Magn úrgangs frá heimilum í Reykjavík hefur dregist saman, gæði drykkjarvatns og strandsjávar er áfram mjög gott og laxastofninn í Elliðaánum tekur aftur við sér eftir lægð, þetta kemur fram í skýrslu um umhverfisvísa í Reykjavík. Samgöngur eru áfram sá þáttur sem helst hefur áhrif á umhverfi borgarinnar.

„Umhverfisvísarnir sýna að við höfum náð miklum árangri, þótt við þurfum að herða okkur á einhverjum sviðum,“ segir Gísli Marteinn Baldursson formaður umhverfis- og samgönguráðs og að Grænu skrefin hafi verið mótuð til þess að Reykjavík verði grænni og heilnæmari. „Umhverfisvísarnir sýna okkur hvar aðgerða er þörf og slá þannig tóninn fyrir næstu kynslóð Grænna skrefa,“ segir hann.

Bláa endurvinnslutunnan í Reykjavík hefur gefist vel og leitt til þess að æ fleiri flokka heima hjá sér. (Í tunnuna má setja fernur, umbúðapappír, prentpappír, sléttan pappa, morgunkornspakka, eggjabakka, skókassa og hólka af salernis- og eldhúsrúllum ásamt dagblöðum, tímaritum og auglýsingapósti.)

Þessa má geta að 2.400 bláar tunnur eru nú í umferð í Reykjavík og hefur magn almenns úrgangs frá íbúum dregist saman um 14% á þessu ári. „Þetta er góður árangur og sýnir meðal annars að bláa tunnan hefur aukið úrgangsflokkun borgarbúa,“ segir Eygerður Margrétardóttir framkvæmdastýra Staðardagskrár 21 hjá Reykjavíkurborg

Lesa má úr umhverfisvísunum að fækka þurfi þeim dögum sem svifryk fer yfir heilsuverndarmörk í borginni og af þeim sökum er skorað á bílstjóra að skipta yfir á góð vetrardekk í stað nagladekkja. Svifryk hefur farið yfir mörkin 12 sinnum á þessu ári.

Markmið umhverfisvísa er að gefa mynd af ástandi helstu þátta á sviði umhverfismála í Reykjavík. Tilgangurinn er að meta stöðuna á leið til sjálfbærs samfélags í Reykjavík og leggja grunn að áframhaldandi vinnu að umhverfismálum í Reykjavík. „Hvernig íbúar ferðast um borgina hefur mikil áhrif á umhverfi Reykjavíkur,“ segir Eygerðurog hver og einn getur lagt sitt af mörkum með því til dæmis að endurhugsa ferðamáta til og frá vinnu og skóla og draga þannig úr losun gróðurhúsalofttegunda og bæta loftgæðin í borginni.

Kynning á Umhverfisvísum 2008

Umhverfisvísar í ársskýrslu: A-hlið og B-hlið.

Birt:
23. október 2009
Höfundur:
Gunnar Hersveinn
Tilvitnun:
Gunnar Hersveinn „Umhverfisvísar Reykjavíkurborgar 2008“, Náttúran.is: 23. október 2009 URL: http://nature.is/d/2009/10/23/umhverfisvisar-reykjavikurborgar-2008/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: