Mengun kallar á ákvörðun um viðmiðunarmörk
Slíkt ætti auðvitað ekki að vera fréttaefni heldur staðreynd sem allir íbúar landsins ættu að geta unað glaðir við, sérstaklega núna þegar áhrifa virkjana á Hellisheiði gætir með umtalsverðum hætti bæði á höfuðborgarsvæðinu sem og fyrir austan fjall.
Til upplýsingar er rétt að geta þess að mælingar á brennisteinsvetni hafa farið fram í Hveragerði og Reykjavík undanfarna mánuði. Þó að sólarhringsmeðaltal brennisteinsvetnis í andrúmslofti sé undir mörkum á þessum stöðum hafa mælingar sýnt að mengun hefur ítrekað mælst mjög mikil en þá í styttri tíma hverju sinni. Það sem síðan vekur athygli er að munurinn á mælingum í Hveragerði og Reykjavík er hverfandi og því eru mæligildin oft mjög há á höfuðborgarsvæðinu þó að sólarhringsmeðaltal þar sé einnig undir viðmiðunarmörkum.
Íslensk viðmiðunarmörk vantar
Vandinn sem við er að glíma er reyndar sá að hér á landi skortir raunhæf viðmiðunarmörk vegna mengunar af völdum loftborins brennisteinsvetnis sem taka mið af þeim eitrunaráhrifum sem brennisteinsvetni getur haft. Aldrei hefur verið sett reglugerð þar sem kveðið er á um hversu mikil mengunin má vera miðað við sólarhringsmeðaltal eða hver hæstu gildi mega vera miðað við klukkutímameðaltal. Setning slíkrar reglugerðar hlýtur að vera forsenda þess að vitræn umræða geti átt sér stað um þá mengun sem hlýst af jarðvarmavirkjunum og um áhrif mengunarinnar á þá einstaklinga sem búa þurfa við slíka mengun.
Ýmsar rannsóknir hafa sýnt að áhrif mengunar af völdum brennisteinsvetnis eru mikil á heilsu fólks, sé búið við hana að staðaldri, jafnvel þó að hún sé langt undir viðmiðunarmörkum WHO.
Þjóðin getur aldrei sætt sig við að heilsuspillandi mengun eigi uppruna sinn í túnfæti höfuðborgarinnar eða annarra byggðarlaga með þeim afdrifaríku áhrifum sem slíkt getur haft á líf og heilsu fólks.
Því er afar brýnt að nú þegar verði sett reglugerð sem tekur mið af þeim reglum sem önnur ríki og lönd sem búa við svipaðar aðstæður hafa sett sér.
Einnig er mikilvægt að viðeigandi hreinsibúnaður verði þegar í stað settur á þær virkjanir sem reistar hafa verið og nýjar verði ekki byggðar án bestu fáanlegrar tækni í mengunarvörnum.
Höfundur er bæjarstjóri Hveragerðisbæjar.
Birt:
Tilvitnun:
Aldís Hafsteinsdóttir „Mengun kallar á ákvörðun um viðmiðunarmörk“, Náttúran.is: 14. nóvember 2009 URL: http://nature.is/d/2009/11/18/mengun-kallar-akvoroun-um-viomiounarmork/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 18. nóvember 2009