Langisjór og hluti af Eldgjá og nágrenni hafa nú verið friðlýst og hefur Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra gefið út reglugerð þar um. Umhverfisráðuneytið og sveitarstjórn Skaftárhrepps gengu frá samkomulagi um gjörðina. Innan þessara svæða eru náttúruminjar sem taldar eru hafa mikið gildi á heimsvísu. Að auki hefur svæðið mikið útivistar-, fræðslu- og vísindagildi.

Friðlýsingin er liður í stækkun þjóðgarðsins, um 420 ferkílómetra, sem er á náttúruverndar áætlun 2009 til 2013. Stækkunin tekur til tveggja svæða. Annars vegar svæðis sem kennt er við Langasjó og Tungnárfjöll. Þar er að finna víðerni og einstakar jarðmyndanir sem tengjast eldvirkni á löngum gossprungum. Meðal þeirra eru Grænifjallagarður og Fögrufjöll, sem mynduðust við gos undir jökli á ísöld. Eldgjá er þar einnig, en þar varð mikið hraungos árið 934. Langisjór er eitt stærsta ósnortna stöðuvatn á hálendi landsins, en það er um 25 ferkílómetrar. Stækkunin nær einnig til efsta hluta Skaftár og Skaftáreldahrauns, norðvestan Lakagíga, en þeir eru þegar friðlýstir.

Hitt svæðið sem stækkunin nær til er efsti hluti Skaftáreldahrauns suðaustan Lakagíga. Þar er að finna afar sjaldgæfa vistgerð á hálendinu.

Ljósmynd: Langisjór, ljósm. Árni Tryggvason.

Birt:
Aug. 1, 2011
Höfundur:
kóp
Uppruni:
Fréttablaðið
Tilvitnun:
kóp „Langisjór og hluti af Eldgjá friðlýst“, Náttúran.is: Aug. 1, 2011 URL: http://nature.is/d/2011/08/01/langisjor-og-hluti-af-eldgja-fridlyst/ [Skoðað:June 12, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: