Grænu svæðin mikils metin í Reykjavík
86% Reykvíkinga segja að græn svæði í borginni skipti þá miklu máli. Fjölmennar fjölskyldur og íbúar í Miðborg og Vesturbæ kunna best að meta svæðin. Þetta kemur fram í könnun sem Umhverfis- og samgöngusvið Reykjavikurborgar lét gera í október. Einnig var spurt um dýrahald og gjald á notkun nagladekkja.
„Það er sannarlega gaman að sjá hvað græn svæði borgarinnar skipta Reykvíkinga miklu máli," segir Karl Sigurðsson formaður umhverfis- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar og spáir því að líflegar umræður geti skapast um gjaldtöku nagladekkja þegar farið verður í að skoða hana. Könnunin leiddi í ljós að fleiri eru hlynntir gjaldi á notkun nagladekkja í Reykjavík en andvígir. 45% segjast hlynntir slíku gjaldi, 43% eru andvígir því og rúmlega 12% taka ekki afstöðu. Aldur og menntun hefur áhrif á viðhorf til gjaldtöku. Því eldir og því meiri menntun aðspurðra því hlynntari eru þeir gjaldi.
Tvær spurningar í þessari könnun falla undir dýrahald í Reykjavík. Aðeins 30% aðspurðra eru hlynntir lausagöngu katta í Reykjavík en 51% eru henni andvígir. Lausir kettir njóta umburðarlyndis íbúa í Miðborginni, Vesturbæ og Breiðholti en flestir aðspurðra í Grafarvogi og á Kjalarnesi eru andvígir lausagöngu katta.
Þá var spurt í könnuninni um viðhorf til þess hversu vel eða illa hundaeigendur fari eftir reglum um hundahald og töldu 48% aðspurðra að þeim reglum væri illa fylgt. 38% töldu aftur á móti að hundaeigendur standi sig vel gagnvart reglunum. Áberandi er að íbúar í Árbæ og Grafarholti telja að hundaeigendur fylgi reglunum illa eða 60%.
Spurningar Umhverfis- og samgöngusviðs Reykjavíkurborgar voru hluti af netkönnun sem Capacent framkvæmdi dagana 1. – 18. október 2010. Úrtakið var 1.174 og var svarhlutfallið tæplega 77%. Spurningarnar hljómuðu á þessa leið: Hversu miklu eða litlu máli skipta grænu svæðin í borginni þig? Hversu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) ertu lausagöngu katta í Reykjavík? Hversu vel eða illa finnst þér hundaeigendur í Reykjavík fara að reglum um hundahald? Hversu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) ert þú því að ökumenn í Reykjavík greiði sérstakt gjald fyrir að nota nagladekk?
Ný könnun með spurningum um umhverfismál.
Sjá almenningsgarði og afþreyingarsvæði í Reykjavík hér á vefútgáfu Græna Reykjavíkurkortsins.
Ljósmynd: Skilti að Grasagarðinum í Reykjavík, hannað af Árna Tryggvasyni.
Birt:
Tilvitnun:
Gunnar Hersveinn „Grænu svæðin mikils metin í Reykjavík “, Náttúran.is: 12. nóvember 2010 URL: http://nature.is/d/2010/11/12/graenu-svaedin-mikils-metin-i-reykjavik/ [Skoðað:23. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.