9.kafli - Tjörnin og annað votlendi
Villigarður án tjarnar er eins og bíó án tjalds. “Skógarjaðarinn” og “engið” skapa eins konar sveitatilfinningu og dýralífið sem þetta tvennt hþsir er fjölbreytt.
Hið raunverulega lífríki í garðinum er þó í og við tjörnina. Það er stórkostlegt á sumrin en ef þú getur haldið tjörninni ófrosinni á veturnar þannig að fuglarnir komist í hana hefurðu dottið í lukkupottinn. Þegar jarðbönn eru vegna frosta og fanna eru fiðruðu vinirnir okkar fljótir að komast að því hvar hægt er að ná í vatn, bæði til drykkjar og baða. Einhverra hluta vegna virðist það vera mjög mikilvægt fyrir fugla að baða sig á veturna. Kannski er það vegna þess að ef þeir geta haldið fiðrinu hreinu er meiri lyfting í því of þar af leiðandi hlýrra á köldum vetrarnóttum. Garðtjörn er trygging fyirr fjölbreyttu dýrlífi sem eykur ánægju þína af garðinum.
Tjörnin þín þarf ekki að vera djúp því það eru grynningarnar sem eru hvað vinsælastar. Flesti litlu kvikindin lifa á grynningunum milli plantnanna sem vaxa þar. Þar er hlýjast, mestur gróðurinn og þar af leiðandi öruggast. Þér eru nokkrar leiðir færar að búa til tjörn. Þú getur keypt tilbúna plasttjörn. Gallinn við það er að þú virðist aldrei geta fengið nákvæmlega það lag á tjörnina sem hentar þér. Í annan stað eru svona plasttjarnir oftast ferlega hallærislegar á litinn. Hvenær hefur maður séð sundlaugabláa tjörn úti í náttúrunni? Það er líka hægt að steypa tjörn. Ekki mæli ég með því af eftirtölum ástæðum. Það getur vel verið að þér finnist það lítið mál að panta kannski einn rúmmetra af steypu gegnum símann frá einhverri steypustöðinni. Málið lítur öðruvísi út þegar hún er komin á staðinn og búið að sturta henni í innkeyrsluna hjá þér og þú ert í kapphlaupi að koma henni í holuna áður en stirðnar og harðnar. Og ofan á allt annað þarf steypa góða bindingu, helst með járni eða grófu neti, annars springur hún í fyrstu frostum og fer að leka. Þá er hægt að panta sér rándýran leir og nota hann til að forma/klæða tjörnina. Gallinn við hann er að það þarf að hnoða hann á staðnum, þ.e. þegar hann er kominn í holuna, og í gamla menn notuðu menn klaufdýr í svoleiðis verk. Mér er sem ég sjái einhvern teymanfi belju eða rekandi rolluhóp hring eftir hring í holunni til þess að þétta leirinn.
Með tilkomu nýrra sterkra plastdúka hefur aldrei verið auðveldara að búa til tjörn og /eða mýri. Veldu stað sem er nokkuð skjólgóður, bjartur og sólríkur og helst sýnilegur innan úr bústað þínum. Ef þú hefur tök á að nota regnvatn í tjörnina, til dæmis með því að tengja frá þakrennu, þá er það mjög gott. Ef lóðin þín hallar skaltu hafa tjörnina neðarlega en ekki alveg neðst. Það gæti stíflast og flætt. Þá er betra að yfirfallsvatnið úr tjörninni getið runnið undan brekkunni fremur en að stöðuvatn myndist. Það er líka annað við að hafa tjörnina þar sem lægst er. Þangað leitar vatnið og þegar þú ferð að grafa fyrir tjörninni, a.m.k í rigningunni hér sunannlands, gæti holan fyllst jafnóðum og það er óskemmtilegt að grafa í vatni.
Forðastu tré sem slúta yfir tjörnina. Laufið af þeim á haustin gera lítið fyrir tjörnina þína annað en að stífla frárennslið og valda sóðaskap. Önnur ástæða þess að forðast tré er að rætur trjáa valda vandræðum þegar þú ferð að graa og það er ferlega fúlt að setja tjörn niður hjá stóru tré sem deyr vegna rótarskemmda.
Besti staðurinn er í því hrni garðsins sem sný r mót suðvestri. Ef þú getur skltu hafa hluta bakkans við “skógarjaðarinn” og afganginn að enginu. Sleginn eða hellulagður sítgur ætti að liggja að tjörninni á einum eða tveimur stöðum þannig að hægt sé að fylgjast með dýralífinu í nálægð og runnarnir í kring skþla og fela feimnustu smádýr sem sækja í tjörnina.
Það er ekki vitlaust að merkja útlínur tjarnarinnar með hælum áður en byrjað er. Ef þú gerir það er ekki ólíklegt að þú breytir annaðhvort staðsetningu eða lögun tjarnarinnar. Hælana skaltu hafa í nokkra daga eða viku. Þú vilt kannski breyta um staðsetningu og/eða lögun og það er betra að gera það áður en aðalframkvæmdirnar hefjast. Það er að minnsta kosti ekki eins erfitt. Fyrir utan hvað það er ferlega leiðinlegt að moka aftur ofan í holur sem maður hefur svitnað við að grafa með tilheyrandi bakeymslum. Þegar þú hefur valið besta staðinn fyrir tjörnina er ég hálfsmeykur um að þá komi að erfiðasta hlutanum en það er að grafa fyrir henni. Þú skalt því vera alveg viss um staðsetninguna áður en hafist er handa. Það er erfitt að grafa en einhvern veginn er það miklu erfiðara að fylla aftur. Og ofan á allt annað er leiðinlegt að bölva heimskunni í sjálfum sér. Ég get ekki lagt nógu mikla áherslu á hversu frábær svona garðtjörn er. Þegar þú ákveður hversu stór tjörnin þín á að vera skaltu hafa hana eins stóra og þú treystir þér til bæði hvað varðar pláss og kostnað. Á sínum tíma var ég með smátjörn og jafnvel hún dró að sér líf um leið og hún var komin. En til að fá sem mest út úr tjörninni skaltu hafa hana grunna. Ef þú vilt hafa fiska í henni verðurðu að flytja fiskana inn eða eitthvað annað yfir veturinn. Þetta á þó ekki við ef þú getur útbúið tjörn sem er frostlaus, t.d. með því að geta veitt affallinu frá húsinu í hana þegar þér sýnist. Hituveituvatn breytir sýrustigi vatnsins og ég held að betri væri að velja lífríki í og kringum hana sem þolir frost.
Lagið á tjörninni á að vera eins og undir skál. Ástæðan fyirr því er sú að flestar vatnaplöntur vaxa í grunnu vatni. Einnig eru grynningar góðar fyrir það líf sem leitar í og úr tjörninni. Þá er það ekki síst hentugt að hafa tjörnina grunna þegar smábörn kunna að hafa hug á að prófa færni sína í að ganga á vatni. Ef þú ert svo heppinn að hafa læk í garðinum þínum geturðu búið til tjörn einfaldlega með því að búa til stíflu. Flest okkar hafa þó lækjarlausa garða og þegar kemur að því að búa til tjörn er aðallega um þrjár leiðir að velja. Plastker, steypu og plastdúk. Persónulega mæli ég með plastdúkm ekki hvað síst vegna þess að þá er auðveldara að móta tjörnina og koma í hana hitakerfi sem heldur a.m.k. hluta hennar frostlausri.
Þegar þú ert ánægður með stað og lögun hefst næsta stig en það er moksturinn. Þú þarft að grafa nokkuð dýpra en mesta dýpt tjarnarinnar á að vera vegna þess að þú þarft að setja gott grús- og sandlag í botninn undir plastdúkinn sem þú notar til þess að klæða tjörnina með. Ef þú vilt nota affalið af húsinu til þess að halda hluta tjarnarinnar frostlaustri setur þú snjóbræðslurörakerfi í sandlagið sem verður að vera sjö til tíu sentimetra þykkt. Ef þú snertir ekki bræðslukerfi í tjörnina veður þú að fara ansi langt niður. Það þýðir a.m.k. metra þar sem dýpst er og jafnvel þá ertu ekki öruggur ef þú færð langan og harðan frostkafla. Af hagkvæmnisástæðum er þér ráðið frá því. Á móti kemur að dýralífið verður fjölbreyttara ef tjörnin frþs ekki. Í litla pollinum sem ég var með í Barmó botnfraus allt á veturna en dýralífið var samt nokkuð fjölbreytt á sumrin því flest skordýr þola frost og liggja bara í dvala.
Ef þú vilt á hinn bóginn hafa smáfiska, eins og hornsíli eða gullfiska, verðurðu að halda tjörninni frostlausri. Hvað um það, þetta eru atriði sem þú verður að gera upp við þig áður en þú hefst handa. Þegar þú hefur grafið tjörnina og klætt hana sandi eða öðru efni eins og gömlum gólfteppum eða dagblöðum verður þú að fara vel yfir botninn og ganga úr skugga um að þar sé ekkert sem getur sett gat á plastið. Þegar þú hefur fullvissað þig um að allt sé í lagi tekurðu plastdúkinn og strekkir hann yfir holuna. Hann verður að ná vel út fyrir brúnirnar, sérstaklega ef þú ætlar að hafa mýri. Þá seturðu eitthvað með sléttum botni ofan á dúkinn til þess að halda honum strekktum.
Þegar hér er komið sögu er ég ósammála leiðbeiningunum í bókunum því þær segja að nú eigi maður að koma garðslöngunni fyrir á miðjum dúknum og láta vatnið um að þrýsta honum niður. Það er viss ástæða fyrir því að mér er illa við þetta. Hún er sú að flestir dúkar þola illa sólarljósið og brotna niður með tímanum og fara að leka! Það er betre að fara úr skóm og sokkum og ganga í rólegheitunum út á dúkinn þar til maður er kominn út á miðju og þrýsta dúknum niður með höndum og fótum um leið og sandlag er sett ofan á dúkinn og hann hulinn. Sandlagið þarf að vera fimm til sjö sentimetra þykkt. Ofan á það er sett grús og jarðvegur og þar sem ætlunin er að hafa plöntur úr tjörninni er lagið haft þykkara.
Þú lætur dúkinn ná svona metra út fyrir bakkann og festir hann með því að tyrfa eða setja jarðveg ofan á hann. Þú getur sett á tjarnarbakkann ýmsar deiglendisplöntur vegna þess að hárpípukraftur sér um að draga vatn úr tjörninni og halda bakkanum rökum.
Þá er komið að því að setja vatn í pollinn. Nú gæti einhver hugsað að þetta yrði dálítið gruggugt en til er ráð við því. Við notum sömu aðferð og notuð er þegar verið er að fylla fiskabúr. Úr garðslöngunni er látið renna rólega á dúkpjötlu sem komið er fyrir þar sem tjörnin er dýpst. Snúra er bundin í pjötluna svo auðvelt sé að ná henni upp úr þegar tjörnin er full. Besti tíminn til útplöntunnar í tjörnina er seinni hluta maí eða byrjun júní. Plöntuvalið er að sjálfsögðu undir þér komið en nokkra plöntuflokka er um að ræða. Til þess að ná sem náttúrulegustu útliti plantarðu beint í botnjarðveginn. Ef þú vilt ekki að plönturnar breiðist út hefurðu þær í pottum. Og það er best að taka það fram strax að það þýðir ekkert að reyna að pota þeim niður með spýtum og standa sjálfur á bakkanum. Þú verður “vesgú” að fara út í og bretta upp ermarnar.
Stöku sinnum er hægt að fá í gróðrarstöðvum tjarnplöntur. Ég vil þó eindregið vara við þeim vegna þess að þeim getur fylgt eitt og annað óæskilegt eins og egg skordýra sem ekki er æskilegt að fá í íslensku fánuna og/eða flóruna eða plöntusjúkdómar sem íslensk flóra hefur engar varnir gegn. Best er að fara meðfötu út í náttúruna og sækja sér sjálfur það sem maður vill hafa í tjörninni. Þar sem landið okkar er votlent er fjölbreytnin mikil og yfirleitt þarf ekki að fara langt til fanga. Jafnvel smæstu pollar bjóða upp á úrval. En það er einn galli á gjöf Njarðar. Flestar þessar plöntur deyja niður í ekki neitt á vetunar svo tjörnin verður fremur tilkomulítil snemma vors. Annað sem vert er að hafa í huga er að flestar plöntur vaxa á ákveðnu dýpi svo að ef þú ert með þær í pottum verðurðu að reyna að raða þeim á sama dýpi og þú fannst þær á. Ef þú plantar í botninn á þetta vandamál ekki við. Plönturnar færa sig sjálfar.
Þær blómplöntur sem hægt er að hafa á tjarnarbakkanum eru til dæmis engjamunnablóm (myosotis scorpioides), hófsóley (Caltha palustris), laugadepla (veronica anagallis-aquatica), lækjadepla (V. Serpyllifolia), mýrfjóla (Viola palustris), lyfjagras (Pinguicula vulgaris), lindardúnurt (Epilobium alsinifolium), heiðardúnurt (E. Hornemanni), vætudúnurt (E. Watsonii). Dúnurtir eru skolli skæðar með að sá sér og geta orðið að versta illgresi þannig að ef þér er ekki því ver við nágranna þína skaltu fara að öllu með gát varðandi dúnurtir. Engjarós (Potentilla palustris) er falleg og þá er fífan (Eriophorum scheuchzeri) ómissandi á tjarnarbakkanum. Ýmis stör (Carex) sem tilheyra flokki hálfgrasa, eiga kjörlendi í miklum raka eða jafnvel bleytu. Ýmsar fleiri plöntur mætti nefna en hver og einn verður að fara eftir eigin smekk og hyggjuviti hvað plöntuval varðar. Þegar dýpið vex og komið er út í vatnið má nefna horblöðku (Menyanthes trifoliata), lónasóley (Ranunculus trichophyllus), nykrur (Potamogeton), brúður (Callitriche), og vatnsnál (Eleocharis palustris) í sínum falegu grænu breiðum á grunnu vatni er ómissandi. Flestar nykrur eru fremur sjaldgæfar og tjarnarbrúða er alfriðuð. Þannig að þú verður að vita hvað þú ert að gera þegar þú ert að sækja þér plöntur í náttúruna. Eitt það stórkostlega við tjarnargerð er það hvað líf er geysilega fljótt að leggja undir sig tjörnina og mynda ný lendur. Skordýrin eru að sjálfsögðu fyrst á vettvang fyrir utan gerla og aðrar örverur auðvitað, en þær teljast varla með þótt mikilvægar séu því við sjáum þær ekki nema í smásjá. Þú átt oft eftir að undrast hvaðan þessi litlu vatnadýr koma næstum um leið og vatn er komið í tjörnina. Það er óþarfi fyrir þig að fara og veiða þessi litly dýr, þau koma. Hellingur berst með plöntunum sem þú sækir og í rauninni það eina sem þú þarft að veiða eru hornsíli, ef þú vilt hafa þau.
Eiginlega eina vandamálið við tilbúnar tjarnir er uppgufun. Það er kannski ekki svo mikið vandamál í rigningunni hér á suðvesturhorninu en í miklum þurkaköflum getur það orðið all nokkuð. Við erum það heppin hér á landi að hafa flest aðgang að hreinu og ómenguðu vatni svo það er ekki annað að gera en að setja úðara á garðslönguna og vökva. Ef bunað er beint í tjörnina er hætta á að vatn gruggist. Annars er það merkilegt hvað náttúran er dugleg við að halda sjálf jafnvægi svo að ef þú ert í vafa mundu þá hina gullnu reglu garðyrkjumannsins: “ Ef þú ert í vafa, láttu það þá eiga sig.”
Sniglar:
Sniglar eru af ætt svokallaðra “gastrópóda” en það merkir “sá sem gengur á maganum” og allir sem fást við garðrækt vita að þessir magar fyllast aldrei. Nýlegar rannsóknir í Bretlandi hafa leitt í ljós að það geta verið fleiri en hálf milljón snigla á hverri ekru lands. Það eru mörg efni á markaðnum til þess að drepa sniglana en þau eru öll hættuleg öðrum lífverum. Þar með talið garðyrkjumanninum, börnum hans og gæludýrum.
Birt:
Tilvitnun:
Þorsteinn Úlfar Björnsson „9.kafli - Tjörnin og annað votlendi“, Náttúran.is: 10. apríl 2007 URL: http://nature.is/d/2007/04/10/9kafli-tjrnin-og-anna-votlendi/ [Skoðað:15. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 14. mars 2014