Tilkynnt verður í kvöld í Stokkhólmi hvaða borgir hljóta titilinn Græna borgin í Evrópu 2012 og 2013. Alþjóðleg ráðstefna stendur nú yfir í Stokkhólmi um Grænar borgir, aðferðir og lausnir í umhverfismálum. Jón Gnarr borgarstjóri tekur þátt í ráðstefnunni.

Hægt er að fylgjast með ráðstefnunni í beinni útsendingu á Netinu (sjá beina útsendingu hér). Borgarstjórar voru á sviðinu í morgun og sagði Jón Gnarr meðal annars að borgir væru líkar fólki, þær gætu lært hver af annarri. Megintilgangur fyrir titlinum Græna borgin í Evrópu (European Green Capital) er að hvetja borgir til að miðla lausnum í umhverfismálum sín á milli til að hraða fyrir góðri þróun.

Sautján borgir í tólf Evrópulöndum sóttu um tilnefninguna að þessu sinni og gerðu í kjölfarið viðamiklar umsóknir. Sex borgir komust í undanúrslit og fengu nýlega tækifæri til að flytja mál sitt fyrir dómnefnd í Brussel í Belgíu. Það voru Núrnberg frá Þýskalandi, Nantes frá Frakklandi, Málmey frá Svíþjóð, Barcelóna og Vitoria-Gasteiz frá Spáni ásamt Reykjavíkurborg.

Stokkhólmur er Græna borgin í Evrópu árið 2010 og mun þýska borgin Hamborg taka við titlinum fyrir árið 2011. Ráðstefnan i Stokkhólmi stendur í allan dag og verður tilkynnt um hvaða borgir verða fyrir valinu milli klukkan 18 og 21 í kvöld.

Ráðstefnan í Stokkhólmi

Myndabanki ráðstefnunnar

European Green Capital

Ljósmyndin er frá ráðstefnunni í morgun. Jón Gnarr borgarstjóri ásamt öðrum borgarsjórum á sviðinu.

Birt:
21. október 2010
Tilvitnun:
Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkur „Verður Reykjavík Græna borgin í Evrópu 2012 eða 2013 ? - Úrslit kunngjörð í kvöld“, Náttúran.is: 21. október 2010 URL: http://nature.is/d/2010/10/21/verdur-reykjavik-graena-borgin-evropu-2012-urslit-/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: