Fuglablik í Grasagarðinum - ljósmyndasýning og fuglaganga
Sunnudaginn 6.maí kl. 11 verða fuglar í fyrirrúmi í Grasagarði Reykjavíkur. Í samstarfi við Fuglavernd verður ljósmyndasýningin Fuglablik opnuð í Café Flóru, nýuppfærður upplýsingaveggur um fuglana í garðinum afhjúpaður og að auki verður boðið upp á fuglagöngu um garðinn undir leiðsögn félaga úr Fuglavernd.
Ljósmyndasýningin Fuglablik er farandsýning Fuglaverndarfélags Íslands og er hún tileinkuð velunnara félagsins, Hjálmari R. Bárðarsyni, sem lést í mars 2009. Hjálmar var brautryðjandi í fuglaljósmyndun hér á landi og gaf út fyrstu stóru ljósmyndabókina um íslenska fugla árið 1986. Á undanförnum árum hefur fjölgað mjög í hópi íslenskra fuglaljósmyndara eins og sést á því að þátttakendur í sýningunni eru 18 og aldurinn spannar frá 14 ára til 87 ára. Viðfangsefnin eru misjöfn en sammerkt með verkunum er aðdáun og virðing á íslenskri náttúru og íslenskum fuglum. Ljósmyndasýningin stendur til 3. júní og er opin daglega á opnunartíma Café Flóru kl. 10-22.
Eftir opnun ljósmyndasýningarinnar verður boðið upp á fuglagöngu um Grasagarðinn en í garðinum er fjölskrúðugt fuglalíf. Þeir Jóhann Óli Hilmarsson, fuglafræðingur og formaður Fuglaverndar, og Jakob Sigurðsson varaformaður félagsins, fræða gesti um þær fuglategundir sem fyrir augu ber.
Í anddyri garðskálans verður einnig afhjúpaður nýuppfærður upplýsingaveggur um fuglategundirnar í Grasagarðinum, algengar sem sjaldgæfar.
Mæting í Café Flóru kl. 11. Þátttaka er ókeypis og allir eru velkomnir.
Ljósmynd: Flórgoði, ©Sindri Skúlason.
Birt:
Tilvitnun:
Hildur Arna Gunnarsdóttir „Fuglablik í Grasagarðinum - ljósmyndasýning og fuglaganga“, Náttúran.is: 3. maí 2012 URL: http://nature.is/d/2012/05/03/fuglablik-i-grasagardinum-ljosmyndasyning-og-fugla/ [Skoðað:22. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.