til grundvallar tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/18/EB, um sleppingu erfðabreyttra lífvera út í umhverfið, eins og fram kemur hér að framan. Það að litlar líkur séu taldar á einhverju felur í sér vísindalega óvissu. Því ber að leggja afar mikla áherslu á beitingu Varúðarreglunnar í þessu máli.
Í gögnum málsins er í fljótu bragði ekki að finna tilhlýðilegan rökstuðning fyrir því að gen sem hið erfðabreytta bygg er hþsill fyrir geti ekki borist í aðrar lífverur „með víxlfrjóvgun eða með öðrum leiðum“. Vísað er til rannsókna sem benda ekki til þess að víxlfrjóvgun sé líkleg að neinu marki, en hins vegar virðist skorta rökstuðning á að þetta geti ekki gerst „með öðrum leiðum“. Þannig virðist í fljótu bragði hvergi vera gert ráð fyrir hugsanlegum láréttum genaflutningi, sem þó virðist í vaxandi mæli vera til umræðu í vísindasamfélaginu, einkum þegar í hlut eiga utanaðkomandi gen sem felld hafa verið inn í erfðaefni annarrar lífveru. Það er með öðrum orðum ekki nóg að færa rök fyrir skaðleysi próteinanna sem framleiða á, heldur verður líka að færa fullnægjandi rök fyrir skaðleysi kjarnsýrubúta sem berast kunna út í umhverfið. Sérstaklega virðist skorta á rannsóknir á hugsanlegum áhrifum bæði próteina og kjarnsýrubúta á vistkerfi í efstu lögum jarðvegs. Rannsókn sú við Landbúnaðar-háskóla Íslands, sem vísað er til, uppfyllir engan veginn þessa rannsóknarþörf, auk þess sem hún nær yfir afar stutt tímabil og nær því engan veginn að varpa nægjanlegu ljósi á hugsanleg langtímaáhrif. Einnig ber að hafa í huga að í umræddri rannsókn voru notaðir 10-30 m2 tilraunareitir, sem eðli málsins samkvæmt gefa mjög takmarkaða vísbendingu um áhættu sem kann að fylgja ræktun á 1-10 hekturum lands, eins og hér virðist geta verið um að ræða, t.d. hvað varðar vörn gegn fuglum, villtum dýrum og búfé.
Í þessu sambandi er einnig ástæða til að benda á, að eins og fram kemur í séráliti Gunnars Á. Gunnarssonar, fulltrúa í Ráðgjafarnefnd um erfðabreyttar lífverur hefur Dr. Kesara A. Jónsson „bent á að ekki sé hægt að útiloka víxlfrjóvgun [byggs] og melgresis sem er ein algengasta landgræðslujurt á Íslandi“. Í séráliti Gunnars kemur einnig fram að ekki sé „vitað til þess að tilraunir hafi verið gerðar til að prófa þá tilgátu“.
Það er niðurstaða undirritaðs að áhættumat vegna fyrirhugaðrar ræktunar sé svo ófullnægjandi, að hvorki Umhverfisstofnun né umsagnaraðilar, lögbundnir eða aðrir, geti byggt afstöðu sína á því. Þess vegna beri Umhverfisstofnun að hafna umræddri umsókn eða fresta ákvörðun þar til fullnægjandi áhættumat hefur farið fram.
8. Stefnumótun íslenskra stjórnvalda
Í „Velferð til framtíðar“, endurskoðaðri stefnumörkun stjórnvalda um sjálfbæra þróun í íslensku samfélagi fram til 2020, með áherslum 2006-2009, er sett fram það markmið (Markmið 17) að „tryggt verði að líffræðileg fjölbreytni vistgerða og vistkerfa á Íslandi verði viðhaldið með því að vernda tegundir dýra, plantna og annarra lífvera, erfðaauðlindirnar sem þær búa yfir og búsvæði þeirra“, að „öll nýting hinnar lifandi náttúru fari fram á sjálfbæran hátt“ og að „við framkvæmdir sem raska eða breyta lifandi náttúru verði beitt varúðarsjónarmiði og vistkerfisnálgun þannig að neikvæðum áhrifum á vistkerfi verði haldið í lágmarki“. Jafnframt kemur fram að Cartagena-bókunin við samning um líffræðilega fjölbreytni, um líföryggi verði fullgilt af Íslands hálfu á árinu 2007.
Enda þótt fullgilding Cartagena-bókunarinnar hafi dregist fær undirritaður ekki séð að þau áform ORF Líftækni hf. sem hér eru til umræðu geti talist vera í samræmi við framangreinda stefnumótun. Í þessu sambandi má einkum benda á markmiðið um að „öll nýting hinnar lifandi náttúru fari fram á sjálfbæran hátt“. Ræktun sem hefur í för með sér jafnmikla óvissu og hér um ræðir hvað varðar langtímaáhrif, getur naumast fallið undir nýtingu hinnar lifandi náttúru á sjálfbæran hátt. Gera verður þá kröfu til Umhverfisstofnunar að hún hafi þetta til hliðsjónar við afgreiðslu umræddrar umsóknar.
Í þessu sambandi má enn fremur benda á, að samkvæmt sameiginlegri umhverfis-áætlun Norðurlandanna fyrir árið 2009-2012 þarf norrænt samstarf um erfðabreyttar lífverur að halda áfram, „meðal annars milli norrænna stjórnvalda, um líffræðilegt öryggi og áhættumat í tengslum við leyfisveitingar og eftirlit“. Vegna hins knappa tímaramma sem gefinn er til umsagna hefur undirritaður ekki átt þess kost að kynna sér hvort Umhverfisstofnun hafi leitað eftir samráði eða samstarfi við sambærilegar stofnanir á Norðurlöndunum vegna umrædds máls, svo sem hvað varðar áhættumat. Hins vegar hlýtur slíkt samráð og samstarf að teljast eðlilegt og nauðsynlegt í tilviki sem þessu, bæði með hliðsjón af framangreindu ákvæði í norrænu umhverfis-áætluninni og stöðu verkefnisins í alþjóðlegu samhengi, sem nánar verður vikið að hér að neðan.
9. Staða verkefnisins í alþjóðlegu samhengi
Þegar tekin er afstaða til umsóknar ORF Líftækni hf. um umrædda ræktun er óhjákvæmilegt að benda á að engin dæmi eru um að slík ræktun utandyra (slepping) hafi verið leyfð í Evrópu, nema þá í afar takmörkuðum mæli í tilraunaskyni. Í því tilviki sem hér um ræðir er að vísu rætt um „tilraunaframleiðslu“, en ljóst virðist af gögnum málsins, þ.m.t. gögnum umsækjanda og fjölmiðlaumfjöllun, að þegar fram í sækir verði hér um að ræða umfangsmikla iðnaðarframleiðslu. Eins og áður hefur komið fram vantar allar tölulegar upplýsingar í útdrátt þann sem Umhverfisstofnun birti á heimasíðu sinni þann 20. maí sl., en í séráliti Gunnars Á. Gunnarssonar, fulltrúa í Ráðgjafarnefnd um erfðabreyttar lífverur kemur fram að stefnt sé að 2.000 m2 ræktun þegar á öðru ári og síðan 100.000 m2 eftir það. Eina erfðabreytta plantan sem leyft er að rækta í atvinnuskyni utanhúss í Evrópu er Bt-maísyrkið MON810, en á síðustu misserum hafa þó a.m.k. sjö lönd Evrópusambandsins (Austurríki, Frakkland, Grikkland, Holland, Sviss, Ungverjaland og Þýskaland) bannað þá ræktun. Sú ræktun sem ORF Líftækni hf. áformar snýst um framleiðslu á mannapróteini. Leyfi til ræktunar á virkum efnum af þessu tagi á sér enga hliðstæðu í Evrópu.
Með hliðsjón af framanskráðu er ljóst að Umhverfisstofnun stendur frammi fyrir ákvörðun sem er afar þýðingarmikil í alþjóðlegu samhengi og mun hafa fordæmisgildi. Þess vegna er enn mikilvægara en ella að ákvörðunin byggi á víðtæku samráði innanlands sem utan.
Í þessu ljósi verður að gera þá kröfu til Umhverfisstofnunar að hún annað hvort hafni umsókninni eða fresti afgreiðslu hennar nógu lengi til að þýðing ákvörðunarinnar í alþjóðlegu samhengi verði ljós og að ásættanlegt samráð hafi farið fram á innlendum vettvangi sem og á EES-svæðinu í samræmi við ákvæði tilskipunar 2001/18/EB.
10. Áhrif á ímynd
Með tilliti til þeirrar alþjóðlegu sérstöðu sem umrætt mál hefur, má ljóst vera að afgreiðsla þess getur haft töluverð áhrif á ímynd Íslands í heild, svo og þess landsvæðis sem næst er ræktuninni. Áhrif tiltekinna ráðstafana á ímynd geta verið langt umfram það sem ráðstöfunin sem slík gefur tilefni til, en engu að síður er afar brýnt að leitast við að meta mikilvægi þessa atriðis áður en ákvörðun er tekin.
Við markaðssetningu Íslands sem ferðamannalands og við markaðssetningu á íslenskum vörum erlendis hefur verið lögð mikil áhersla á hreina náttúru landsins. Líklegt má telja að þessi ímynd skaðist ef Ísland verður fyrsta landið í Evrópu til að leyfa útiræktun á erfðabreyttum plöntum til lyfjaframleiðslu. Þetta kann að torvelda sölu á íslenskum vörum, einkum landbúnaðarvörum og öðrum vörum þar sem hreinleiki landsins er sérstaklega nýttur í markaðssetningu. Óhjákvæmilegt er að leggja mat á þessi hugsanlegu neikvæðu áhrif áður en ákvörðun er tekin. Í þeirri vinnu er afar nauðsynlegt að hafa víðtækt samráð við hagsmunaðila.
Auk hugsanlegra skaðlegra áhrifa á ímynd Íslands út á við, má gera ráð fyrir að útiræktun á erfðabreyttum plöntum til lyfjaframleiðslu geti haft skaðleg áhrif á samkeppnisstöðu framleiðenda í grennd við ræktunarstaðinn. Þannig er hugsanlegt að neytendur muni í auknum mæli sniðganga matvörur úr nánasta umhverfinu.
Gera verður þá kröfu til Umhverfisstofnunar að hún taki tillit til þessara þátta við afgreiðslu á umsókn ORF Líftækni hf.
11. Ábyrgðartryggingar
Samkvæmt 7. grein laga nr. 18/1996 um erfðabreyttar lífverur setur umhverfis-ráðherra í reglugerðir á grundvelli laganna, að fenginni umsögn ráðgjafanefndar, m.a. nánari ákvæði um framkvæmd laganna hvað varðar ábyrgðartryggingar. Vegna hins knappa tíma sem gefst til vinnslu umsagna hefur undirritaður ekki náð að ganga úr skugga um hvort slík ákvæði hafi verið sett í reglugerð. Óháð því hlýtur ábyrgð umsækjanda þó að verða tekin til umræðu við afgreiðslu umsóknarinnar, sérstaklega þegar tekið er tillit til eðlis málsins og þeirrar sérstöðu sem ræktun á erfðabreyttum lífverum hefur þegar kemur að áhættumati. Ræktun á erfðabreyttum lífverum flokkast undir það sem stundum er nefnt „Svartir svanir“ í umræðum um umhverfismál, en þar er átt við starfsemi þar sem líkur á tjóni eru afar litlar, en hugsanlegt tjón gríðarlegt ef óhöpp verða. Slík starfsemi er vandmeðfarin í tryggingarlegu tilliti, sem gerir það enn nauðsynlegra en ella að umsækjandi leggi fram gögn um það hvernig hann hyggist bregðast við er slys verða eða ef í ljós kemur að starfsemin hafi ófyrirsjáanlegar neikvæðar afleiðingar í för með sér fyrir þriðja aðila. Í því sambandi hlýtur að teljast eðlilegt að umsækjandi leggi fram gögn til staðfestingar á því að hann sé tryggður fyrir hugsanlegu tjóni, annað hvort á grundvelli eigin fjárhagslegrar getu eða með samningi við tryggingafélag. Slík staðfesting hlýtur þá að fylgja umsókn. Á fyrirliggjandi gögnum verður þó ekki séð að neitt slíkt liggi fyrir.
Framangreint atriði er sérstaklega mikilvægt í ljósi 23. greinar laga nr. 18/1996 um erfðabreyttar lífverur, en þar kemur fram að ef slys verður, þ.e. ef erfðabreyttar lífverur sleppa út í umhverfið, skuli „sá sem ábyrgð ber á starfseminni grípa til nauðsynlegra ráðstafana svo að koma megi í veg fyrir eða takmarka eins og kostur er tjón eða óþægindi sem af slysinu kunna að hljótast“. Þetta er og í samræmi við Mengunarbótaregluna, sem ætlað er að vera einn af grunný áttunum í löggjöf og stefnumótun ríkja samkvæmt samþykktum Heimsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun í Ríó 1992.
Með hliðsjón af framanskráðu hlýtur að verða að gera þá kröfu til Umhverfisstofnunar, að áður en ákvörðun verður tekin um afgreiðslu umræddrar umsóknar kalli stofnunin eftir staðfestingu umsækjanda á því hvernig ábyrgðar-tryggingum vegna umræddrar starfsemi verður háttað.
12. Tengsl umsagnaraðila
Náttúrufræðistofnun Íslands og Ráðgjafarnefnd um erfðabreyttar lífverur eru einu aðilarnir sem Umhverfisstofnun ber skylda til að leita eftir umsögnum frá við afgreiðslu á umsóknum um sleppingu erfðabreyttra lífvera út í umhverfið, sbr. lög nr. 18/1996 um erfðabreyttar lífverur. Ekki verður hjá því komist að gera athugasemd við tengsl þessara aðila hvorn við annan og við Umhverfisstofnun, en Snorri Baldursson, starfandi formaður ráðgjafarnefndarinnar er jafnframt staðgengill forstjóra Náttúrufræðistofnunar. Auk þess hefur undirrituðum skilist að Umhverfis-stofnun leggi ráðgjafarnefndinni til ritara úr hópi starfsmanna sinna. Hér er engum getum að því leitt að þessi tengsl spilli umsagnarferlinu á nokkurn hátt, en þó virðist næsta augljóst að breidd þess hóps sem veitir umsagnir og vinnur úr þeim sé minni en æskilegt má telja í ljósi þess hversu flókið og sérstætt viðfangsefnið er.
Í ljósi alls þess sem hér hefur verið rakið endurtekur undirritaður þau eindregnu tilmæli til Umhverfisstofnunar, sem fram koma í upphafi þessarar umsagnar, að ORF Líftækni hf. verði ekki veitt leyfi til útiræktunar á erfðabreyttu byggi í Gunnarsholti eins og fyrirtækið hefur óskað eftir.
Sign.
Höfundur er umhverfisstjórnunarfræðingur MSc og famkvæmdastjóri UMÍS ehf. Environice
Birt:
Tilvitnun:
Stefán Gíslason „Athugasemdir við umsókn ORF Líftækni hf. um leyfi til útiræktunar á erfðabreyttu byggi“, Náttúran.is: 31. maí 2009 URL: http://nature.is/d/2009/05/31/athugasemdir-vio-umsokn-orf-liftaekni-hf-um-leyfi-/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.