Ég vildi gjarnan samsama mig söfnurum og akuryrkjufólki og upplifa hringrás náttúrunnar í garðinum eins og hún er túlkuð á miðaldateikningum. Þar er árshringurinn sýnilegur, nánast áþreifanlegur. En fleiri hringrásir finnast og ein er svo stór að hún virðist vera bein lína, saga mannsins. Lengst framan af er talið að mestur tími og orka fólks hafi farið í það að afla sér fæðu, rétt eins og á sér stað meðal dýranna, og flestir hafi unnið við það eða um 80 af hundraði. Stærstum hluta var safnað, og líklega hefur það verið kvennaverk, en veiðar staðið undir einum fimmta hluta og hvílt meira á herðum karlanna. Mér finnst alltaf svolítið leyndardómsfullt hvernig mannkynið lærði að hafa áhrif á vöxt og viðgang plantna, halda húsdýr, stunda hjarðmennsku og rækta. Það hefur verið útskýrt á trúverðugan máta, en samt er eins og eitthvað sé ósagt um það hvernig við stigum þetta skref. Eins og fullnægjandi skilningur fáist ekki nema með því að gera ráð fyrir að einhvers konar trú hafi tengst þessu kraftaverki. Við vorum að ná tökum á og grípa inn í ferli sem fram að því hafði eingöngu verið í verkahring náttúrunnar sjálfrar. Ég hef heyrt því haldið fram að þessi þróun hafi markað svo djúp spor í menninguna að tungumálin hafi breyst, þegar ný orð og hugtök hafi þurft til að tjá sig við svo breyttar aðstæður, og það er sennilegt því það sama er að gerast á okkar tímum. Sjálf hugsunin breytist með nýrri tækni og nýjum viðhorfum. En þó forfeður okkar og formæður hafi sest um kyrrt og færu að brenna fyrir ökrum og binda kúna á bás og atvinnuhættir breyttust, þá hélt þorri manna áfram að stunda fæðuöflun. Hlutfallið breyttist hægt og ekki verulega fyrr en sagan tók annað svona risastökk sem var iðnbyltingin. Tilbúni áburðurinn og iðnbyltingin héldust í hendur. Fólkið flutti úr sveit í bæi og borgir og fékk flest vinnu í verksmiðjum. Það gat þá ekki lengur ræktað ofan í sig sjálft og náttúrufræðingar tóku til við að rannsaka hvernig mætti auka vöxt plantnanna og fá meiri uppskeru. Þegar aðeins helmingur fólksins var orðinn eftir í sveitunum var sjálfgefið að þeir yrðu að afla matar bæði fyrir sig og hina brottfluttnu. Með því að brenna jurtir og rannsaka öskuna efnafræðilega fengu menn vitneskju um samsetningu þeirra. Náttúrufræðingarnir endurgerðu svo þessi efni í hæfilegum blöndum og auðguðu moldina með þeim. Með tilbúna áburðinum var miklu hraðari vexti náð og við fórum að trúa á vísindin. Hér á landi var ekki mikið um tækifæri í iðnaði. Það var fremur sjómennska og fiskvinna, önnur tegund matvælaframleiðslu, sem dró menn frá búskap. Til að byrja með snerist iðnaðurinn mest um vélar og fatnað, námugröft og verslun, en smám saman beindist hann meir og meir inn á svið matvælaframleiðslu. Matur er ein frumþarfanna og þarna voru tækifærin næg og markaðurinn stór. Fram að því hafði safnarinn og akuryrkjumaðurinn stundað sitt starf næstum óbreytt og fyrstu vélarnar voru einfaldar og miðuðu að því að létta einstaklingum störfin. Við konurnar ríktum yfir eldamennskunni og það þurfti dálitla djörfung til að brjótast inn á okkar svið, jafnvel fyrir iðnaðarveldi. Í dag, þegar við erum komin skotspöl fram úr iðnbyltingunni, inn í margmiðlunar- o g tölvuöld, sjáum við að margt sem á sér rætur aftur í steinöld hélt ótrúlega lengi velli hér á landi og flest okkar sem komin eru fram yfir miðjan aldur eigum minningar sem styðja það. Ég man eftir gamla bænum á Helluvaði í Mývatnssveit með moldargólfi og hlóðum þar sem slátrið var soðið eftir að flutt var í nýja steinhúsið. Og reykkofanum með sinni sérkennilegu lykt uppi í hlíðinni, þar sem Gunna gamla leit eftir að allt væri í lagi. Hún fór í daglegar eftirlitsferðir í kofann, þangað til ungur maður úr Reykjavík fór að reikna út hversu mikil verðmæti héngu þarna á sótugum röftunum. Hann gerði þetta til þess að vera hlýlegur við gömlu konuna og til að sýna henni fram á að hún væri virkur þátttakandi í atvinnulífinu. Þetta var rétt fyrir myntbreytinguna og honum reiknaðist til að þetta væru verðmæti upp á tvær milljónir. Eftir það neitaði Gunna að fara oftar í kofann. Hún gat ekki séð sína vinnu setta í svona efnahagslegt samhengi og vildi ekki bera ábyrgð á þess slags fjármunum. Við stukkum af moldargólfinu yfir á parketið, af hestbakinu upp í breiðþotuna á einum mannsaldri. Breytingin gerðist svo snöggt að enn lifum við í báðum heimum. Mér finnst eins og við séum með timburmenn, eftir að hafa lent á meiri háttar notendafylleríi, þegar við fórum að fá iðnaðarvörur fyrirhafnarlítið upp í hendurnar og matinn svo að segja tilbúinn á borðið. Við borðum langt umfram þarfir eins og við séum ekki búin að átta okkur á því að það er til nóg, allavega handa okkur, og eftir að plastefnin komu og hægt varð að gera eftirlíkingu af hverju því sem nafni tjáir að nefna, fór ofgnótt hluta að verða heimilisvandamál. Nú hefur iðnaðurinn snúið sér að matvælaframleiðslu af fullum krafti og er farinn að nota vélar og tilbúinn áburð í æ ríkari mæli og jafnframt geymsluefni margs konar, aðkomna orku eins og rafmagn og olíu, gerviefni og eiturefni. Fæðubótarefni eru komin til að vera og farið er að grípa inn í gang náttúrunnar með fiskeldi, verksmiðjubúskap, klónun og genabreytingu. Aðeins 20% fólks starfar nú við matvælaframleiðslu. Árið 1990 var hlutfallið hér á landi 10% í beinni framleiðslu og önnur 10% í tengdum greinum. Dæmið hefur snúist við. Næring er nú þegar framreidd sem duft eða í pilluformi og spár benda til þess að svo kunni að verða í framtíðinni. Mannslíkaminn getur hins vegar ekki tekist á við þann fjölda og það magn tilbúinna eitur- og aukaefna sem eru sett í allflestar fæðutegundir í dag. Afleiðingin er ofnæmi, hegðunarvandamál, offita og torskildir sjúkdómar. Þróunin frá heimahögum í alþjóðlegt samfélag, þar sem matvæli eru flutt heimshornanna á milli og fjöldaframleiðsla og flókin geymsla er regla en ekki undantekning, á sér þó sínar skuggahliðar. Þess vegna sækir hún á mig spurningin um hvort við gerðum einhvers konar heiðursmannasamkomulag við jörðina, þegar við hófum akuryrkju, og tókum þar með að okkur að sinna hlutverki sem fram að því hafði alfarið verið náttúrunnar sjálfrar. Sé svo var það ótvírætt mikið trúnaðarstarf. Höfum við rofið þetta samkomulag? Okkur er sagt að forfeðurnir hafi leyst þetta með því að fórna. Leggja fyrstu uppskeruna á altarið. En mér er nú sem ég sjái upplitið á fólki ef ég færi að smeygja gulrótabúnti upp á heklaðan dúkinn á altarinu innan um blómin. Þó þarf ekki lengra en til Orkneyja til að sjá altari skreytt með haustuppskerunni og heyra þakkir bornar fram af prestinum fyrir jarðargróðurinn. Hjá okkur var það reyndar maríufiskurinn. Gamall siður, sem enn lifir, að gefa fyrsta fiskinn úr aflanum. Gefa hann til þakkar, eins og ég hef orðið vitni að. Eru þökkin og hringrásin nauðsynlegur þáttur í fæðuöfluninni til þess að allt fari vel? Safnhaugurinn skilar aftur til jarðarinnar að hluta, því sem þaðan var tekið. Trén, sem við plöntum, vinna á móti koldíoxíðinu sem bíllinn blæs frá sér. Þó einstaklingur geti ræktað sinn garð eða tekið sér körfu í hönd og náð þannig áttum og sambandi við eigin fortíð og lífið úti í náttúrunni, er ekki þar með sagt að stórfyrirtæki geti það. Stórfyrirtæki er svo mikið inngrip í hringrás náttúrunnar að jafnvel bestu samráðsfundir og góður vilji kæmust varla að annarri niðurstöðu en að best væri að leysa fyrirtækið upp ef taka ætti tillit til náttúrunnar. Risafyrirtæki þyrfti nefnilega að upphugsa risasátt eða risafórn til jarðarinnar en sú hugsun býður vissulega upp á spennandi möguleika. Sjálfsþurftarbúskap er ekki hampað sem þjóðhagslega arðvænum atvinnuvegi. Það var þó eitt af markmiðum Alþjóða matvælastofnunarinnar að hvetja til sjálfsþurftar í hinum ýmsu löndum heims, en slík hvatning má sín lítils gegn ofurveldi stórfyrirtækjanna. Samt er það svo að ýmsir sjá nú ástæðu til að fara að rækta og halda fram okkar eigin matarhefð sem byggði á búskap og sjálfsþurft. Notkun villtra jurta kemur þar sterklega inn, einmitt hér á Íslandi sem enn státar af opnu óræktarlandi og aðgangi að sjó. En það er ekki bara iðnaðurinn heldur líka karlmennirnir sem hafa gert innrás í eldhúsið, aldagamalt og traust vígi okkar kvennanna. Þessi síðari innrás getur þó haft góð áhrif þegar litið er til framtíðar. Áhugi karlmannanna getur hjálpað til þess að hleypa nýju lífi í matarmenninguna og seinkað því að hún verði iðnvæðingunni að bráð. Óneitanlega vorum við orðnar svolítið þreyttar yfir pottunum og samkeppnin því af hinu góða og aldrei að vita nema við séum í startholunum að skapa eitthvað saman. Það þarf ekki alltaf að leita uppi eitthvað gamalt, við getum líka búið til eitthvað nýtt. Jafnvel dauðir hlutir hafa sál Þetta heyrði ég oft sagt í bernsku, og einn sólarmorgun í rigningartíð eftir að gera morgunæfingar úti hallaði ég vanganum upp að veggnum til að hvíla mig. Húsið er klætt utan með staðlaðri lóðréttri timburklæðningu og mér hafði aldrei dottið í hug að veita henni sérstaka athygli, nema til að athuga hvort þyrfti að bera á viðinn. En þennan morgun vissi ég ekki fyrr en timburfjölin var farin að tala til mín í gegnum snertinguna. Hún minnti mig á heimkynni sín og að hún hefði einu sinni verið partur af lifandi tré. Ekki gat hún látið mig skilja hvaðan hún hafði komið, enda var það kannski ekki á hennar færi að tjá sig landfræðilega. Það undarlegasta var að mér virtist eins og henni væri jafn mikið í mun að ná sambandi við mig, eins og mér fannst sambandið merkilegt, enda átti hún upphafið. Þó var eins og við værum að kallast á úr órafjarlægð. En af hverju þurfti hún núna að koma skilaboðum á framfæri? Það er, vægast sagt, óvanalegt að vera ávörpuð af veggklæðningu. Seinna veitti ég því athygli að þetta átti sér stað rúmum tveimur sólarhringum eftir að ég skrifaði að ofgnótt hlutanna væri orðið heimilisvandamál. Mér fannst setningin svolítið harkaleg og hafði verið að hugsa um hvort ég ætti að sleppa henni. Viðarfjölin gat talist partur af hlutamenningunni og hún verið að mótmæla. En skilaboðin höfðu dýpri merkingu, það skildi ég smám saman. Þau fjölluðu um að allt í heimi hér væri að einhverju leyti lifandi því að jörðin sjálf væri lifandi, þó vissulega gætu hlutar hennar virst dauðir eins og dautt skinn á manneskju, dautt því það væri að umbreytast í annað efni, en hefði verið lifandi á einhverju stigi tilveru sinnar. Fjölin tók einmitt fram að hún hefði einu sinni verið hluti af lifandi tré. Ef marka má Snorra Sturluson þá er jörðin sjálf lifandi. Hann rekur í upphafi Eddu sinnar hvernig háttað var sköpun heimsins og þeirra Adams og Evu og greinir frá Nóaflóðinu og segir síðan: „Það hugsuðu þeir (mennirnir) og undruðust, hví það myndi gegna, er jörðin og dýrin og fuglarnir höfðu saman eðli í sumum hlutum, og þó ólík að hætti.“ Snorri bendir á að á jörðinni vaxi grös og blóm sem felli laufin og fölni árlega á sama máta og hár vaxi á mönnum og fjaðrir á fuglum og hvort tveggja falli einnig af. Beinum og tönnum mannanna líkir hann við steina og kletta jarðarinnar. Hann segir undarlegt að þegar jörðin sé opnuð og grafið í hana loki hún sér aftur og gras grói yfir og blóð spretti fram úr höfði manna eins og vatn streymi fram hátt í fjöllum. Vísindamaðurinn og umhverfissinninn James Lovelock hefur gengið einna lengst í að rökstyðja fullyrðingar á borð við þær sem Snorri setur fram. Lovelock ímyndar sér jörðina eins og sjúkling er leitar læknis og ber saman hvaða frumathuganir eru gerðar á manni og hvernig sambærilegar athuganir má gera á jarðarlíkamanum. Hiti og blóðþrýstingur mannsins er mældur, lungun hlustuð, beðið um blóðprufu og þvagprufu og tekin vefjasýni. Hvað jörðina varðar þá væri hiti gufuhvolfsins mældur frá gervihnöttum og blóðþrýstingur með loftvog. Ástand öndunarfæranna væri metið út frá losun koldíoxíðs í andrúmslofti. Sýnum, sem tekin væru úr lofti og legi, mætti líkja við blóð og þvag mannsins. Vefjasýnum mannsins mætti líkja við ásigkomulag einstakra lífheilda og möguleika þeirra til sjálfbærni og rannsaka sem slík. Að mæla megi ástand jarðarinnar og bera saman við manneskju telur Lovelock benda til þess að jörðin sé nokkurs konar vera gædd lífi.1 Einn ágætur dýralæknir, kunningi minn, kallar slæman niðurgang stórrigningu og þá er ekki langt í að hægt sé að nefna náttúrufyrirbrigði eins og eldgos – ælupest, flóð – svitabað, fellibyl – taugakast og ísaldir – köldu. Ef litið er á málin af þessum sjónarhól, er þá ekki nærtækt að taka næsta skref og sjá fyrir sér jörðina sem lifandi, skyni gædda veru sem sé að leitast við að heila sjálfa sig og geti hrist okkur af sér eins og flugur ef hún verður verulega pirruð? Skyldi það vera hún eða hann? Flestum finnst það vera hún enda talað um móður jörð. En hversu mikla meðvitund, í þeim skilningi sem við mennirnir túlkum orðið, hefur þá jörðin? Hvert er okkar hlutverk samofið hennar? Skiptum við hana máli? Erum við, eins og Austurlandabúar segja, nauðsynlegur tengiliður milli ytri vitundar eða geimvitundarinnar og jarðarinnar, eitt af nauðsynlegum skilningarvitum hennar? Eða erum við eins og dægurflugur sem rétt fæðast til að fljúga um og deyja, og ævi okkar stutt og lítilsverð frá sjónarhóli og í meðvitund jarðarinnar? Lítur hún svo á að nú herji á hana nokkurs konar skordýraplága? En þó ég hafi oft gengið úti, stiklað yfir kletta og ímyndað mér þá sem jaxlabrot eða kjúkubein, horft á ána og fundið samkennd með framsetningu Snorra og hugleitt hana var ég algerlega óviðbúin þegar ég hitti jarðargyðjuna í fyrsta skipti. Eiginlega kom það mér ósegjanlega á óvart, enda stödd í útlöndum. Ég var veðurteppt í nokkra daga á grísku eyjunni Skyros um hávetur. Hafði ofan af fyrir mér, til að komast út úr köldu hótelherberginu, með því að ganga í rigningunni eftir ströndinni þar sem þeir ýttu úr vör skipum sínum Ódysseifur og félagar. Það var eftir að Ódysseifur hafði leitað uppi og fundið þarna verðandi hetjuna, Akkiles, og talið hann á að koma með í herförina gegn Tróju. Þetta var allt fremur dramatískt af því móðir Akkilesar, Þesis, var af guðaættum en faðirinn var mennskur og móðirin vildi að sonurinn erfði hennar meðfædda ódauðleika og dýfði honum í kerald með ódáinsveig þegar hann var lítill en aðrir segja að hún hafi dýft honum í sjóinn. Hún varð að halda í eitthvað og greip um annan hælinn og þess vegna er talað um Akkilesarhæl, því aðeins þar var hægt að finna á honum snöggan blett og vinna honum mein. Þetta hefur að líkindum farið fram hjá móður hans en hún vissi fyrir að hann yrði að velja milli viðburðalítils langlífis eða stuttrar frægðarævi. Hún hafði sínar blendnu tilfinningar varðandi þetta og faldi hann hjá konungi eyjarinnar sem ég var veðurteppt á. Þar dvaldi hann á meðal konungsdætranna, klæddur kvenmannsfötum því það var ætlun Þesisar að Ódysseifur fyndi hann ekki. En Ódysseifur var bragðarefur hinn mesti og grunaði hvernig í pottinn var búið. Hann kom með fagrar gjafir, klúta, klæði og skartgripi, lagði fram þetta fínerí ásamt fallegum rýtingi og bað ungu konurnar í höllinni að velja sér gjafir. Ódysseifur lá á gægjum og sá að ein stúlkan gat ekki stillt sig um að fingra rýtinginn góða. Þá vissi Ódysseifur sem var og Akkiles gat ekki dulist lengur. Því fór sem fór. Ég gekk eftir ströndinni í djúpum þönkum og var að reyna að rifja upp söguna, en hún á sér reyndar ýmis tilbrigði. Það gekk á með rokum og ýrði úr lofti en nú myndi ég sverja að það hefði birt og sólin gægst fram gegnum skýjahulurnar þegar var eins og tekið létt undir olnbogann á mér og þegar ég leit upp vissi ég með fullri vissu að hvít og mjúk froða öldufaldsins á svartri ströndinni var fínofin blúndan á nærpilsi gyðjunnar, sem bærðist fram og til baka í takt við hreyfingar hennar. Hún var bókstaflega yfir mér og allt um kring. Tilfinningin var yfirþyrmandi sterk en fól ekki í sér nein persónuleg skilaboð. Frekar eins og ég hefði ratað inn í herbergi af tilviljun, þar sem mín var ekki vænst. Ég reyndi ekki að skilja af hverju. Naut þess bara að vera og skynja návistina í dýpt. Eina skýringin, sem ég hef fundið síðar, er sú að ég hafi á einhvern hátt komist í snertingu við forna minningu í mínum eigin huga, eða atburðurinn tengdist staðnum og speglaðist frá öðrum tíma, þegar gyðjan var tilbeðin og návist hennar þótti sjálfsögð. Seinna skildi ég að hún hafði birst mér, ekki ólíkt því sem oftlega segir frá í fornum grískum sögum. Að hverfa aftur til náttúrunnar Fyrir sex hundruð árum fann abbadísin Hildegard von Bingen sig tilknúna að skrifa páfanum og benda honum á þá óæskilegu þróun að sumir munkar sækist nú eftir að lifa af kenningunni (sinna andlegri þjónustu og snúa sér að ritstörfum) í stað þess að halda áfram að taka sameiginlegan þátt í að yrkja jörðina og framfleyta sér af því, sem hún gefur af sér. Í tímans rás hafa menn ýmist reynt að komast frá náttúrunni og viljað lifa þægilegra lífi í manngerðu umhverfi borganna eða leitað lífshamingjunnar í skauti hennar. Á vissum tímabilum kemur upp fælni gagnvart náttúrunni. Í dag er einn flötur þessarar fælni hræðsla við víðáttuna sjálfa. Annar ótti er algengur og blátt áfram og minnir á táningahræðslu, svo sem ógeð á öllu sem hreyfir sig skyndilega, eins og köngulær, sniglar, bjöllur og vespur. Ógeð á öllu sem er slímkennt eða skítugt. En svo er til djúpstæður ótti og flóknari. Óttinn við það sem er ófyrirsjáanlegt og illstýranlegt. Við lifum núorðið í manngerðu umhverfi, sem við getum að miklu leyti stjórnað sjálf. Við getum slökkt ljósin þegar við viljum, hækkað hitann, kveikt á sjónvarpinu og valið um stöðvar. En náttúran hirðir ekkert um hvað við viljum og fer sínar eigin leiðir. En það er ekki hægt að stjórna náttúrunni. Ég, sem safnari og garðyrkjumaður, verð að beygja mig undir vilja hennar. Hún ræður tímasetningum og ég gegni, ef ég ætla að ná árangri. En eins og verða vill magnast líka upp ást og þörf fyrir náttúruna þegar hún fjarlægist okkur eða við hana. Hún er þarna eins og elskhugi sem við hvorki getum sleppt eða þorum að gefa okkur fyllilega á vald, tilfinningalega séð. Afturhvarf til náttúrunnar er þekkt hugtak, tengt upplýsingarstefnunni á 18. öld. Arftaki upplýsingarstefnunnar var Henry David Thoreau, fæddur 1817 nálægt Boston. Hann var vel lesinn í grískum fræðum, austurlenskum ljóðum, enskri dulspeki og rómantískum skáldskap en hafði óviðráðanlega köllun til náttúrunnar og sinnti aðeins nauðugur fjölskyldufyrirtækinu, sem var blýantaverksmiðja. Hann dvaldi rúm tvö ár við íhugun og skriftir í kofa sem hann smíðaði og ræktaði þar grænmeti ofan í sig. Thoreau samdi bókina Walden en undirtitill hennar er: Lífið í skóginum. Hann skrifar um náttúruna, eðli hennar, sambýlið við hana og hvernig hægt sé að framfleyta sér með hennar hjálp. „Ég settist að í skóginum, af því ég óskaði þess að lifa meðvitað og takast aðeins á við grundvallarstaðreyndir lífsins og sjá hvort ég gæti ekki skilið það sem af þeim mætti læra, svo til þess kæmi ekki að þegar ég stæði andspænis dauðanum myndi ég uppgötva að ég hefði í raun aldrei lifað.“ Thoreau velti mikið fyrir sér samfélaginu. Hann tilheyrði hópi menntamanna, afkomendum innflytjenda sem skynjuðu djúpt að þeir voru virkir þátttakendur í myndun nýs þjóðfélags. Átökin um þrælahaldið voru í brennidepli. Hann velti fyrir sér að hve miklu leyti yfirvöld hafa leyfi til að leggja hömlur á borgarana. Thoreau skrifaði bækling sem hann nefnir Borgaraleg óhlýðni. Þessi bæklingur hafði fimmtíu árum síðar mótandi áhrif á Mohandas Gandhi, og hjálpaði honum til að leggja grunninn að beitingu friðsamlegra mótmæla í sjálfstæðisbaráttunni við Breta. Síðar urðu skrif og heimspeki Thoreaus leiðarljós fyrir andspyrnuhreyfingu Dana í síðari heimsstyrjöldinni og Marteins Lúters King í endurnýjaðri réttindabaráttu blökkumanna.2 Enn sóttu forgenglar ’68–kynslóðarinnar, eða sá hluti hennar sem var að leitast við að ná tengslum við náttúruna og vildi lifa utan hafta og lögmála iðnaðarsamfélagsins, sér styrk í skrif hans. Ekki vil ég þó setja samasemmerki á milli garðyrkjumanna og náttúruunnenda annars vegar og andófsmanna hins vegar. Jarðræktarfólk er oftast kennt við friðsemd og sálarró. Samt skynja ég að það að tína grös og rækta felur í sér töluvert frelsi. Frelsi til að velja og borða það sem maður kýs og sjálfsþurftin gerir mann óháðari duttlungum iðnaðarsamfélagsins. Mér finnst ég lifa á tímum þar sem reglugerðum er sífellt að fjölga og stýring að aukast. Síðasta vígið er farið að standa á brauðfótum, það að fá að elda ofan í sig matinn, ákveða hvað í hann fer, vita hvernig hann er unninn og hvaðan hráefnið kemur. Maturinn kemur nánast tilbúinn úr búðinni, grænmetið þvegið og kartöflurnar forsoðnar, engin fyrirhöfn. Þetta er þægilegt, því er ekki að neita, en ég er ekki viss um að ég vilji ganga svona langt. Það heyrast æ fleiri raddir sem segja að „mjólk sé góð“, ofnæmi og óþol hinna fjölmörgu fyrir mjólkurvörum stafi eins líklega af vinnslu- og geymsluaðferðunum. Við aðlögum ósjálfráða hugsun okkar að því að matur sé eitthvað innpakkað í kæli eða á hillu. Annað sé ekki matur. Ég held að við megum ekki ofmetnast og þykjast geta gert betur en móðir jörð og við verðum að gæta þess betur að gefa til baka hluta af því sem við tókum, einhvers konar maríublóm. Skilningarvitin Bragðskyn er það skilningarvit, sem mestan þátt tekur í daglegu áti. Bragðskyn flestra nútímamanna er hins vegar heldur íhaldssamt og jafn ófært um að takast á við nýjungar eins og að skipta um stjórnmálaflokk. Margir kunna ekki að meta óvanalegt bragð og forðast því allt það sem þeir eiga ekki að venjast. Sólveig Eiríksdóttir mathönnuður kennir hvernig laða megi fólk að breyttum matarvenjum með því að skipta hægt en markvisst um innihald þegar eldað er. Gera innihaldið hollara og vistvænna í smáum skrefum, svo viðkomandi taki naumast eftir því fyrr en bragðlaukarnir hafa þroskast og taka af sjálfsdáðum að gleðjast yfir betri kosti. Of snöggar breytingar valda oft vandræðum og afneitun. Tilbreyting getur verið fólgin í því að breyta lítillega um bragð. En hvaða krydd fer vel með hvaða mat? Góða aðferð lærði ég af gyðingi með stórt nef, sem var uppalinn í New York. Lyktaðu af kryddinu, sagði hann, og lyktaðu svo af því sem komið er í pottinn, ef þetta tvennt fer saman er óhætt að bæta kryddinu út í. Lykt er það skilningarvit sem æsir upp í okkur matarlöngunina. Það var í marsmánuði á kvennaári S.Þ. 1975. Vélsleðarnir komust ekki um vegna þess að snjóa var að leysa og skaflarnir dreifðir og blautir. Bílar komust ekki um vegna aurbleytu. Við lögðum upp frá Refsstað í Vopnafirði og ætluðum inn að Einarsstöðum til að heimsækja Hildigunni, systur Þorsteins Valdimarssonar skálds, til að ræða heimsmálin. Ófærðin hafði staðið í nokkra daga og við urðum að fara gangandi. Póstinum var stungið á mig og ég fann mikið til mín að vera orðin landpóstur upp á gamla mátann. Það var skýjað en rigndi ekki. Þegar við komum að horninu á torfbænum á Bustarfelli, lagði á móti okkur með sunnangolunni ilmandi pönnukökulykt. Ekta pönnukökulykt með kardímommum, úr eldhúsglugganum á nýja bænum, og lyktin leitaði niður í húsasundið og straukst svo fram með gamla bænum og fyrir veggkampinn. Þetta var um kaffileytið og sunnudagur og aldrei vissum við hvort verið var að baka fyrir heimilisfólkið eða borist hafði fregn um að göngufólk væri á leiðinni, nema hvort tveggja væri. Ekki man ég núna hvernig pönnukökurnar voru á bragðið. Ég man ekki lengur samræðurnar, en lyktinni gleymi ég aldrei. Það er sagt að vindur leiki svo ljúflega umhverfis gömlu bæina, að það greiðist úr honum vegna stráanna á þakinu og ávala formsins og að hann kastist aldrei til og magnist ekki upp, eins og við skörp húshorn beinna veggja. Skyldi lykt líka berast mjúklegar að vitum manns við slíkar aðstæður eða var það bara göngusvengdin? Sjón spilar stórt hlutverk þegar um mat er að ræða. Ég man eftir kaffiborði á Akri í Húnavatnssýslu, þar sem dúkurinn var með venezienskum útsaum, stellið „brúna rósin“ frá Konunglegu postulínsverksmiðjunni var úthugsað sem passlegt litatilbrigði við gullnar vöfflurnar, sem enn voru ekki komnar á borðið. Þar beið aðeins bláberjasultan í kristalsskál með silfurskeið. Ég man eftir mataræsandi myndum í franskri bók, sem fjallar um hvernig eigi að brjóta pentudúka. Þar eru nokkrir tugir mynda af borðbúnaði en enginn matur. Ein og ein rós og nokkrir brauðhleifar. Þetta hlýtur að hafa eitthvað að gera með væntingar. Það snýst um umgjörðina, tilhlökkunina og biðina eftir matnum. Uppblásnar myndir af mat eins og nú tíðkast utan á verslunum og í auglýsingum hafa ekki þau áhrif að vekja upp matarlyst. Sterkar nærmyndir af mat eru vandmeðfarnar. Við viljum halda þeirri sjónrænu fjarlægð frá matnum sem er frá augunum að miðju borðsins. Við viljum hafa matinn í vissri fjarlægð og alls ekki í of skærum litum. Villandi litir eyðileggja matarlyst, það hefur verið sannað með tilraunum. Umbúnaðurinn skiptir næstum eins miklu máli og sjálfur maturinn. Áslaug Snorradóttir ljósmyndari skynjar þetta þegar hún setur linsuaugað úr fókus, svo maturinn sést varla, nema einstaka hvítlaukur eða brauðendi skýst inn á sjónarsviðið eins og íbjúgt fjall út úr þoku. Smekkur er ekki skilningarvit, fremur úrvinnsluaðferð. Matur og át eru náskyld erótík og kynferðislegum athöfnum þótt flestir leiði ekki hugann mikið að því, svona hversdagslega. Þetta vissu tantrameistararnir, sem gerðu máltíð að hluta upphafinnar listar líkamlegs samræðis. Þetta vita meistarar kvikmyndanna og þetta vita ritsnillingar eins og Isabel Allende, þegar hún skrifar Afródítu með undirtitlinum: Sögur, uppskriftir og önnur kynörvandi fyrirbæri. Hún talar um bragð, ilm, sjón en líka um smekk. Isabel skrifar: „Það gildir jafnt um mat sem erótík að fyrstu áhrifin eru sjónræns eðlis, en það er til fólk sem getur étið hvað sem er.“ Í Afródítu eru afar fallegar og minnisstæðar teikningar. Ef nánar er að gáð eru þær alls ekki af neinu matarkyns, nema ávöxtum sem á myndum flokkast undir form en ekki mat. Ein stór og grafísk útfærsla af fiski á rólu er þó í bókinni og önnur lítil, reyndar. Orðlisttengist matarmenningu. Mat er auðveldara að lýsa í orðum en með myndum. Með orðum er hægt að fullnægja löngun í lystisemdir kokkamennskunnar. Það er hægt að lesa sig saddan. Það er hægt að upphefja fábreyttan eða vondan kost með því að lesa um mat og næra sig á þann hátt. Alice B. Toklas, sem var elskhugi og einkaritari rithöfundarins Gertrude Stein, segir frá því í frægri kokkabók sinni, að hún hafi sent bæði föngum og fátækum stúdentum sælkeraorðabækur til að hjálpa þeim að draga úr fábreytileikanum með því að örva ímyndunaraflið. Hún skrifaði sína kokkabók þegar svo stóð á í lífi hennar að afar einfaldur kostur var henni nauðsyn af heilsufarsástæðum og meðan á því stóð safnaði hún saman flóknum matreiðsluaðferðum aðalsmanna, lítt þekktum frönskum uppskriftum, sögum af eldabuskum að ógleymdri viðureign sinni við lifandi karfa sem hún nefnir – Morðið í eldhúsinu. Alice mun þó yfirleitt ekki hafa eldað þar sem enn voru þjónar og eldabuskur á frönskum heimilum fram yfir síðari heimsstyrjöldina. Þær stöllur áttu athvarf og sumarhús utan við París í Bilignin þar sem Alice ræktaði grænmeti og hún lýsir heimferð um haust þegar hún hafði safnað því sem eftir var af uppskerunni í körfur og kalt sólarljósið lýsti upp appelsínulitar gulræturnar, allt græna grænmetið, gul graskerin, hvít smjörhnetualdinin, fjólublá eggaldinin og síðustu tómatana. Fyrir mér var þetta fallegri sýn en nokkurt post-impressionistiskt málverk, skrifar Alice. Ónærgætni í orðum getur spillt. Át er ákaflega persónuleg athöfn þó við borðum saman og sá siður sé af hinu góða. Sameiginlegt borðhald gerir fjölskyldur samheldnar. Að einhver krefjist þess að vilja vita hvernig smakkast, þykir sumum erfitt. Það truflar máltíðina að þurfa að gefa yfirlýsingar. Þetta tíðkast mikið á veitingahúsum en gengilbeinurnar eru þó hlutlausar, hafa ekki eldað matinn, eru aðeins milliliðir milli kokkanna og gestanna og þeim er uppálagt að spyrja fyrir siðasakir. Húsmóðir má ekki spyrja of nauið hvernig smakkast, því hún hefur eldað matinn. Það er neytandans að kveða upp úr hvað honum finnst. Hann á að hafa frelsi til að tjá sig, ef hann kýs að gera það. Það eykur honum ánægjuna af borðhaldinu. Fæstir kunna því vel að láta fylgja of miklar útskýringar með matnum sem þeir eru að kyngja. Fyrir marga virkar það mjög nær– göngult, næstum áleitið. Þar var á borðum: pipraðir páfuglar, saltaðir sjófiskar, mimjam og timjam og multum salve. Bændaalmanakið Safnarinn og ræktandinn fylgist stöðugt með veðráttunni, birtunni og hitafarinu og lifir þannig með árstíðunum. Í okkar almanaki er fátt sem minnir á gróðurfar eða fellur að lífsmunstri okkar, fremur að við höfum aðlagað lífsmunstrið að almanakinu þó það ætti að vera á hinn veginn. Almanakið fylgir ekki tungli og daga fjöldi mánaðanna er tilviljanakenndur, eiginlega hálfgert klúður. Mánaðanöfnin janúar, mars, maí og júní koma úr fornri goðafræði, svo sú tilfinning að það eigi að skrifa þau með stórum staf er ekki út í hött. Febrúar táknar trúlega hreinsun og var síðasti mánuðurinn í eldra tímatali Rómverja. Apríl á sér ekki augljósa skýringu en kann að merkja – að opna eða gróandi jörð. Keisararnir Júlíus Caesar og Ágústus áttu báðir þá ósk heitasta að verða teknir í guðatölu og fengu því framgengt að mánuðirnir júlí og ágúst væru nefndir eftir sér. Þeir gættu þess að sínir mánuðir teldu 31 dag. September, október, nóvember og desember þýða 7., 8., 9. og 10. mánuður ársins, en það eru þeir ekki, heldur eru nöfnin leifar frá eldra tímatali. Þessi nöfn var fyrst farið að nota hér á landi á 18. öld, þegar breytt var frá júlíanska tímatalinu til hins gregoríanska. Tilraun til að fella þetta nýja almanak að íslenskum atvinnuháttum gerðu bæði Björn í Sauðlauksdal og séra Bjarni Arngrímsson á Melum er reyndi að gera þetta aðgengilegt í lestrarkveri handa börnum sem lengi var notað. Januarius, eða miðsvetrarmánuður ... hann hálfnar veturinn. Fyrra part þessa mánaðar er brundtími sauðfjár. Februarius, eða föstuinngangsmánuður ... þá búa karlmenn sig til fiskveiða á verstöðum. Martíus, eða jafndægramánuður ... nú er vertíð við sjó og vorið byrjar. Aprílio, eða sumarmánuður ... þá byrjar sumarmisseri, lengir dag og minnka oft frosthörkur. Majus, eða fardagamánuður ... þá er unnið á túnum, sáð til matar, sauðburður hefst og fuglar verpa. Júníus, eða náttleysumánuður ... þá er lengstur dagur, nú er plantað káli, rúið sauðfé, lömbum fært frá og rekið á afrétt. Júlíus, eða miðsumarsmánuður ... þá eru dregin að búföng, flutt í sel, farið á grasafjall og byrjaður sláttur. Augustus, eða heyannamánuður ... þá standa heyannir, hirt tún og yrktar engjar. September, eða aðdráttarmánuður ... þá enda heyannir, en byrjast haustið, gjörð fjallskil, hyrtar matjurtir. Oktober, eða slátrunarmánuður ... þá byrjar vetrar misserið, nú er færð mykja á tún, slátrað búfé og börn byrja stöfun. Nóvember, eða ríðtíðarmánuður ... þá er sest að við ullar vinnu og hyrtur búsmali. Desember, eða skammdegismánuður ... hann endar árið, þá er stystur dagur og vökur lengstar. Tveggja missera almanak Gamla bændaalmanakið tók miklu meira tillit til þess sem var að gerast í þjóðlífinu og náttúrunni svo sem sést af mánaðanöfnum eins og gormánuður og mörsugur, sólmánuður og heyannir svo ekki sé talað um kunningjana þorra og góu. Það almanak á sér sennilega djúpar rætur og er tiltölulega einfalt tveggja missera dagatal, þar sem tímajöfnun fer fram á mörkum vetrar og sumars og heita veturnætur á haustin en sumarmál á vorin. Veturinn hefur sínar 26 vikur og sumarið sömuleiðis. Á veturna byrja vikurnar á laugardögum en á sumrin á fimmtudögum. Fyrsta sumardag ber því alltaf upp á fimmtudag, sem er í raun og veru nýársdagur. Mánuðirnir eru sex í hvorum árshelmingi og fylgja stjörnumerkjunum. Talið var í vikum en aldrei mánaðardögum. Guðrún Ósvífursdóttir var gift Þorvaldi, fimmtán vetra, í tvímánuði, en brúðkaup hennar og Þórðar Ingunnarsonar var „að tíu vikum sumars“. Mánuðirnir skiptu þó minna máli en vikurnar. Fátt úr gamla almanakinu hefur öðlast fastan sess í því nýja utan sumardagurinn fyrsti. Þorrinn með blótum sínum hefur verið endurvakinn í núverandi mynd og svo er viss rómantík í sambandi við nöfn eins og hörpu, sem minnir á vorið. Það hélt gamla almanakinu við og lengdi lífdaga þess að þulirnir í ríkisútvarpinu höfðu Þjóðvinafélagsútgáfuna ætíð við höndina og lásu úr henni þegar þurfti að fylla inn í smáeyður á milli dagskráratriða og tók því ekki að setja plötu á fóninn. Þá þótti ekki við hæfi að vera með almennt spjall. Ragnheiður Ásta Pétursdóttir upplýsti í viðtalsþætti hversu hentugt var að grípa til gamla almanaksins af því það tengdist því sem var að gerast í náttúrunni hverju sinni. Áhrif tunglsins Í erlendum bænda- og stjörnualmanökum er þess oft getið að á þessum og hinum deginum sé betra að klippa hár sitt eða sinna gróðri, jafnvel fjármálum. Slíkar upplýsingar byggja á hringferli tunglsins kringum jörðina. Tunglið staldrar rúma tvo daga í hverju stjörnumerki á ferð sinni umhverfis jörðina og þau eru síðan talin heppileg eða óheppileg fyrir hinar ýmsu athafnir. Máninn stækkar og minnkar, sem alkunna er, og hann sést lengst á lofti þá mánuði sem sólargangur er stystur og öfugt. Allt er þetta talið hafa áhrif. Plöntum er fjórskipt eins og svo mörgu öðru í okkar grísk-rómverska heimi í rætur, blöð, blómstur og ávexti. Jörð hefur áhrif á rætur, vatn á blöð og stilka, loft á blóm og eldur á ávöxt.
Birt:
28. mars 2007
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „6. kafli - Saga grasnytjungsins“, Náttúran.is: 28. mars 2007 URL: http://nature.is/d/2007/03/28// [Skoðað:5. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: