Nýting villigróðurs - Fléttur
Fléttur
Fléttur eru samlífa svepps og þörungs. Sveppurinn er fyrirferðameiri og ræður mestu um útlit fléttunnar. Sveppurinn er venjulega asksveppur sem myndar langa granna þræði. Þörungarnir eru örsmáir græn- eða blágrænþörungar. Samlífið byggist á því að báðir aðilar njóti góðs af. Hagnaður þörungs er vörn gegn of mikilli birtu, tiltölulega hátt og jafnt rakastig og næringarefni frá sveppi. Hagnaður svepps eru lífræn efni frá þörungi þar sem þeir geta unnið nítur (köfnunarefni) úr.
Fjallagrös [Cetraria islandica]
Lýsing: Fjallagrös eru ljós á lit gráleit eða brúnleit. Plantan er smágerð (5-10 cm), öll flatvaxin og greinist töluvert. Fjallagrös vaxa fyrst og fremst á hálendi, víða á heiðum og jafnvel um miðhálendið. Mundagrös líkjast fjallagrösum mjög, en eru fíngerðari og á jörðum þeirra eru litlar totur. Líklegt er að áður fyrr hafi þessar tvær tegundir verið tíndar jöfnum höndum. Þess má geta að Rannsóknastofnun landbúnaðarins hefur greint næringarefni í fjallagrösum sem eru mjög kolvetnarík (84,8%) og innihalda mikið af kalki. Margar fléttur innihalda bakteríudrepandi sýrur og hafa reynst vel til sumra lækninga og sem rotvarnarefni.
Árstími: Ágúst- September. Sumir telja best að taka fjallagrös í júní, en hægt er að tína þau fram eftir hausti.
Tínsla: Tínast án verkfæri í eða stuttu eftir rigningu, þau eru þá mjúk og nást með minni skemmdum á öðrum gróðri. Létt er að tína fjallagrös því þau hafa ekki rætur og liggja nærri laus, en oft vaxa þau á kafi í lyngi eða mosa. Vöxtur fjallagrasa er hægur, 1-2 mm á ári. Það er því full ástæði til að hafa í huga að þau grös sem verið er að tína hverju sinni hafa þurft að minnsta kosti 5-10 ár til að vaxa, oft mun lengri tíma. Því er ekki hægt að taka fjallagrös af sama staðnum ár eftir ár og ráðlegt er að skilja eitthvað eftir til þess svæðið eigi auðveldara með að jafna sig.
Meðferð: Aðskotahluti, gras mosa o.þ.h. verður að handtína úr grösunum. Þetta er mjög mismikil vinna eftir aðstæðum við tínslu. Síðan eru þau þvegin úr köldu vatni. Fjallagrös er auðvelt að þurrka því þau klessast ekki saman og eru nægilega stíf til þess að vel loftar um þau. Einfaldast er að breiða þau á léreft á þurrum stað.
Ábendingar um ítarlegra efni: Björn L. Jónsson: Íslenskar lækningar- og drykkjarjurtir, 1973. Ingólfur Davíðsson: Ofurlítið um lækningajurtir, Garðyrkjuritið 1979.
Ljósmynd: Fjallagrös, Guðrún Tryggvadóttir ©Náttúran.is.
Birt:
Tilvitnun:
Erlingur Filippusson „Nýting villigróðurs - Fléttur“, Náttúran.is: 21. júlí 2013 URL: http://nature.is/d/2007/04/10/nting-villigrurs-flttur/ [Skoðað:26. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 10. apríl 2007
breytt: 1. janúar 2013