Íslenskar villiplöntur hafa verið seldar hér innanlands í nokkra áratugi. Þar er einkum um að ræða söl og fjallagrös auk þess sem bláber og krækiber hafa verið seld ný tínd. Markaðurinn virðist nokkuð stöðugur og lítið eitt vaxandi. Blóðberg hefur lítið eitt komið til sölu í verslunum sem sérhæfa sig í heilsuvörum og kryddi, en ekki í nægilega miklu magni til þess að vinna sér stöðugan markað. Framboð hefur ekki fullnægt eftirspurn, þannig að fjallagrös hafa verið ófáanleg í verslunum öðru hvoru, og blóðberg nær ófáanlegt.

Íslensku plönturnar eru flestar smávaxnari og vaxa hægar en sömu tegundir gera í nágrannalöndum okkar. Þær hljóta því alltaf að verða dýrari vara en innfluttar jurtir, sem jafnvel eru ræktaðar í ökrum í hlýrra veðurfari. Eini möguleikinn til að markaðssetja villtar íslenskar jurtir er að þær séu betri vara en innflutt. Íslensku villiplönturnar hafa góða möguleika á því ef vandað er til söfnunar og verkunar. Plöntur sem vaxa við lágt hitastig og mikla birtu eru gjarnan kraftmeiri en ella, dæmi um þetta eru krækiber sem eru ljúffeng á norðurslóðum en bragðlítil eða óæt sunnar í álfunni. Enn frekar getum við lagt áherslu á ómengaða vöru. Ísland hefur að mestu leyti sloppið við þá mengun sem víða er orðið óviðráðanlegt vandamál í Evrópu, súrt regn, blý frá bílaútblæstri, geislun frá kjarnorkuslysum og fleira. Samt sem áður erum við ekki algerlega laus við mengunarvandamál og nauðsynlegt að hafa þau mjög í huga við söfnun plantnanna og forðast staði nálægt þéttbýli, umferð og iðnaði. Einnig er óheppilegt að safn jurtum þar sem tilbúinn áburður hefur verið notaður.

Ein tegund mengunar er orðin alvarlegt vandamál hér, gerlamengun í fjörum, sem borist getur með fugli í vatn á nærliggjandi svæðum. Þetta er sérstaklega varasamt þegar þörungum er safnað. Gæta verður þess að láta þær fjörur sem grunnur leikur á að gætu verið mengaðar eiga sig.

Við verðum að vera minnug þess að um leið og slakað er á gæðakröfunum verða íslensku jurtirnar óseljanleg vara. Það verður aldrei hægt að keppa við innfluttar jurtir um verð.
Fjallagrös hafa veirð nýtt í Evrópu um langt skeið, meðal annars í lyfjaiðnaði. Þau grös hafa bæði komið frá Skotlandi og Norðurlöndum og verið mjög ódýr, þannig að Íslendingar hafa engan veginn verið samkeppnisfærir á þeim markaði fram að þessu. Við kjarnorkuslysið í Chernobyl eyðilögðust fjallagrös á stórum svæðum í Evrópu. Þau eru mjög seinvaxin og getur því tekið áratugi að aftur verði mögulegt að nýta þau svæði. Verð á fjallagrösum á Evrópumarkaði hefur því hækkað mjög mikið og er nú orðið raunhæft að selja íslenska uppskeru þangað.

Í Nýtingu villigróðurs er getið um 24 tegundir háplantna, 13 tegundir þörunga í sjó og einnar fléttu, fjallgrasanna. Auk þess er lítið eitt um sveppatínslu. Þar sem fáar tegundanna hafa verið markaðsvara áður er ekki vitað hversu mikið magn er hægt að selja af þeim. Sumar tegundanna eru bæði algengar og auðteknar og því nokkur hætta á að fljótt safnist meira af þeim en möguleiki er að koma í verð. Því er nauðsynlegt að hafa samband við kaupendurna áður en vinna er lögð í að safna miklu magni af nokkurri tegund.

Verðlagning tegundanna verður með hliðsjón af þeirri vinnu sem áætlað er að söfnun og verki kosti. Einar Logi Einarsson hefur áætlað hlutfallslegan tíma sem fer í að taka nokkrar ólíkar tegundir og flokkað þær eins og hér segir:

  1. Fljótteknast og ódýrast: Mjaðurt, vallhumall
  2. Hvannafræ, klóelfting, maríustakkur
  3. Birkilauf, hvannarætur
  4. Bláberjalyng, blágresi, fíflarætur
  5. Aðalbláberjalyng, sortulyng
  6. Hlaðkolla (gulbrá), silfurmura
  7. Fjallagrös
  8. Ljónslappi, rjúpnalauf
  9. Blóðberg
  10. Seinteknast og dýrast: Gulmaðra, kúmen, lokasjóður

Þessi listi er ekki tæmandi, enda ætlaður til viðmiðunar en ekki við beinan útreikning. Þörungarnir, sem ekki er getið hér eru flestir ódýrari.
Þar sem nú er verið að gera tilraun með hvað hægt er að selja getur farið svo að ekki verði öllu komið í verð. Á hinn bóginn er nauðsynlegt að eitthvað magn sé til af hverri tegund ef vel selst. Því er best að fara hægt í sakirnar, safna dálitlu magni af þeim plöntum sem menn hafa aðgang að, semja við kaupendur um hversu mikið þeim er sent af uppskerunni, en geyma eitthvað til að bæta inn á markaðinn ef þörf krefur. Gera má ráð fyrir að þær tegundir sem lengst hafa verið á markaði seljist í mestu magni, en óvissara er hvernig tekst með þær nýju.
Þegar búið er að semja um sölu við ákveðinn kaupanda, er varan viktuð, pakkað í góðar umbúðir (saman ber næsta kafla) og send kaupandanum ásamt nótu. Kaupandinn skoðar vöruna og viktar aftur og sendir greiðsli eftir því sem samið var um.

Myndin er af mjaðurt í blóma. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
May 6, 2013
Tilvitnun:
Erlingur Filippusson „Nýting villigróðurs - Markaður“, Náttúran.is: May 6, 2013 URL: http://nature.is/d/2007/04/10/nting-villigrurs-markaur/ [Skoðað:May 18, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: April 10, 2007
breytt: Jan. 1, 2013

Messages: