Hlutfall negldra hjólbarða reyndist vera 44% á móti 56% ónegldra þegar talning fór fram 3. mars 2008. Á sama tíma í fyrra voru 47% ökutækja á negldum hjólbörðum. Svifryk hefur farið tvisvar yfir heilsuverndarmörk í mælistöð Umhverfis- og samgöngusviðs við Grensásveg. Úrkoman dregur úr mengun í borginni.

Farstöð mengunarvarna Umhverfis- og samgöngusvið er nú staðsett á gatnamótum Langholtsvegar og Skeiðarvogs en þar mældist mikil mengun í desember 2005 og janúar 2006 eða svipuð og á gatnamótum Miklubrautar og Grensásvegar. „Við viljum nú kanna hvort álíka mengun mælist á þessum stað ef mælt er á öðrum árstíma,“ segir Anna Rósa Böðvarsdóttir heilbrigðisfulltrúi. Farstöðin var síðast staðsett á horni Miklubrautar og Stakkahlíðar á tímabilinu 7. desember 2007 til 16. janúar 2008 og mældist svifryksmengun þar fimm sinnum yfir sólarhrings-heilsuverndarmörkum.

Því meiri úrkoma því minni mengun
Úrkoma hefur mikil áhrif á svifryksmengun í borginni: var 88% umfram meðallag í febrúar. „Götur hafa verið blautar frá því um miðjan janúar og það hefur áhrif á styrk svifryks í andrúmsloftinu,“ segir Anna og bendir á að marsmánuður hafi löngum reynst mikill svifryksmánuður. Árið 2005 og 2006 fór svifryk yfir heilsuverndarmörk um það bil 10 sinnum hvort ár en í úrkomunni í mars 2007 aðeins tvisvar sinnum.

Mars hefur oft reynst þurrviðrasamur og bifreiðar enn á nagladekkjum – en naglarnir eru taldir áhrifamesti þátturinn í tilurð svifryks í Reykjavík. Sólarhrings-heilsuverndarmörk svifryks (PM 10) eru 50 míkrógrömm á rúmmetra og mega þau fara átján sinnum yfir heilsuverndarmörk árið 2008, samkvæmt reglugerð nr. 251/2002.

Sjá nánar á vef Umhverfis- og samgöngusviðs Reykjavíkur

Myndin er af farstöð á Miklubraut. 

Birt:
March 5, 2008
Höfundur:
Gunnar Hersveinn
Tilvitnun:
Gunnar Hersveinn „Rysjótt tíð dregur úr mengun“, Náttúran.is: March 5, 2008 URL: http://nature.is/d/2008/03/05/rysjott-tio-dregur-ur-mengun/ [Skoðað:Feb. 4, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: