• Meginorsök skuldavanda Orkuveitu Reykjavíkur eru fjárfestingar í orkusölu til stóriðju. Skuldir vegna þeirra nema 90 milljörðum eða 38% af heildarskuldum. Upphæðin er nærri upphaflegri kostnaðaráætlun vegna Kárahnjúkavirkjunar.
  • Orkusala til stóriðju skilaði aðeins 3,5 milljörðum í tekjur á síðasta ári og er því endurgreiðslutími skulda 26 ár sem er meira en fjórfalt lengra en í annarri starfsemi fyrirtækisins.
  • Útgjaldaauki vegna gjaldskrárhækkunar nú er um tveir milljarðar. Áhrif á vísitölu auka svo árlegan vaxtakostnað heimilanna um 2-3 milljarða. Tekjur af sölu til stóriðju eru lægri en þessu nemur. Með gjaldskrárhækkuninni er því kostnaði af stóriðjustefnunni varpað yfir á almenna neytendur.

Samkvæmt fréttatilkynningu frá 27. ágúst sl. voru skuldir Orkuveitu Reykjavíkur rúmlega 236 milljarðar króna í árslok 2009. Langstærsti liðurinn, 38%, eru skuldir vegna fjárfestinga í orkuframleiðslu til stóriðju.

Tekjur Orkuveitunnar án gagnaveitu árið 2009 voru 25,2 milljarðar króna.1 Tekjur af öðrum þáttum en sölu til stóriðju voru 21,8 milljarðar2. Tekjur af orkusölu til stóriðju voru því aðeins 3,5 milljarðar króna. Fjárfestingin í þessari framleiðslu verður því 26 ár að skila sér til baka ef fram heldur sem horfir. Þegar litið er á aðra þætti starfseminnar sést að endurgreiðslutími skulda er í öllum tilfellum langtum skemmri. Þannig tæki fimm ár að greiða upp skuldir vegna smásölu rafmagns, níu ár vegna fjárfestingar í hitaveitum og aðeins tvö ár vegna fjárfestingar í dreifingu.

Gjaldskrárhækkunin leiðir til 0,4% hækkunar neysluverðsvísitölu. Sé gert ráð fyrir að verðtryggðar húsnæðisskuldir séu nú á bilinu 1000-1500 milljarðar hefur stóriðjustefna Orkuveitunnar þannig leitt af sér 4-6 milljarða hækkun á fasteignalánum heimilanna í landinu. Ef miðað er við 5% vexti er vaxtakostnaðurinn vegna hækkunarinnar 2-3 milljarðar á ári. Gjaldskrárhækkunin sjálf nemur svo tveimur milljörðum á ári. Séu 3,5 milljarða tekjur af orkusölu til stóriðju settar í samhengi við þessar tölur er erfitt að sjá að hún skili almenningi miklum ávinningi.

1) Ársreikningur Orkuveitu Reykjavíkur 2009.   
2) Svar við fyrirspurn Sigrúnar Elsu Smáradóttur um hækkunarþörf, sjá: http://www.or.is/media/PDF/fyrirspurn_SES_um_ardsemi_og_afkomu.pdf.

Birt:
3. nóvember 2010
Höfundur:
Árni Finnsson
Tilvitnun:
Árni Finnsson „Stóriðjustefnan sligaði Orkuveitu Reykjavíkur“, Náttúran.is: 3. nóvember 2010 URL: http://nature.is/d/2010/11/03/storidjustefnan-sligadi-orkuveitu-reykjavikur/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 6. nóvember 2010

Skilaboð: