Breytt hegðun og neyslumynstur borgarbúa kemur greinilega fram í umhverfisvísum Reykjavíkurborgar fyrir árið 2009. Dregið hefur úr heimilisúrgangi, losun gróðurhúsalofttegunda og ársmeðaltal á styrk svifryks í Reykjavík lækkar. „Umhverfisvísarnir eru mjög öflugt tæki til að sjá breytingar í umhverfismálum og þeir hjálpa okkur til að setja stefnuna,“ segir Karl Sigurðsson formaður umhverfis- og samgönguráðs.

Umhverfisvísar Reykjavíkurborgar eru af ýmsum toga og eru margir mælikvarðar notaðir til að miðla upplýsingum til almennings og þeirra sem vinna að stefnumótun. Vísarnir gera fagmönnum kleift að fylgjast með ástandi borgarinnar í 6 málaflokkum, skoða breytingar yfir ákveðið árabil og móta stefnu í framhaldi af því.

Rauði þráðurinn árið 2009 birtist meðal annars í 6% samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda milli áranna 2007 og 2009. Ársmeðaltal svifryks minnkar einnig eða úr 23 míkrógrömm á rúmmetra árið 2008 í 21 árið 2009.

„Kreppan virðist hafa áhrif á ferðavenjur fólks og sýna umhverfisvísarnir að 6% færri fóru í einkabíl til og frá vinnu milli áranna 2008 og 2009,“ segir Anna Sigurveig Ragnarsdóttir umhverfisfræðingur hjá Umhverfis- og samgöngusviði sem kynnti niðurstöðurnar fyrir ráðinu.

Greinileg breyting kemur fram í neyslumynstri hvað heimilisúrgang varðar: Úrgangur frá heimilum í Reykjavík var að meðaltali 185 kg á hvern borgarbúa árið 2009 og dróst því saman um rúm 11% miðað við árið á undan og um 20% ef miðað er við árið 2007.

Endurheimt seiða í Elliðaánum og heildarganga laxa fellur undir umhverfisvísinn líffræðileg fjölbreytni. Niðurstaðan er að stofninn hefur rétt töluvert úr kútnum. Árið 2008 var það síðasta sem gönguseiðum var bætt í náttúrlegan stofn árinnar.

Anna Sigurveig segir að vísarnir verði gefnir út á næstu vikum. Einnig stendur yfir endurskoðunum á þeim, vilji er til að ná til fleiri málaflokka, gera samanburð við aðrar borgir og taka Álaborgarskuldbindingarnar með í reikninginn en þær eru yfirlýsing sveitarfélaga um hvernig tryggja megi komandi kynslóðum viðunandi lífsskilyrði. Vísarnir munu þá ná til þátta er varða umhverfis-, efnahags- og samfélagslega þætti.

Kynning á umhverfisvísum 2009

Birt:
12. nóvember 2010
Höfundur:
Gunnar Hersveinn
Tilvitnun:
Gunnar Hersveinn „Reykjavík - í átt til sjálfbærni “, Náttúran.is: 12. nóvember 2010 URL: http://nature.is/d/2010/11/12/reykjavik-i-att-til-sjalfbaerni/ [Skoðað:27. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: