Nagladekk valda loft- og hávaðamengun í Reykjavík, tæta upp malbikið hundrað sinnum hraðar en önnur dekk og eru óþörf því vetrarþjónusta gatna er góð. Þetta eru skilaboð Reykjavíkurborgar nú þegar það styttist í að ekki er lengur bannað að keyra á nagladekkjum. Nýstárlegt skilti hefur verið sett upp af þessu tilefni. Skilti var sett upp í dag, 22. október, á Miklubraut til að minna ökumenn á að nagladekk valda fremur svifryksmengun en önnur dekk. Skiltið er hannað af Rósu Hrund Kristjánsdóttur grafískum hönnuði og birtir tvær fullyrðingar: „Svifryk sest í lungun“og „Nagladekk eru óþörf í Reykjavík“ en að öðru leyti virðist það vera tómt. Hér er um breytilegt skilti að ræða því rykið sest á ósýnilega mynd af mannslungum sem smátt og smátt mun koma í ljós. Reykjavíkurborg mun á næstu dögum minna ökumenn á að varkárni á götum borgarinnar er meginaðferðin við keyrslu í borginni ásamt góðum naglalausum vetrardekkjum. Kjöraðstæður fyrir nagladekk næstum aldrei í borginni og því er ástæðulaust að valda svifryki, hávaða og hraðri eyðingu á malbiki frá 1. nóvember til 15. apríl ár hvert. Æ færri bílstjórar í Reykjavík velja nú nagladekk undir bílinn. Bifreiðum á nagladekkjum hefur fækkað verulega undanfarin ár. Fjórðungur bifreiða reyndist vera á nagladekkjum í nóvember og desember 2009, flestar urðu bifreiðarnar í mars 2010 eða 39% bifreiða á nöglum. Árið 2002 voru hins vegar 67% bifreiða á nöglum. Reykjavíkurborg hvetur því ökumenn til að leggja sitt af mörkum til að fækka nagladekkjum.

Birt:
22. október 2010
Tilvitnun:
Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkur „Nagladekk eru óþörf í Reykjavík “, Náttúran.is: 22. október 2010 URL: http://nature.is/d/2010/10/22/nagladekk-eru-othorf-i-reykjavik/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: