Kertaljósagöngur á 2000 stöðum í heiminum, líka í Reykjavík
Heimurinn krefst samnings sem heldur - THE WORLD WANTS A REAL DEAL:
Í dag þann 12. desember mun fólk um heim allan taka þátt í meira en 2000 kertaljósavökum. Krafan er sú að bindandi samkomulag náist á Loftlagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn. Attac á Íslandi skipuleggur vökuna í Reykjavík. Komið verður saman á Lækjartorgi kl: 17:30, og kveikt á kertum. Ólafur Páll Jónsson flytur ávarp, lesin verða skilaboð til samningsaðila í Kaupmannahöfn, og dúettinn Piknikk leikur nokkur lög.
Baráttufólk og sérfræðingar í loftslagsmálum fullyrða að raunverulegur samningur um samdrátt í útstreymi gróðurhúsalofttegunda verði að innihalda eftirfarandi atriði:
a) Sanngirni – Tryggja verður 200 milljarða bandaríkjadollara til að fjármagna aðgerðir í fátækum ríkjum til að takast á við afleiðingar loftslagsbreytinga.
b) Metnað - Stefnt verði að því að útblástur koltvísýrings nái hámarki eigi síðar en árið 2015 og að styrkur hans í andrúmsloftinu verði þegar fram í sækir ekki meiri en 350 ppm (er nú 384 ppm). Niðurstöður vísindarannsókna sýna að haldi styrkur gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu áfram að aukast verði ómögulegt að stöðva hraðar loftslagsbreytingar, bráðnun Grænlandsjökuls og varanlegar breytingar á vistkerfi jarðar.
c) Lagalega bindandi – samningur verður að binda ríki heims að þjóðarrétti.
Nóbelsverðlaunahafinn Desmond Tutu og Mary Robinson, fyrrverandi mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna munu leiða kertaljósavöku fyrir utan Bella Center í Kaupmannahöfn þar sem samningar fara fram.
„Skilaboðin til þjóðarleiðtoga héðan frá Reykjavík eru: Við krefjumst samnings sem tryggir framtíð jarðar,“ sagði Sólveig Anna Jónsdóttir, meðlimur Attac á Íslandi og félagi í Avaaz.org, netsamfélaginu sem skipuleggur atburðina um heim allan.
„Við krefjumst samkomulags sem er nógu metnaðarfullt til að tryggja að veröldin sé byggileg fyrir alla. Samningurinn verður að vera sanngjarn gagnvart fátækustu löndunum. Íbúar þeirra orsökuðu ekki loftlagsbreytingarnar en afleiðingarnar mun þó bitna þær mest á þeim. Og við krefjumst þess að samningurinn sé lagalega bindandi, með skilgreind losunarmörk og ártöl.“ Attac á Íslandi skipuleggur kertaljósavökuna í Reykjavík, í samstarfi við Náttúruverndarsamtök Íslands.
Hún verður á Lækjartorgi, kl: 17.30, 12. desember. Allir eru velkomnir.
Birt:
Tilvitnun:
Árni Finnsson „Kertaljósagöngur á 2000 stöðum í heiminum, líka í Reykjavík“, Náttúran.is: 12. desember 2009 URL: http://nature.is/d/2009/12/12/kertaljosagongur-2000-stooum-i-heiminum-lika-i-rey/ [Skoðað:26. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.