Í fréttatilkynningu frá Sól í Flóa segir:
 
Krafa um endurnýjað mat á umhverfisáhrifum Þjórsárvirkjana.

Fjöldi íbúa og landeigenda í Flóahreppi, rúmlega 40 manns afhentu á föstudaginn sveitarstjórn Flóahrepps áskorun um að sveitarstjórn fari fram á við Skipulagsstofnun að fram fari endurskoðun matsskýrslu fyrir virkjanir í Þjórsá.

Í áskoruninni er bent á að ný gögn um jarðfræði svæðisins hafi breytt forsendum verulega frá því að úrskurðir Skipulagsstofnunar lágu fyrir í ágúst 2003 enda var jarðfræði svæðisins ekki nógu vel þekkt á þeim tíma. Því er mikilvægt að sveitarstjórn fari fram á nýtt mat á umhverfisáhrifum framkvæmda.
Ennfremur er bent á að fornminjar sem fundist hafa á jörðinni Þjótanda gætu verið með merkilegustu minjum Íslendinga frá landnámsöld. Verði minjarnar ekki rannsakaðar nánar og varðveittar gætu mikilvæg menningarverðmæti farið forgörðum.

Sjá erindi: 

Til sveitarstjórnar Flóahrepps

Flóahreppi 26. september 2007

Erindi:
Að sveitarstjórn fari fram á endurskoðun matsskýrslu fyrir virkjanir í Þjórsá.

Við undirritaðir íbúar og landeigendur í Flóahreppi skorum á sveitarstjórn að fara fram á að Skipulagsstofnun kalli eftir niðurstöðum jarðfræðirannsókna sem gerðar hafa verið á fyrirhuguðum virkjunarsvæðum Þjórsár eftir að umhverfismat fyrir virkjanirnar fór fram. Einnig að Flóahreppur fari fram á það við Skipulagsstofnun að hún láti endurskoða í heild matsskýrslur framkvæmdaraðila áður en sveitarstjórn Flóahrepps veiti leyfi til framkvæmdanna.

Við undirrituð teljum að ný gögn um jarðfræði svæðisins hafi breytt forsendum verulega frá því að úrskurðir Skipulagsstofnunar lágu fyrir í ágúst 2003 enda var jarðfræði svæðisins ekki nógu vel þekkt á þeim tíma. Því er mikilvægt að sveitarstjórn fari fram á nýtt mat á umhverfisáhrifum framkvæmda.

Þar er fyrst að telja að fornminjar sem fundist hafa á jörðinni Þjótanda gætu verið með merkilegustu minjum Íslendinga frá landnámsöld. Verði minjarnar ekki rannsakaðar nánar og varðveittar gætu mikilvæg menningarverðmæti farið forgörðum.

Í öðru lagi, í ljósi þess að umfangsmiklar rannsóknir á jarðfræði svæðisins hafa farið fram síðan í ágúst 2003 er mikilvægt að sveitarstjórn Flóahrepps fari þess á leit við Skipulagsstofnun að stofnunin endurskoði allar matskýrslur fyrir Þjórsárvirkjanir og láti fara fram nýtt mat á umhverfisáhrifum fyrir virkjanir í Þjórsá á grundvelli nýrra gagna sem fram hafa komið. 

Við bendum á að Skipulagsstofnun hefur heimildir til endurskoðunar á matsskýrslu, sbr. 12. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, svo fremi að leyfisveitandi – í þessu tilviki Flóahreppur – fari fram á endurnýjað mat. Sveitarstjórn ber að nýta sér þennan möguleika. (Sjá bréf Skipulagsstofnunar til Landverndar, dags. 4. september s.l.)

Ein af megin niðurstöðum skýrslu Páls Einarssonar jarðfræðings, sem lá til grundvallar, þegar matsferlið fór fram er að í hrauninu hafi fundist fjölmargar sprungur meðan á rannsóknum stóð og að telja verði líklegt að enn sé þar að finna ófundnar sprungur. Eða eins og það er orðað í skýrslunni:

„Several faults were discovered during this mapping project in addition to the ones that were known before. It must be considered likely that there are still some faults in the area that have not been identified yet“

Þá kemur einnig fram að á svæðinu austan Skarðsfjalls sé mjög erfitt að finna sprungur og að einungis hafi fundist vísbendingar um sprungur á því svæði. Ekki sé þó ástæða til að ætla að sprungur þar séu færri en annarstaðar á svæðinu.

Eða eins og það var orðað í skýrslunni:

„The lava east of Skarðsfjall and near Þjórsá is notoriously difficult for fault identification. Only hints of faults have been found there. There is no reason, however, to believe that faults are fewer in this part of the zone than elsewhere.“
Páll Einarsson hefur einnig tekið fram, að þær sprungur sem hér um ræðir séu ekki hefðbundnar jarðskjálftasprungur heldur sprungur á flekaskilum og því ekki hægt að fylla upp í þær á einfaldan hátt eins og tíðkast með slíkar sprungur á öðrum sprungusvæðum á Íslandi.

Umtalsverðar rannsóknir hafa farið fram á svæðinu eftir að matsferli lauk til að skýra þær óvissur sem bent er á í skýrslu Páls. Ljóst er að ný gögn, sem væntanlega skýra nánar þá mikilvægu óvissuþætti sem hér er um að ræða, gætu gjörbreytt forsendum umhverfismatsins. Því er að mati undirritaðra rík ástæða til endurskoðunar á matsskýrslu, sbr. heimildir stofnunarinnar í 12. gr. laganna.
Við skorum á sveitarstjórn Flóahrepps að beita sér fyrir því að fram fari nýtt mat á umhverfisáhrifum Þjórsárvirkjana.
Undirritaðir

 

 

Viðhengi I. Bréf Skipulagsstofnunar til Landverndar 4. september 2007.


Landvernd
Bergur Siguðsson
Skúlatúni 6
105 Reykjavík    2007080094
8613

Reykjavík, 4. september 2007

Efni: Beiðni um að fram fari endurskoðun á matsskýrslum virkjana í Þjórsá ef ný gögn um jarðfræði svæðisins gefa tilefni til

Vísað er til erindis Landverndar, dags. 23. ágúst 2007, þar sem farið er fram á að Skipulagsstofnun kalli eftir, frá Landsvirkjun, nýjum gögnum um jarðfræði virkjunarsvæða í Þjórsá sem aflað hafi verið eftir að mat á umhverfisáhrifum virkjananna fór fram. Bent er á, í ljósi þess að umfangsmiklar rannsóknir á jarðfræði svæðisins hafi farið fram, sé mikilvægt að Skipulagsstofnun meti, á grundvelli nýrra gagna, hvort ástæða sé til þess að endurskoða matsskýrslurnar og eftir atvikum endurtaki mat á umhverfisáhrifum virkjananna. Vísað er til þess að Skipulagsstofnun hafi heimildir til endurskoðunar á matsskýrslu skv. 2. mgr. 12. gr. laga nr. 106/2000 m.s.b.um mat á umhverfisáhrifum.

Skipulagsstofnun vill benda á að í 1. mgr. 12. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum segir að ef framkvæmdir hefjist ekki innan tíu ára frá því að álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum liggi fyrir skuli viðkomandi leyfisveitandi óska ákvörðunar Skipulagstofnunar um hvort endurskoða þurfi að hluta eða í heild matsskýrslu framkvæmdaraðila áður en leyfi til framkvæmda sé veitt. Af þessari lagagrein má ráða að það sé á hendi leyfisveitanda að afla álits Skipulagsstofnunar um endurskoðun matsskýrslu, ef framkvæmdir hefjast ekki innan 10 ára. Í 2. mgr. 12. gr. segir að Skipulagsstofnun geti ákveðið að endurskoða skuli matsskýrslu framkvæmdaraðila skv. 1. mgr. ef forsendur hafi breyst frá því að álitið lá fyrir, svo sem vegna breytinga á náttúrfari o.s.frv. (undirstrikun er okkar).

Skipulagsstofnun lítur svo á að stofnuninni sé ekki með þessu falin sjálfstæð heimild til þess að ákveða að endurskoða skuli matskýrslu, heldur séu í 2. mgr. talin upp þau sjónarmið sem Skipulagsstofnun ber að líta til þegar hún tekur ákvörðun um hvort endurskoða skuli matsskýrslu skv. 1. mgr. Með vísan til þessa telur Skipulagsstofnun að stofnuninni þurfi að berast ósk frá leyfisveitanda, skv. 1. mgr.12. gr., áður en stofnunin getur tekið til ákvörðunar hvort endurskoða beri matsskýrslu.

Þóroddur F Þóroddsson Jakob Gunnarsson
Myndin er af þremur konum við mótmælaaðgerðir við Þjórsá. Ljósmynd: Guðrún Tryggvaóttir.

Birt:
1. október 2007
Höfundur:
Sól í Flóanum
Tilvitnun:
Sól í Flóanum „Áskorun til sveitarstjórnar Flóahrepps“, Náttúran.is: 1. október 2007 URL: http://nature.is/d/2007/10/01/skorun-til-sveitarstjrnar-flahrepps/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 2. október 2007

Skilaboð: