Rósaganga í Laugardal
Fimmtudaginn 21. júlí kl.17 verður fræðsluganga um rósir í Grasagarði Reykjavíkur. Eftir fræðsluna verður gengið yfir í skrúðgarðinn í Laugardal þar sem nýr Rósagarður Rósaklúbbs Garðyrkjufélags Íslands, Reykjavíkurborgar og Yndisgróðurs verður formlega vígður.
Leiðsögn verður í höndum Jóhanns Pálssonar, grasafræðings og fyrrverandi garðyrkjustjóra Reykjavíkurborgar, sem fagnar áttræðisafmæli sínu þennan dag.
Rósir hafa lengi verið ræktaðar og elstu heimildir geta ræktaðra rósa um 2700 f. kr. Allt frá þeim tíma hafa menn valið fallegustu einstaklingana og kynbætt þá svo fram hafa komið yrki sem uppfylla kröfur ræktenda.
Mörg yrki þrífast á Íslandi og í Grasagarðinum er að finna sýnishorn af algengustu rósayrkjum í ræktun utandyra á Íslandi. Í Rósagarðinum í Laugardal er svo safn helstu rósa sem ræktaðar eru hérlendis, einnig safn nýrra finnskra rósa og Austin-rósa. Auk þess er þar að finna sérstakt safn rósa sem Jóhann Pálsson hefur kynbætt.
Rósagangan hefst við lystihúsið við Café Flóru kl. 17.
Eftir gönguna verður boðið upp á léttar veitingar. Þátttaka er ókeypis og allir eru velkomnir.
Nánari upplýsingar um rósagönguna í Laugardal veita: -
Hildur Arna Gunnarsdóttir, fræðslustjóri Grasagarðsins, í síma 846-9276-
Samson Bjarnar Harðarson, landslagsarkitekt og lektor við Lbhí, í síma 843-5352
Birt:
Tilvitnun:
Hildur Arna Gunnarsdóttir „Rósaganga í Laugardal “, Náttúran.is: 20. júlí 2011 URL: http://nature.is/d/2011/07/20// [Skoðað:15. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.