Prentmet í Reykjavík hefur nú fengið vottun Norræna umhverfismerkisins Svansins til staðfestingar á góðum árangri í umhverfismálum. Prentmet hefur frá stofnun lagt sig fram við að minnka neikvæð umhverfisáhrif með skipulagðri endurvinnslu og öðrum áherslum sem styðja við umhverfisvernd. Markmiðin eru skýr og skuldbinding eigenda og stjórnenda fyrirtækisins er augljós og greinilega mikill áhugi meðal alls starfsfólks.

Svansvottun prentsmiðjunnar tryggir að Prentmet er í fremstu röð hvað varðar lágmörkunmneikvæðra áhrifa á umhverfi og heilsu. Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra afhenti Guðmundi Ragnari Guðmundssyni og Ingibjörgu Steinunni Ingjaldsdóttur, eigendum og forsvarsmönnum Prentmets Svansleyfið í húsnæði fyrirtækisins að Lynghálsi 1 fyrr í dag. Í ræðu ráðherra kom fram að Svanurinn hefur náð góðri fótfestu í prentiðnaði en Prentmet er sjötta íslenska prentsmiðjan sem hlýtur Svansvottun. Prentmet hlýtur sautjánda Svansleyfið sem gefið hefur verið út á Íslandi og bætist því í ört stækkandi hóp Svansmerktra fyrirtækja. Sífellt auðveldara verður fyrir íslenska neytendur að velja umhverfismerkta vöru og þjónustu.

Sjá alla þá aðila sem hafa Svansvottun á Íslandi hér á Grænum síðum.

Prentmet

Prentmet var stofnað í apríl árið 1992 af hjónunum Guðmundi Ragnari Guðmundssyni og Ingibjörgu Steinunni Ingjaldsdóttur. Í byrjun voru aðeins tveir starfsmenn hjá Prentmeti en fyrirtækið fór þó fljótlega að færa út kvíarnar og starfsfólki fjölgaði ört. Hjá Prentmeti starfa nú tæplega 100 manns á þremur stöðum; í Reykjavík, á Selfossi og Akranesi. Prentmet býður upp á mikla breidd í prentverki, meðal annars offsetprentun, stafræna prentun, prentun umbúða og bóka. Svansvottun Prentmets nær yfir alla prentþjónustu Prentmets í Reykjavík.

Svansmerking fyrir prentsmiðjur

Kröfur Svansins fyrir prentsmiðjur eru mjög strangar, sérstaklega hvað varðar efnanotkun, sem er þýðingarmesti umhverfisþátturinn í rekstri prentsmiðja en auk þess er:

  • Lögð áhersla á notkun umhverfismerkts eða endurunnins pappírs við prentunina.
  • Hlutfall úrgangspappírs við framleiðsluna er lágmarkaður
  • Tryggja skal flokkun úrgangs ásamt réttri meðhöndlun hættulegra efna.
  • Hvatt er til notkunar endurnýjanlegra orkugjafa og lágmörkunar á orkunotkun við framleiðsluna og þess að valdar séu umhverfismerktar vörur og þjónusta í innkaupum.
  • Gerð er krafa um reglulega þjálfun og fræðslu starfsmanna ásamt ferlum til að stýra umhverfisstarfi.
  • Tryggt er að fyrirtækið uppfylla öll lög og reglugerðir sem eiga við starfsemina.

Svanurinn er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna sem byggist á óháðri vottun og skilyrðum sem taka tillit til alls lífsferils vöru og þjónustu. Tilgangur Svansins er að ýta undir sjálfbæra þróun samfélagsins svo að komandi kynslóðir hafi jafna möguleika og við til að mæta þörfum sínum. Alls er hægt að votta um 70 mismunandi vöru- og þjónustuflokka.

Umhverfisstofnun er rekstraraðili svansins á Íslandi.

Ljósmynd: Frá afhendingu Svansins; Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra, Guðmundur Ragnar Guðmundsson og Ingibjörg Steinunn Ingjaldsdóttir, eigendur Prentmets. Af vef Prentmets.

Birt:
6. júlí 2011
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Prentmet fær Svansvottun“, Náttúran.is: 6. júlí 2011 URL: http://nature.is/d/2011/07/06/prentmet-faer-svansvottun/ [Skoðað:22. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 11. júlí 2011

Skilaboð: