Valurt og býflugaValurt er innflutt, þó hún sé búin að fá hér ríkisfang. Hún vex nánast hjálparlaust en er þó ekki villt. Hún var þekkt lækningajurt meðal Grikkja og rómverskum hermönnum var kennt að nota hana til að lækna sár og láta bein-brot gróa. Hún gengur undir nafninu comfrey á ensku en valurt gæti verið komið af sögninni að vella, vegna þess að af henni hafi verið gert seyði. Hún er afar stórvaxin blómjurt með fjólubláum blómum. Þar sem hún er notuð til lækninga eða matar er hún klippt, svo hún blómstri ekki, og yngstu blöðin notuð allt sumarið. Blöðin má nota á vorin eins og annað villigrænt. Ef bragðið þykir of sterkt má leggja blöðin í edik með basilíku, óreganó og hvítlauk. Hrista svo af vökvann og sneiða fínt í salat. Erlendis eru ung blöð valurtar notuð líkt og spínat.

Jurtabakstur með valurt
Ferskar rætur eru notaðar í heita bakstra við verkjum og stífni í vöðvum og liðum. Ræturnar eru gufusoðnar og marðar og síðan breitt úr maukinu á hreinan klút og plast haft undir og handklæði þar undir og sett í rúm sjúklingsins. Hann leggst með veikan liminn á heita jurtablönduna og handklæðinu er vafið snarlega um svo ekki kólni. Sængin er síðan breidd yfir og sofið á heitum bakstrinum alla nóttina.

Te handa börnum
C-in þrjú eða comfrey, camilla og calendula var uppáhalds teblanda grasafræðikennara míns, Jeanne Rose, og hún taldi hana til bóta við margs konar kvillum hjá börnum. Safna skal ungum blöðum af valurt og blómunum af kamillu og morgunfrú. Jurtirnar eru þurrkaðar (þá er auðveldara að slíta blómblöð morgunfrúarinnar frá botninum) og best er að halda hverri tegund fyrir sig. Síðan er blandað í nokkuð jöfnum hlutföllum þegar teið er gert eða þegar krukka af tei er gefin. Kamillu er auðvelt að rækta, jafnvel í matjurtagarðinum. Það sama á við um morgunfrúna. Efnið í þessa teblöndu er gott að eiga tiltækt. Hún hefur hjálpað foreldrum, sem eiga börn með mjólkuróþol, sé á annað borð hægt að fá þau til að drekka te.

Úr Ætigarðinum - handbók grasnytjungsins, eftir Hildi Hákonardóttur. Bókin er fáanleg hér á Náttúrumarkaðinum.

Ljósmynd: Býgluga á valurtarblómi, Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
9. júlí 2013
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Valurt“, Náttúran.is: 9. júlí 2013 URL: http://nature.is/d/2007/11/06/valurt/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 6. nóvember 2007
breytt: 14. mars 2014

Skilaboð: