Umhverfisráðuneytið hefur staðfest samning Umhverfisstofnunar og sveitarfélagsins Mýrdalshrepps um umsjón og rekstur friðlandsins í Dyrhólaey sem Umhverfisstofnun og sveitarfélagið höfðu gert í samræmi við 30. gr. laga nr. 44/1999 um náttúruvernd. Í samningnum er m.a. kveðið á um réttindi og skyldur samningsaðila, mannvirkjagerð og aðrar framkvæmdir, landvörslu, menntun starfsmanna, móttöku ferðamanna og fræðslu. Hlutverk Umhverfisstofnunar er m.a. að hafa eftirlit með því að umsjónaraðili uppfylli samningsskuldbindingar. Umsjónarsamningurinn felur ekki í sér framsal stjórnsýsluvalds til sveitarfélagsins, t.d. varðandi ákvarðanir um lokun og opnun friðlandsins samkvæmt auglýsingu um friðlandið eða leyfisveitingar á svæðinu. Allar stjórnvaldsákvarðanir varðandi friðlandið eru teknar að undangegnu faglegu mati Umhverfisstofnunar sem byggir á úttektum óháðra aðila.

Ráðuneytið fagnar þeirri ákvörðun Umhverfisstofnunar að setja jafnframt á fót ráðgjafanefnd og ráða viðbótar landvörð sumarið 2011. Í ráðgjafanefndinni eiga sæti, auk fulltrúa stofnunarinnar, fulltrúi tilnefndur af sveitarfélaginu Mýrdalshreppi, ábúendum í Dyrhólahverfi, Ferðamálastofu og Náttúruverndarsamtökum Suðurlands. Nefndinni er ætlað að vera umhverfistofnun til ráðgjafar um vernd svæðisins og stefnumörkun til framtíðar.

Ráðuneytið harmar það ástand sem ríkt hefur vegna friðlandsins í Dyrhólaey og átökum innan sveitarfélagsins vegna þess og beinir þeim tilmælum til sveitarstjórnar að unnið verði að því að skapa sátt í sveitarfélaginu um svæðið. Friðlandið í Dyrhólaey er mikilvægt náttúruverndarsvæði sem okkur ber skylda til að varðveita og tryggja að það geti verið gestum þess um ókomna tíð upplifun um sérstæða og einstaka náttúru.

Ráðuneytið væntir góðs samstarfs Umhverfisstofnunar og sveitarstjórnar um vernd og nýtingu svæðisins og farsælla samskipta við ábúendur og hagsmunaaðila.

Birt:
30. júní 2011
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Umhverfisráðuneytið staðfestir umsjónarsamning um Dyrhólaey“, Náttúran.is: 30. júní 2011 URL: http://nature.is/d/2011/06/30/umhverfisraduneytid-stadfestir-umsjonarsamning-um-/ [Skoðað:23. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: